Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Panegyric vol 1 & 2 e Guy Debord

 

Verso 2004

 

Guy Debord var einn af þeim uppreisnarseggjum kringum stúdentauppreisnina margfrægu í París 1968, sem er sagður hafa haft áhrif á hana hugmyndafræðilega. Hann var einn af stofnendum Situationist International, hóps vinstrisinna sem gáfu út bæklinga, bækur og tímarit sem skilgreindu eymd tilverunnar fyrir almenning í kapítalisma eftirstríðsáranna. Debord skilgreindi heimspeki sína í bókinni „Society of the Spectacle“ sem þykir tímamótaverk fyrir þá sem komast í gegnum hana, því þó bókin sé nett er textinn afar tyrfinn, bæði fræðilegur, hápólitískur og ljóðrænn. Margar samantektir og greiningar á verkum situationista hafa verið gefnar út og má nefna „Leaving the 20th Century – the incomplete works of the situationist international“ frá Rebel Press, sem fallegt dæmi. Debord er einnig minnst fyrir kvikmyndaverk sín sem eru m.a. kvikmyndaútgáfa af „Society of the Spectacle.“ Í „Panegyric“ segir hann lítið eitt frá sjálfum sér.

 

Textinn í fyrri hluta Panegyric er ljóðrænt spjall Debord við lesandann. Hann skrifar um hvernig hann byggi þessa bók upp með spjalli og tilvitnunum. Hann segist lítið hafa gert af því að skrifa og meira gert af því að drekka (hann drakk sig í hel á endanum), án þess að skrifa eins og hans alkohólismi hafi verið honum nokkur raun. Aldrei hafði hann áhuga á frama af nokkru tagi og minnist varla á að hann hafi haft hugmyndafræðileg áhrif á nokkurn hlut, nema til þess að draga úr því. Hann var alltaf áhugamaður um stríð og bjó til borðspil sem byggt er á stríðsreglum. Lágstemmdur textinn virkar dularfullur og líður áfram eins og undir honum liggi eitthvað eldfimt. Ljóðrænan gerir það að verkum að fyrsti lestur kallar á að bókin verði dregin fram oftar og gluggað í hana.

 

Seinni hluti  bókarinnar er tímatengd samsetning úr ljósmyndum og tilvitnunum. Debord vísar til þess að hafa búið á Spáni og á Ítalíu einfaldlega með því að setja kort af svæðinu á blaðsíðu og eina setningu undir sem segir „já þarna átti ég nú heima.“ Einnig eru myndir af nafngreindu fólki sem skipti máli í lífi hans eða hafði áhrif á það. Hann vísar stuttlega en ítrekað í texta ýmissa spekinga úr ýmsum áttum.

 

Óneitanlega afar sérstök nálgun á ævisöguformið en kannski ekki við öðru að búast. Ég er ekki enn viss um hvort að Panegyric er í raun dularfull eða hvort hún er eins og hún er afþví að höfundur nennti ekki að skrifa meira.       

 

Sh mars 09

 

Til baka í umfjallanir