Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

 

Expect Resistance, a field manual

Crimethinc. Ex-Workers‘ Collective

2008

 

Nýjasta stóra bók anarkistanna sem saman kalla sig Crimethinc og forðast eins og heitan eldinn að kenna sig við anarkistafræði heldur anarkistalíf, er einskonar lifandi lýsing á því að upplifa þær pælingar sem settar voru fram í bókinni „Days of War, Nights of Love (íslenska útgáfan heitir „Dansað á Ösku Daganna, bók um byltingu hins daglega lífs“).

 

Expect Resistance segir þrjár sögur sem elta hver aðra gegnum bókina og aðgreina sig með letur-og litabreytingum. Ein sagan segir af einstakling sem lærir að frelsa eigin tilveru frá framabraut í starfi sem ekkert gefur, með varfærnum kynnum af aktivistum sem leggja alla sína orku í félagslega byltingu.

 

Frásögnin er stöðugt brotin upp með hugleiðingum um og ádeilu á það líf ímyndarinnar sem menningarheimur samkeppni og markaðar hefur skapað manneskjum og allur hinn vestræni menningarheimur er byggður á. Ein vinkona mín lýsti upplifun sinni af lestri bókarinnar þannig að „loksins skildi hún það sem Daníel var alltaf að segja“ en það var einn vinur okkar sem hafði oft verið að fræða hana um pólitískt ástand heimsins útfrá hans vinstri- og anarkísku viðhorfum og sjálfsmenntun en ekki tengt það við líf hennar.

 

Mín fyrstu viðbrögð þegar ég hóf lesturinn var „ó nei ekki meira af ofurrómantík byltingar þess að stinga af að heiman og stökkva í staurblankt ferðaleg út í buskann.“ En það viðhorf mitt datt fljótlega upp fyrir þegar ég kom eilítið lengra inn í bókina. Mæli samt með að „Expect Resistance“ sé lesin í áföngum. Hún hamrar á uppreisn einstaklingsins í menningarheimi fjöldans, á uppreisn hinnar villtu ástar í heimi þar sem ástin er markaðssett, á uppreisn þeirra lífsþyrstu í auglýsingaheimi falskra loforða ... uppreisn aktivistans og uppreisnarseggsins gagnvart doða og þreytu þeirra sem hafa gefið upp vonina. Gullfallegur texti og afar hvetjandi en ekki þegar ég er þreyttur eftir langan vinnudag ... hafandi ekki meðtekið rómantík þess að eiga hvergi heima (eða verandi of gamall til þess) og láta vaða út í ómælda djúpu laugina eins og enginn sé morgundagurinn.

 

Ekki að ég sé ekki lengur á því að lífinu, samfélaginu og heiminum sé viðbjargandi og sé þess virði að berjast fyrir. Ég geri það bara hægt og rólega, á hverjum degi og ætla að halda áfram að gera það alla mína ævi.

 

„Expect Resistance“ er mér mikill innblástur á köflum en hefði verið mér mikill innblástur í heild sinni hefði ég fundið hana fyrir tuttugu árum. Hún hefði getað haft afgerandi áhrif á líf mitt þá og í raun er það synd og skömm að bækur af þessu tagi séu ekki á öllum bókasöfnum (við erum að vinna í þessu) þannig að fólk almennt sé stöðugt að rekast á þær. Crimethinc og aðrir anarkistar eru þegar búnir að hafa yndislega óafurkræf áhrif á líf mitt og halda áfram að gera það í hvert sinn sem ég kemst við tæri við ferskar hugmyndir og ferska nálgun á gamlar hugmyndir. Pælingarnar í „Expect Resistance“ eru ekki alveg að sprengja upp heimssýn einstaklings sem er anarkisti fyrir en er samt innblástur því tilveran hlyti að vera farin að missa marks ef ég væri hættur að finna fyrir innblæstri frá útgáfum annara anarkista.

 

Mæli sterklega með þessari bók fyrir fólk í róttækum pælingum sem hefur ekki orku í að lesa stjórnfræðileg rit um nálgun anarkismans á lífið og tilveruna ... eða til að fá aðra nálgun á gagnrýni anarkista á menningarheim vorn.

 

Sh jan 09

 

 

Til baka í umfjallanir