Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Anarchy Alive: Anti-Authoritarian Politics from Practice to Theory
Höfundur: Uri Gordon
Útgáfuár: 2007
Útgefandi: Pluto Press

Efni: Anarkismi, stjórnmálaheimspeki 

Bókmenntir um anarkisma eru gjarnar á að fjalla um kenningar og hugmyndir löngu dauðra manna sem bjuggu við allt annað samfélagsform en við búum við í dag. Þó margar af hugmyndum þeirra eigi enn erindi er óneitanlega þörf á uppfærðri, nútímalegri og meira lifandi hugmyndafræði og kenningasmíð. Þessari þörf er að miklu leiti mætt í skrifum er birtast í neðanjarðartímaritum, gefnum út í litlu upplagi og dreift milli anarkista en ná sjaldan út fyrir þann þrönga hóp. Það útgáfuform gefur heldur ekki pláss fyrir heildarsýn sem kafar djúpt í málefnin og dregur þau saman í einhvers konar heildarmynd. Þessi bók er tilraun til þess. 

Í þeim sex köflum sem birtast hér (að frátöldum inngangi og lokaorðum) fjallar Ísraelski anarkistinn Uri Gordon m.a. um anarkisma sem pólitískan kúltúr í samfélagi nútímans. Hann lýsir þar hvaða þátt anarkistar eiga í þeim stóru hreyfingum fyrir félagslegum umbótum sem hafa verið hvað mest áberandi síðastliðin 10 ár eða svo með stórum mótmælum gegn G8-leiðtogafundum, leiðtogafundum Evrópusambandsins o.s.frv., en ennfremur skoðar hann og greinir hvernig anarkistar skipuleggja sig og þar með hvernig þeir skilja sig að frá hófsamari öflum innan þessarar hreyfingar (sem oft er kölluð 'hreyfingin gegn alþjóðavæðingu' sem er rangnefni þar sem hreyfingin er fylgjandi alþjóðavæðingu en vill bara að hún fari öðruvísi fram). Hann tæklar þar óttann við að nota orðið anarkismi til að lýsa hópum þrátt fyrir að þeir séu augljóslega skipulagðir á anarkískan máta. 

Í kafla tvö fer Gordon yfir lykilorð í orðræðu nútíma-anarkista og hvernig anarkisminn í dag skilur sig frá hinum eldri anarkisma. Kaflinn veitir góða yfirsýn yfir pólitískar áherslur anarkista og einnig þau skil sem hafa myndast á milli 'klassísks' anarkisma og hins 'nýja' anarkisma. 

Þriðji kafli tekur á vandamálum varðandi vald og valdbeitingu innan hreyfingar sem almennt afneitar valdi í öllum sínum myndum (mikil einföldun reyndar). Hann greinir milli þriggja gerða valds og setur hverja þeirra í samhengi við annars vegar anarkisma sem hugmyndafræði og hins vegar við anarkisma í daglegum praksis. 

Fjórði kafli hefur hið skemmtilega nafn 'Peace, love and petrol bombs' og fjallar um ofbeldi og valdbeitingu. Ofbeldi hefur alla tíð verið umdeilt mál meðal anarkista, sérstaklega þar sem anarkistar mæta oft þeim ásökunum að þeir séu bara ofbeldisseggir sem reyna (eða vilja) skemma allt og koma á óreiðu. Gordon tæklar hér nokkrar af helstu spurningum varðandi ofbeldi sem hvað oftast koma upp meðal anarkista. 

Fimmti kaflinn fjallar um nútímatækni, útópíu og viðhorf anarkista til tækni. Anarkistar eru mjög virkir í umhverfisvernd og gagnrýni á tækni og jafnvel sjálfa iðnvæðinguna eru algeng meðal nútímaanarkista. Hinir svokölluðu anarkó-primitivistar afneita meiraðsegja siðmenningu eins og hún leggur sig og dásama samfélög safnara og veiðimanna. Gordon fjallar hér náið um hvernig tækni stjórnar valdahlutföllum í samfélaginu, hvernig valdastrúktúr myndast í kringum nýja tækni og hvernig hún ógnar oft umhverfinu. 

Sjötti og síðasti kaflinn fjallar svo um þjóðernishyggju séð út frá anarkisma. Hann setur þessa umfjöllun í samhengi við málefni nákomið honum, nefnilega baráttuna milli Ísraela og Palestínumanna. 

Það hefur verið þörf fyrir svona bók í dágóðan tíma. Fræðileg verk anarkista hafa of lengi fjallað eingöngu um gamlar kenningar og verið föst í fortíðinni. Í kjölfar '68 kynslóðarinnar og þeirri samfélagslegu og hugmyndafræðilegu byltingu sem fylgdi þeirri kynslóð hefur skapast gjá sem skilur að klassískan anarkisma frá hinum nútímalegri anarkisma sem hefur ekki bara aðrar áherslur heldur algjörlega nýja hugtakanotkun, orðræðu og ný skipulagsform. Þessi nýji anarkismi er oftast kallaður 'post-left' anarkismi (en er á niðrandi hátt kallaður lífsstílsanarkismi af fylgjendum klassísks anarkisma) og á mun minna sameiginlegt með kommúnisma og sósíalisma heldur en hinn klassíski. Post-left anarkismi á hugmyndafræðilega séð mun meira sameiginlegt með feminisma, existensíalisma og sér í lagi vistfræði og umhverfisvernd. Og það er alveg klárt að Uri Gordon tilheyrir þessari nýju kynslóð anarkista. Það er því frábært að þessi bók sé loks komin út á forlagi sem hefur góða dreifingu og kemur þessum hugmyndum á framfæri fyrir víðari lesendahóp. En þar liggur líka ákveðið vandamál. Bókin er nefnilega ekki skrifuð fyrir hinn almenna lesanda. Gordon gerir það alveg klárt frá upphafi að tilgangur hans er ekki að sannfæra fólk um ágæti anarkisma heldur einungis að tækla siðferðileg, pólitísk, skipulagsleg og heimspekileg vandamál sem upp koma/hafa komið meðal anarkista nútímans. Bókin er því ekki ætluð fáfróðum lesendum heldur frekar þeim sem þegar þekkja aðeins til anarkisma og/eða eru núþegar virkir í pólitísku starfi á vinstri kantinum eða í umhverfisvernd eða öðrum slíkum hreyfingum.En fyrir okkur sem þekkja til er bókin himnasending, þó hún sé á köflum tormelt og þung. Bókinni er heldur ekki ætlað að veita svör við þessum spurningum sem hann veltir upp. Tilgangur bókarinnar er frekar að koma óþægilegum spurningum fram í umræðuna, setja fram ólíkar hugmyndir og kenningar, teknar bæði frá anarkistum og hinum ýmsu fræðimönnum, og láta þær gerjast í höfði lesandans. Ég var sérstaklega hrifinn af köflunum um tækni og þjóðernishyggju. Í tæknikaflanum fékk ég aðgang að hugmyndum sem ég hef aldrei lesið áður og notkun hans á heimildum, kenningum og hugmyndum utan hins lokaða heims anarkismans var sérstaklega kærkomin. Ég hafði aldrei velt fyrir mér áður hvernig tækni viðheldur og býr til nýja valdastrúktúra. Kaflinn um þjóðernishyggju séð í samhengi málefna Ísraels og Palestínu var líka sérstaklega vel framsettur og Gordon setur fram þarfa gagnrýni á hið hefðbundna sjónarmið anarkista að hægt sé að sjá deilur sem þessa einungis í stéttasamhengi. Auk þess var lýsing hans á 'bioregionalism' sem mótsvari við þjóðríkinu og þjóðernishyggju áhugaverð og ég ætla mér nú að finna meiri bókmenntir um það fyrirbæri. 

Það var margt fleira sem ég lærði mikið af við lestur bókarinnar og fannst áhugavert en það verður samt að segjast eins og er að bókin er fremur þurr og fræðileg og því á köflum vandlesin. En efnislega séð er hún virkilega góð. Ég mæli með bókinni fyrir alla sem hafa áhuga OG grundvallar þekkingu á umfjöllunarefninu því sem inngangsrit dugar hún alls ekki.

Vilhelm Vihelmsson

Til baka í umfjallanir