Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Against Civilization – Readings and Reflections

Ritstýrt af John Zerzan

Feral House

 

Hér er á ferð spennandi ritsafn heimspekinga, sjálfmenntaðra spekinga og aktivista úr ýmsum áttum sem allir koma inn á þá staðreynd að öll þau vandamál sem steðja að samfélögum manna og þeim vistkerfum sem maðurinn er hluti af, eru ekki afmörkuð vandamál heldur grundvallast í viðurkenndum gildum okkar siðmenningar.

 

Bókin skiptist í fimm kafla: Lífið fyrir siðmenningu, uppruna siðmenningarinnar, eðli siðmenningarinnar, sjúkleiki hennar og andspyrnan gegn henni.

 

Fyrst þegar ég heyrði af og las um kenningar primitívista afskrifaði ég þær sem þvætting á þeim forsendum að til þess að velta fyrir sér framkvæmd þeirra í alvöru þyrfti mannkyni að fækka um ca. Fimm milljarða. Nú er sorg ekki vistfræðilegt hugtak en nauðsyn þess að mannfólki fækki (eins og hverri annari skepnu sem myndi ógna jafnvæginu í sínu vistkerfi) er samt staðreynd (en það eru engir prímitivistar sem leggja sig fram um að fækka fólki, það gera ríkisstjórnir og aðrar valdafígúrur sem halda einmitt viðurkenndar stöður). Þessar vangaveltur snúast heldur ekki um byltingu í næstu viku heldur að endurmennta sig, öðlast gagnrýna nálgun á efnið, finna ný sjónarhorn og brjóta upp þá veggi sem vestrænn hugurinn er svo duglegur að skapa í leit sínum að hinum endanlega sannleik sem er ekki til og verður aldrei.  

 

Þær hugleiðingar sem settar eru fram í „Against Civilization“ eru frekar ljóðrænar en hávísindalegar,  en það gerir þær ekki verri því markmið þeirra er auðvitað að sá fræjum í höfuð lesandans. Orðalag þeirra er líka þannig að einhver eins og ég; ómenntaður í heimspeki eða stjórnmálafræði, get lesið og skilið. Aðrar eru mannfræðilegar og heimspekilegar og enn aðrar reiðar en allar þessar nálganir á efnið höfða til mín. Utan að málflutningur sumra hinna ljóðrænni getur orðið naívur í lýsingum á gæðalífi mannkyns áður en siðmenningin kom sér fyrir í tilverunni.  Varðandi það er einmitt grein eftir John Mohawk – „In search of noble ancestors“ þar sem hann rekur hvernig fornmönnum er af nútímamönnum lýst sem einfeldningum en hann spyr sig að réttmæti þess útfrá efa um gildi þeirra mælieininga sem er beitt í dag. Allt sem við vitum um líf forfeðra okkar eru ágiskanir settar fram útfrá fornleifagreftri og því litla sem var skráð og hefur varðveist og hversu rétt er það sem var skráð. T.d. höfðu Keltar ekki ritmál og lýsingar á lifnaðarháttum þeirra voru að miklu leyti skrásettar af rómverjum, herraþjóðinni sem barði Keltana undir sig.  Sjálfmiðuð söguskoðun og sjálfmiðuð mannfræði (anthropocentrism) gerir það að sjálfsgagnrýni er hvergi í hávegum höfð innan okkar menningarheims.

 

Það er hinsvegar einungis praktísk viðhorf í gangi hjá Kirkpatrik þegar hann veltir fyrir sér hvað við getum lært af Lúddítunum sem börðust gegn iðnvæðingunni til að verja lífsafkomu sína. Vistfræðilega séð er svipað upp á teningnum núna.

 

Þegar þetta er skrifað eru margir innan míns menningarhóps að horfa í kringum sig og átta sig á þeim niðurbrotsáhrifum sem innleiðing samkeppni, sem eðlilegrar kröfu og náttúrulegrar félagshegðunar, hefur á samfélag. Á sama hátt og ég skoða íslensk stjórnmál útfrá þessari nálgun skoða ég hugleiðingarnar í „Against Civilization“ útfrá því samfélagi sem ég hef alist upp við. Mögulega er ég jafn umkomulaus og fiskur að

velta fyrir sér vatni en lestur bóka eins og þessarar og hugleiðingar útfrá henni hjálpar.

 

Allt síðan ég var barn hefur mér liðið eins og heimurinn væri á hvolfi og að eitthvað þyrfti að gera í því. Það er eðlileg geimveruupplifun anarkista sem elst upp í samfélagi þar sem misskipting auðs og valda, og viðhald hennar með ofbeldi, er kennd sem eðlileg. Margt í þessari bók setur þessar tilfinningar í samhengi.

 

Öll textabrotin eru stutt, valin brot úr lengri ritum og ritgerðum. Þannig er „Against Civilization“ innleiðing í þennan heim róttækrar heimspeki, stjórnmála og grasrótarbaráttu. Útfrá þessu ritsafni sé ég hverja mig langar að leita uppi og lesa meira eftir.

 

Víst er að eftir lestur þessarar bókar lítur enginn siðmenninguna sömu augum.

 

Sh feb 09

 

 

 

Til baka í umfjallanir