Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Shibboleth - My Revolting Life
Penny Rimbaud a.k.a. J.J. Ratter
AK Press
340 bls

Penny Rimbaud var hluti af anarkistahópnum sem myndaði hljómsveitina CRASS. CRASS höfðu mikil áhrif í þá átt að kynna anarkisma og vekja réttsýnt fólk til baráttu gegn valdníðslu og ofbeldi. Í þessari bók segir Rimbaud ævisögu sína og fléttar inn í hana sögunni af hvernig Crass varð til, örlögum Wally Hope, friðarsinna sem var “fjarlægður” úr baráttunni af breskum yfirvöldum og ýmsum vangaveltum og eldri skrifum.

CRASS starfaði á árunum 1977-1984 en ferill Rimbaud sem uppreisnarseggur byrjaði með hippunum. Hann lýsir uppvexti sínum, kynlífsævintýrum og öðrum vörðum á þroskaleið sinni frá barni til unglings, stuttlega. Síðan kemur að því hvernig hann breytist frá artý-fartý upparæksni yfir í hippa. Hann leigir bóndabæ sem breytist í sambýli ýmissa furðufugla, m.a. þeirra sem seinna stofna hljómsveitina CRASS á fylleríi, um það leyti sem Sex Pistols prumpblaðran er að springa og fletjast út.

Meðlimir Crass sáu það fljótt út að þau yrðu að gera þetta almennilega eða sleppa þessu og létu renna af sér og voru, áður en þau vissu af, komin í hörkustríð við fasistastjórn Margaret Tatcher. Ein plata þeirra var tekin fyrir á breska þinginu og reynt var að dæma hana sem klám þar sem hún innihélt sterka texta gegn Tatcher og stríði hennar við stjórn Argentínu um yfirráð Falklandseyja.

Rimbaud lýsir vel í bókinni hvernig hann og félagar hans voru reknir áfram af þeirri reiði, sem kúgun lögregluríkisins Englands gagnvart “viðfangsefnum” sínum, vakti í brjóstum þeirra. Hann lýsir líka ótta þeirra og efasemdum sem jukust eftir því sem þetta upprunalega flipp, pönkbandið CRASS, hlóð utan á sig. Eftir sjö ár af stanslausri vinnu og útgáfu tónlistar, ljóða, bóka og bæklinga fundu þau að þau voru við það að ná einhverri “leiðtogastöðu” meðal breskra anarkista, ekki staða sem neinn anarkisti vill finna sig í. Fyrrum meðlimir Crass starfa í dag að ýmsum verkefnum sem öll tengjast upprunalegu markmiðunum.

Þessi bók er einnig persónulegt uppgjör mannsins JJ Ratter við uppreisnarsegginn Penny Rimbaud. Hann varpar fram spurningum varðandi eigin frómleika í sambandi við andspyrnuvirkni sína og vilja til að halda áfram, þó að lögreglurríkið léti hann og félaga hans vita hve aðvelt er að láta fólk hverfa.

Rimbaud er skemmtilegur penni. Hann hefur skrifað texta og ljóð árum saman og frásögn hans er yfirleitt blátt áfram. Þó kemur ljóðskáldið fram á köflum þegar hann notar eldri skrif til að lýsa hugsunum sínum á ákveðnum köflum í lífi sínu.

Þessi bók er ekki bara upplýsandi og skemmtileg lesning fyrir pönkara sem eru nógu gamlir til að hafa orðið fyrir áhrifum af Crass (Crass léku hér fyrir fullri laugardalshöll 1984). Hún er virkilega hvetjandi lesning fyrir þau okkar sem finnst að eitthvað sé að og að eitthvað þurfi að gera í málunum.

Sigurður Harðarson

Til baka í umfjallanir