Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

 

ENDGAME, Vol. II, RESISTANCE

Derrick Jensen

Seven Stories

 

 

„Siðmenningin er ekki og getur aldrei verið sjálfbær. Þetta á sérstaklega við um hina iðnvæddu siðmenningu."

 

Þessi bók er seinni hluti Endgame bókanna. Sú fyrri heitir „the Problem of civilization." Einhverra hluta valdi ég að lesa seinni hlutann fyrst. Líklega afþví að mér var svo mikið í mun að kynna mér andspyrnuhugmyndir til bjargar náttúrunni.

 Derrick Jensen er rithöfundur og heimspekingur sem hefur skrifað margar bækur um árásir siðmenntaðs fólks á þá náttúru og þau vistkerfi sem allt sem lifir er hluti af. Hann er róttækur rómantíker sem segist tala við trén en um leið er hann aktivisti sem er harður á því að allar leiðir verði að fara til að bjarga því sem bjargað verður af landinu sem er undirbygging alls sem lifir. Hann er góður penni þó hann eigi það til að endurtaka sig (væntanlega er það ákveðin tækni til að koma hlutunum til skila), hann spjallar um leið og hann fílósóferar. Kannski er málið með flæði textans að jensen er ekki lærður heimspekingur heldur eldheitur áhugamaður og rithöfundur og kafar í það efni sem hann fjallar um í það og það skiptið án þess að festast í langsóttum og illskiljanlegum hugtökum. Hann skilgreinir og útfærir á talmáli en ekki fræðimáli. Hann tekur alltaf rök sín úr raunverulegum dæmum í stað þess að vitna í þekkta siðfræðinga úr hugmyndasögunni, nema þá til þess að taka rök þeirra (eins og friðarsinnans Ghandi) í sundur, þegar hann mælist til þess að beitt sé öllum ráðum til að verjast og berjast á móti árásum stórfyrirtækja eða stofnana á skóg, haf, ár eða vötn.

Þessi bók er hættulega mikill innblástur fyrir lesandann sem er fyrirfram sammála honum að náttúruna verði að verja. Aðferðir við andspyrnu náttúruverndarsinna hafa hingað til alltaf verið háðar rökum friðarsinna, eða þeirra sem hamra á því að ofbeldi leiði af sér ofbeldi og því eigi ekki að beita því. En beiting ofbeldisins er þegar til staðar af hendi þeirra sem eru að ráðast á það sem tilvera okkar byggist á. Því tekur Jensen t.d. inn í myndina manninn sem beitir fjölskyldu sína ofbeldi; einstakling sem fjölskyldan getur ekki talað um fyrir, því hann mun áfram leita leiða til að koma fram vilja sínum, og heimfærir þessa stöðu upp á þá sem beita landið ofbeldi. Hann bendir á að kona sem verður fyrir árás af hendi manns sem ætlar að nauðga henni, er í fullum rétti til þess að skjóta árásarmanninn í hausinn og þannig drepa hann. Það sama á við um formann fyrirtækis sem vinnur harkalega að því að ná sem mestu út úr auðlindum jarðar meðan hann getur hagnast á því, fyllilega meðvitaður um að starfsemi hans mengar og drepur (honum finnst bara peningar mikilvægari). Stjórnandinn hefur hugsunarhátt nauðgarans og ætli aktivistar sér raunverulega að bjarga jörðunni frá græðginni, er ekki eftir neinu að bíða.

Það er einmitt ákall Jensen í þessari bók; „eftir hverju eruð þið að bíða?!" Hann vill hefjast handa strax við að sundurlima þá siðmenningu sem ræðst á grunn tilverunnar og dregur fram ýmsa möguleika til andspyrnu. M.a. lýsir hann samtölum við fyrrum hermann og sérfræðing í sprengiefnum um hvaða kunnáttu og þjálfun þurfi til að nota sprengiefni, hann spjallar við líffræðinga og vistfræðinga um skammtíma- og langtímaafleiðingar þess að eyðileggja stíflur í ám þar sem allt líf er að fjara út vegna stíflunnar. Hann ræðir við tölvuhakkara um möguleikana á að stöðva rekstur gegnum tölvustýrð kerfi. Hann veltir spurningunni um hversu langt megi ganga upp á alla kanta.

Jensen er er með þessum bókum að hvetja fólk til að axla ábyrgð. Aktivismi til bjargar náttúrunni er vilji til að axla ábyrgð. Hann er búinn að vera að gefa út bækur og svara spurningum um þessi málefni (og margt fleira) í mörg ár og er kominn langt útfyrir vangaveltur um hvað eigi að koma í staðinn. Hann dregur ekki upp neinar útópíur eftir hrun siðmenningarinnar. Hann vill sjá villt dýr þrífast í vistsvæðum sínum sem orkuþörf og útbreiðsla siðmenningar er búin að stífla, fletja út og menga.

Endgame er 700 blaðsíðna auðlesin bók og svörin við spurningunum sem vakna við að lesa þessa litlu umfjöllun er að finna í bókinni sjálfri. Það fallega er að höfundur er ekki einu sinni jafn svartsýnn og niðurdrepandi og margir aðrir sem skrifa um árásir á vistkerfi okkar. Hann hefur fulla trú á því að eftir að siðmenning okkar samtíma hefur hrunið með öllum þeim hörmungum sem eru óhjákvæmilegar, munu trén vaxa aftur, fiskurinn synda upp árnar og villtu dýrin fjölga sér á ný. 

Það er raunverulega til mikið af fólki sem heldur að steinsteypa og malbik sé náttúrulegt umhverfi, rétt eins og það er til fólk sem trúir því að rennandi árvatn sé orka að fara til spillis (því tæknilega séð væri hægt að virkja allt sem rennur). Á sama hátt er til valdamikið fólk sem heldur það "guðsgefinn rétt" sinn að græða á náttúruauðlindum án tillits til afleiðinga og Jensen nefnir dæmi um stjórnmálamann í Kaliforníu sem heldur fram „guðgefnum rétti" smáborgarans að stífla ár til að fólk geti vökvað garðana sína. Siðmenningin kallar það framfarir.

Við það fólk sem vill ekki skilja að rennsli straumvatna er hluti af heild sem gerir okkur öllum kleift að anda og þrífast, er erfitt að segja að útbreiðsla siðmenningar okkar eyðileggi viðurværi sitt og standi á brauðfótum. Fleiri og fleiri verða að átta sig á mikilvægi andspyrnunnar og samkvæmt Jensen eru það stöðugt fleiri sem sannfærast og vilja taka til hendinni. Fyrir þau sem grunar að eitthvað sé að og að eitthvað þurfi að gera í því, er sterkur leikur að glugga í Endgame bækurnar.

Sigurður Harðarson

 

Til baka í umfjallanir