Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Ishmael - An Adventure of Mind and Spirit

Daniel Quinn

Maður sér auglýsingu í blaði; "Kennari leitar nema. Verður að hafa einlægan áhuga á að bjarga heiminum." Auglýsingin vekur hjá manninum pirring. Hann hefur reynslu af sjálfskipuðum gúrúum sem taka sér það hlutverk að segja fólki til um hvernig það á að lifa og hegða sér án þess að segja það af nokkurri einlægni eða efasemdum um ágæti eigin alhæfinga. En maðurinn ákveður að mæta á staðinn. Þangað kominn er ekkert að sjá nema glerbúr með risastórum górilluapa og skilti sem á stendur: "With Man Gone, Will there be Hope for Gorilla?" Hann veltir fyrir sér hvort átt sé við að górillan eigi sér ekki viðreisnar von án mannshjálpar eða nema maðurinn hverfi?

En undrun hans verður mikil þegar górilluapinn byrjar að tala við hann og mælir á góðri enskri tungu. Þetta er sjálfmenntuð górilla sem bjargað var úr dýragarði af manni sem lærði á leyndarmál hans - að hann gæti lært. Um leið og fyrsta sjokkið er yfirstaðið hefst kennsla mannsins. Með sókratískri samræðutækni lærir hann af górillunni í hverju vandamál heimsins felast. Górillan, sem heitir Ishmael, dregur með dæmisögum af mótunarsögu siðmenningarinnar, smám saman upp mynd af rándýrseðli siðmenningarinnar. Hann skiptir manneskjum í tvennt; þeim sem bara TAKA og hinum sem LEIFA. Þau sem LEIFA hafa lifað án þess að líta á sjálf sig sem skorin frá náttúrunni, eru „frumstæð,“ meðan þau sem TAKA líta á náttúruna sem eitthvað til að verka og nýta, eru „siðmenntuð,“ og tapa rótum tilveru sinnar um leið.

Móðir Siðmenning (eins og Föðurland) elur síðan sín börn á þessari trú. Ishmael dregur upp mörg heimspekileg og raunveruleg dæmi um hvernig þessari trú er viðhaldið og hvernig hún er kennd á innprentandi hátt þannig að efinn sækir strax á hvern þann sem heyrir sagt frá öðrum möguleikum og við lærum að líta á hvern annan mögulegan lífsstíl sem fáránlegan.

Górillan er víðlesin og tekur til biblíusögur jafnt og kenningar Darwins í kennslu sinni um agressíva yfirtöku vestrænnar siðmenningar í heiminum og þeim hrikalegu vandamálum sem það er að valda, því trúin er að hver sú efnahagsleg hugsun og framkvæmd sem ekki miðar að þenslu, sé tap og boði hrun. Það kallar á rányrkju sem fer núna fram og virðist ekki muna stöðvast nema með vistfræðilegu eða efnahagslegu hruni. Upphaf vandamálsins (siðmenningar) hafa einnig aðrir orðið til að greina í upphafi landbúnaðar, þegar hópar manna fóru að nota náttúruna og leitast við að stjórna henni í stað þess að vera hluti af henni.

Nálgunin á vestræna siðmenningu sem grunnvandamál, er í Ishmael skemmtileg. Einn vinur minn sagði hugmyndina stolna frá Kafka; eftir Kafka lægi m.a. smásaga um jakkafataklædda górillu haldandi fyrirlestur um sjúkleika vestrænnar menningar, yfir fullum sal prófessora. Hvað sem því líður þá er Ishmael grípandi frásögn sem hrífur lesandann með í heimspekilegum vangaveltum um eðli og uppruna okkar daglega lífs. Verandi heimspekileg skáldsaga og um leið saga um andlega leit, er hún alveg laus við þá þurrlegu orðskrúð sem hrekur fólk frá því að lesa sér til og kynna sér rætur þeirra gífurlegu vistfræðilegu vandamála sem allt sem lifir er að verða fyrir áhrifum af.

Sagan fjallar einnig um persónuleg samskipti þessara tveggja ólíku einstaklinga. En aðallega er hún sókratísk orðræða í skáldsöguformi þar sem kennarinn leiðir nemandann áfram til að virkja huga sinn. Sterk frásögn sem hefur verið mörgum innblástur og heldur áfram að vera það.

Sigurður Harðarson 
 

 

Til baka í umfjallanir