Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

 

TELEVISIONARIES- The Red Army Faction Story 1963-1993

 Tom Vague

AKPRESS

 

Eitt sinn var ég staddur á Spáni og dvaldi meðal spánverja í nokkrar vikur á tungumálanámskeiði. Á þeim tíma skutu meðlimir ETA ungan lögreglumann til bana sem hluta af vopnaðri baráttu sinni gegn spænska ríkinu. Mikil sorg og reiði var meðal fólksins í kringum mig og þetta var rætt af ákefð. Það vakti hneykslan allra þegar ég sagði að ég kæmist ekki hjá því að finnast athyglisvert og magnað að einhver hefði svo mikla trú á einhverjum málstað að hann eða hún gæti myrt mann með köldu blóði í hans nafni. Þetta mátti enginn heyra á minnst.

 

Í „Televisionaries" rennir Tom Vague yfir sögu skæruliðasamtakanna RAF (oft kennd við Baader-Meinhof). Þau byrjuðu sem hópur af vinstrisinnuðu ungu fólki sem mótmælti árásarstríði USA  í Víetnam og öðru óréttlæti í nafni ríkisstjórna ýmissa ríkja. Mótmælendur voru lamdir harkalega fyrir af lögreglunni og einhverjir skotnir af lögreglu fyrir þátttöku  í friðsamlegum aðgerðum. Nokkrir einstaklinga úr þessum hópum róttækra vinstrisinnaðra stúdenta ákváðu að nú væri nóg komið af því að beita friðsamlegum aðgerðum gegn agressívum  útsendurum ríkisins og kominn tími á að skjóta á móti.

 

 Þau hefja hryðjuverkaferil sinn með íkveikjum sem kemur þeim  (Andreas Baader, Gudrun Ensslin o.fl,) í fangelsi. Þau brjótast úr fangelsinu og komast úr landi og hefjast handa við raunverulega vopnaða baráttu gegn heimsyfirráðastefnu kapítalistaríkja. Þegar hér er komið sögu er RAF þegar orðin nokkrar sellur sem sumar fara í þjálfun í vopnaburði hjá skæruliðum Al Fatah í Palestínu. Strax á þessu stigi er greinilegt að innan hópsins er stöðug togstreita um völd og leiðtogastöður (eins og gjarnan sést þegar lesið er um byltingartilraunir  kommúnista).

 

Meðlimir RAF ræna banka til að afla fjár til vopnakaupa og annar undirbúningur er í gangi fyrir rekstur á fullgildum skæruliðahóp - íbúðir leigðar, bílum stolið og nýliðar teknir inn. Þetta er um 1970. Meðlimir RAF (nafnið Rote Arme Faction er valið í gríni þar sem Rauði Herinn lamdi áður á þýskum nasistum) lenda reglulega í skotbardögum við þýsku lögregluna upp úr bankaránum og sprengjutilræðum við bandarískar herstöðvar og háttsetta opinbera starfsmenn þýska ríkins. Aðrir byltingarhópar spretta upp sem tilbrigði við RAFog beita svipuðum aðferðum. Það er hefnt fyrir árásir bandaríkjahers í hinu óvinsæla Víetnamstríði og stuðning þýska ríkisins við stefnu USA. Á sama tíma verða aðgerðir lögreglunnar harðari og hryðjuverkafólkið er hundelt um alla evrópu. 

 

1972 eru allir helstu leiðtogar RAF í fangelsi. Vinsældir hryðjuverkafólksins meðal almennings eru þó nokkrar, eða eins og einn þýskur kunningi minn orðaði það þá „drápu þau allavega rétta fólkið" þegar þau skutu og sprengdu upp hershöfðingja NATO ríkja og háttsettra kapítalista. Þegar fréttist af harkalegri meðferð á þeim í fangelsi eiga sér mikil mótmæli sér stað og hróður hreyfingarinnar fer vaxandi. M.a. Jean-Paul Sartre talar máli fanganna en lýsir því samt yfir að aðferðir þeirra eyðileggi fyrir vinstrimönnum í evrópu.

 

Ég var pjakkur þegar þetta átti sér alltsaman stað en man þó óljóst eftir fréttum af endalausum hungurverkföllum fanganna og langvinnum gíslatökum sem enduðu oft með aftökum og mannskæðum skotbardögum. Einn RAF fangi sveltur í hel þegar fangelsislæknar neita að bregðast við versnandi heilsufari hans.

 

Langvinn réttarhöld yfir leiðtogum RAF eiga sér stað. Fangarnir sýna réttinum enga virðingu og oft fer allt í hund og kött. Stjórnmál þeirra koma oft vel fram í þessum hluta þegar þau benda á að samkvæmt skilgreiningum á hryðjuverkum sé það eyðilegging á innri byggingu samfélags og að skapa ótta og glundroða meðal almennings. Það var einmitt markmið loftárása bandaríkjamanna á Víetnam og Ísraelska ríkisins gagnvart Palestínsku þjóðinni meðan RAF gerði einungis árásir á hernaðarmannvirki og tæki ríkisins.

 

Þegar fram vindur sögunni dreifast árásir um lönd evrópu og farþegaflugvélum er rænt til að fá pólitíska fanga lausa úr prísund. Aðrir hópar og hreyfingar myndast  - Action Directe í Frakklandi, Brigade Rosse í Ítalíu, CCC í Belgíu en með falli Berlínarmúrsins má segja að RAF hafi dottið uppfyrir. Andres Baader, Gudrun Ensslin og Jan-Carl Raspe deyja öll í fangelsi við grunsamlegar aðstæður. Opinbera skýringin er sjálfsmorð en samfangar þeirra gefa aðra sögu og sjálf höfðu þau lýst því yfir að sjálfsmorð af þeirra hálfu væri ekki inni í myndinni og ef til þess kæmi þýddi það að þau hefðu verið myrt.

 

Televisionaries er afar stytt útgáfa af sögu RAF, atburðarásin rakin í skeytastíl í tímaröð. Auðlesið og hentugt form vilji maður kynna sér sögu RAF án þess að liggja neitt yfir henni. En hinsvegar gefur þetta form ekkert rými fyrir persónulegar lýsingar eða frásagnir þátttakenda. Ég er engu nær um hvað dreif þetta fólk áfram; réttlætiskennd? Hatur? Ást eða egóismi? Hvernig líf er það að vera hundeltur fyrir eitthvað sem maður trúir á? Hvað fær mann til að gefa algerlega upp möguleikann á einkalífi, einhverri mynd af fjölskyldulífi eða þægindum til að standa í baráttu sem næsta víst er að sé fyrirfram töpuð? Sjálfseyðingarhvöt eða óbilandi trú á málstaðinn?  

 

Við lesturinn áttaði ég mig betur á því hve barátta vopnaðra róttæklingahópa er algeng í sögu evrópu. Allir vita eitthvað um IRA og ETA o.fl en bara árið 1982 áttu sér stað sex hundruð sprengjuárásir vinstrisinna RAF á valin skotmörk í þýskalandi. Samt eru ríkisstjórnir og fjölmiðlar nú að reka upp ramakvein yfir litlum hópum öfgamúslima sem vilja vopnast gegn heimsyfirráðum vestrænna ríkja (Þegar RAF varð til var USA að ráðast inn í Vietnam, nú er USA að ráðast inn í múslimalönd).

 

Ég áttaði mig líka betur á baráttu t.d. dönsku lögreglunnar við að koma Ungdomshúsanarkistunum burt og á kné því hópar eins og RAF fengu sína stuðningsmenn og nýliða gjarnan úr hópum hústökufólks.

 

Fyrir frekari lestur um RAF mælir höfundur með bókunum „The Baader -Meinhof Group; The Inside Story of a Phenomenon eftir Stefan Aust og „How It all Began/Terror or Love" eftir Bommi Baumann auk „The German Guerilla: Terror, Reaction and Resistance."

 

Sigurður Harðarson

 

Til baka í umfjallanir