Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

 

Fight Club e. Chuck Palahniuk

1996

 

 

„Við erum miðjubörn sögunnar, sjónvarpið ól okkur upp í þeirri trú að einhverntímann yrðum við milljónamæringar og kvikmyndastjörnur og rokkstjörnur en það verðum við aldrei. Og við erum að átta okkur á þessu núna“ sagði Tyler. „Svo ekki fokka í okkur.“

 

 

Skáldsagan „Fight Club“ er aðallega þekkt vegna kvikmyndarinnar sem gerð var eftir henni. Þetta er lítil skáldsaga sem lýsir plottum og framkvæmdum eins manns til að brjóta niður þá siðmenningu sem smættar lífshlutverk manneskja niður í að vera hluti af vinnumarkaði og neyslumarkaði. Kraftmikið og sjálfstætt fólk er um allan heim að dæla bensíni og selja ryksugur og viðhalda kerfum sem nærast á þeim og þau borga fyrir með þeim hluta af lífi sínu sem fer í að vinna, hvíla sig eftir vinnu og að verðlauna sig fyrir að vinna mikið, firrt þeirri staðreynd að heimurinn gæti verið svo miklu betri. Líf þeirra gæti verið það ögrandi ævintýri sem það á að vera, sem líkami þeirra er skapaður til að lifa.

 

Sögumaðurinn í Fight Club er svo leiður á tilveru sinni sem launaþræls og neyslufíkils, að hann er hættur að geta sofið og til að upplifa einhverjar raunverulegar tilfinningar fer hann að taka þátt í fundum sjálfshjálpar- og stuðningshópa krabbameinssjúklinga og annara sem glíma við veikindi sem geta, eða eru við það að, draga þau til dauða. Sögumaðurinn vinnur við tryggingamat. Allar stofnanir, eins og sú sem hann vinnur fyrir, díla við manneskjur en hugsa í tölum. Plús og mínus. Debet og Kredit. Það er hið raunverulega eðli siðmenningar okkar.

 

Sársauki sannleikans innan stuðningshópanna hættir að gefa sögumanninum líf þegar hann áttar sig á því að hann er ekki sá eini sem notar fundina á sama hátt. Hann er ekki eini falsspilarinn. Hann stofnar því slagsmálahópa. Fight Club. Ungir karlmenn sem siðmenningin geldir fá útrás fyrir doða sinn með því að slást við hvorn annan. Rétt eins og fólk sem sker sig til að finna eitthvað.

 

Þetta þróast út í myndun selluhópa sem skipuleggja skemmdarverk til höfuðs táknmyndum siðmenningarinnar; dýra veitingastaði, verslanir með snobbvörur, sportbílar, disneykvikmyndir, skrifstofuhúsnæði. Til þess að geta tekið þátt þarf hver og einn að brjóta af sér bönd siðmenningarinnar. Veraldlegar eigur og persónuleg sambönd eru höft á uppreisnarmanninn, sem félagsvera innan siðmenningarinnar verður hann að deyja áður en uppreisn hans verður raunveruleg.

 

Markmið þeirra er að brjóta niður siðmenninguna til að skapa rými fyrir raunveruleg samfélög, raunverulegt líf. Góð hugmynd. En til þess að koma þessari fyrstu bók sinni á markað innan okkar menningarheims lætur rithöfundurinn sögumanninn vera geðveikan. Sögumaðurinn er að átta sig á því í endann á sögunni að hann er klofinn persónuleiki og hin persóna hans, uppreisnarforinginnTyler Durden, er hann sjálfur. Hann er upphaf ferlis sem hann taldi sig vera einungis þátttakanda í. Það er klikk en að vinna á virkan hátt gegn áðurnefndum táknum hins firrta veruleika menningarheims þar sem manneskjur eru einungis gjaldgengar sem ímyndir, er ekki klikk. Má deila um aðferðirnar en hugsunin er ekki klikk.

 

Þó að þessi uppreisn þeirra sé í bókinni kennd við anarkí er fátt í skipulagi sellanna sem undirritaður anarkisti myndi vilja taka þátt í. Blind hlýðni við leiðtogann myndi þegar í stað útiloka mig. Mörg skemmdarverkaplottin í sögunni eru áhugaverð en markmið anarkistans er sköpun samfélaga byggðum á jafnræði, samvinnu og gagnkvæmri aðstoð. Leiðin að því er ekki blind leiðtogafylgni, það er útfrá hlýðni við leiðtoga sem öll okkar vandræði byrja.   

 

Sh mars 09

 

Til baka í umfjallanir