Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Earth Abides

George R. Stewart

1949

 

Isherwood Williams er einfari sem sækir í einveru í náttúrunni. Í eitt skiptið sem hann kemur ofan af fjöllum eftir nokkra dvöl, hefur vírusplága þurrkað út mannkynið. Nær allar manneskjur eru dauðar. Borgirnar tómar fyrir utan hunda og ketti.  Hann gengur fram á lík hér og þar en margir höfðu náð að flýja pestina tímabundið svo massadauðinn er annarsstaðar.

 

Ish leggur upp í ferðalag  um bandaríkin til að átta sig á umfangi hrunsins. Hann finnur eftirlifendur hér og þar en margir af þeim fáu sem (af einhverjum ástæðum) eru enn lifandi eru ruglaðir af áfallinu, hafa gefist upp, eða eru að öðru leyti ekki einstaklingar sem hann treystir sér til að binda trúss sitt við.

 

Að endingu rambar hann á konu sem hann tengir við og þau taka þá eðlislægu ákvörðun að lifa af saman í mannlausri San Francisco borg. Sagan segir frá vistfræðilegum uppákomum eins og rottuplágu og hundaplágu og ýmsum öðrum fylgikvillum þess að reyna að bæði  lifa af og njóta lífsins þegar ekkert samfélag eða félagsleg kerfi eru eftir í kring. Þau hafa samband við nokkra aðra einstaklinga sem þau vita af í grennd og geta treyst til að búa með öðrum. Þannig mynda þau nýjan ættbálk sem vex upp í um 30 einstaklinga.

 

Þau byrja nýtt tímatal þar sem hamfaraáríð er árið 0. Þau borða vel af niðursoðnum matarbirgðum borgarinnar auk þess að veiða bæði fisk og villikýr sem þróast uppúr fyrrum búsmala. Innan nýja ættbálksins er Isherwood nærri því sá eini sem veltir fyrir sér heimspekilegum hliðum þessarar nýju tilveru og leggur áherslu á að þau verði að viðhalda siðmenningunni. Afætulífssstíll hópsins er ekki sjálfbær og þau leitast ekki við að bæta úr því heldur láta flestir hverjum degi nægja sína þjáningu. Hann leitast við að kenna stækkandi barnahópnum almennan barnaskólalærdóm en börnin draga dám af foreldrum sínum og geispa yfir þessari speki.

 

Hér kemur að athyglisverðasta þætti sögunnar því börnin læra af foreldrum sínum án þess að verða fyrir nokkrum þynningaráhrifum frá stærri félagslegum hringjum, því þeir eru ekki til staðar lengur og gagnvart börnunum er samfélagið sem var, ekkert annað en goðsögn. Ish sér hvernig þau taka hjátrúarferli sem í dag er álitið skemmtilegar kenjar, eins og að banka-í-tré, sem sannleika og sér fyrir sér að á nokkrum kynslóðum geti samfélag framtíðarinnar orðið að ofstækissöfnuðum því gagnvart þeim er enginn annar sannleikur en þeirra eigin. Það er einungis tilviljun að þeirra ættbálkur er ekki leiddur af trúarlegum harðstjóra. Gagnvart börnunum er Ish „hinn spaki“ og hamar sem hefur fylgt honum lengi, verður helgur hlutur í huga barnanna svo þau þora ekki að snerta hann.

 

Annar sláandi þáttur í þróun þessa litla samfélags er hvernig það ver sig. Eftir áratugi einangrunar birtist náungi sem „þau fullorðnu“ innan ættbálksins fá þegar illan bifur á. Hann sýnir ættbálknum enga virðingu og þau óttast sundrungu og dæma hann til dauða og drepa hann. Ish sér þetta sem endursköpun réttarríkisins og er miður sín lengi á eftir.

 

Þegar frá líður verður sífellt minna heillegt eftir af tæknilegum leifum siðmenningarinnar sem ættbálkurinn getur nýtt sér. Bílar eru ónýtir, púður í byssurnar eyðileggst. Vatnsveitukerfin ryðguð. Börnin nenna ekki að læra að lesa og Ish áttar sig á því að það væri dauðadómur komandi kynslóða að gera þau háð þeirri siðmenningu sem nú er liðin. Hann gefst upp fyrir því og tekur upp aðra taktík. Sem leik kennir hann börnunum að búa til boga og örvar. Hafandi komið þeirra kunnáttu í hendur komandi kynslóða veit hann að þau muni bjarga sér.

 

Þetta er afar heillandi skáldsaga. Auk þess að glíma við stórar spurningar um eðli og framtíð samfélags manna er hún fallega skrifuð og spennandi því lesandinn vill vita hvernig fer fyrir svo  litlu samfélagi við svo erfiðar aðstæður.  Hún er líka átakanleg því gegnum söguna er Ish að átta sig smám saman á endanleik þeirrar staðreyndar að mannkyn, eins og hann ólst upp við það, er liðið undir lok. Meðan lífsförunautar hans í ættbálknum gengu í gegnum áfallið á nokkrum vikum eða mánuðum og héldu svo áfram að lifa, virðist hann ekki komast yfir þessa staðreynd fyrr en hann er orðinn fjörgamall og fylgist með afkomendum sínum í lífsstíl veiðimanna og safnara. Þannig er öll sagan sorgarferli hans yfir missinum. 

 

Eins og Derrick Jensen og fleiri hafa orðið til að benda á þá er siðmenning okkar alls ekki sjálfbært fyrirbæri og mun því líða undir lok á einhverjum tímapunkti. George Stewart kýs að láta massadauða alls mannkyns vera frekar snyrtilegt ferli og hvergi er minnst á nálykt, en líklega var það auðveldara árið 1949 þar sem mannkyni hefur fjölgað mjög mikið síðan þá.

Earth Abides er almennt góð skáldsaga en sérstaklega heillandi fyrir bókaorma sem hafa velt fyrir sér hruni siðmenningarinnar.

 

Sh feb 09

 

 

Til baka í umfjallanir