Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Psychogeography

Merlin Coverley

Pocket essentials 2006

 

 

Bókin „Psychogeography“ eftir Coverley er nett handbók um fyrirbærið sem skv. skilgreiningu Guy Debord (situationist international) er „rannsókn á sértækum áhrifum landfræðilegs umhverfis, hvort sem það er marvisst skipulagt eða ekki, á tilfinninglíf og hegðun einstaklinga.“ Víðtækari merking er „samruni sálfræði og landafræði, leið til að rannsaka áhrif þéttbýlis á hegðun“ en skv. Debord ber að taka skilgreininguna þægilega alvarlega.

 

Straumar og hefðir innan Psychogeography eru helst gönguferðir innan þéttbýlis, pólitísk róttækni sem tengist þörf fyrir að umbreyta merkingu þekktra fyrirbæra (subversion) og stýrist af rannsóknum á hvaða aðferðum við getum beitt til að breyta tengslum okkar við umhverfi þéttbýlisins. Í heildina litast þetta síðan enn frekar af tengslum við dulúð og er jöfnum höndum að grafa í fortíðinni og skrásetja samtímann.

 

Þessi litla bók Coverley er spennandi sem yfirlitsbók fyrir bókaorma meðal anarkista og annars áhugafólks um gang mála í samfélögum manna í þéttbýli. Í þessari handbók þó einungis London og París og farið síðan yfir til New York. Coverley rekur bókmenntafræðilega sögu Psychogegraphy (umhverfissálfræði?) því þótt fyrirbærið hafi verið skilgreint fyrst árið 1950 tengja menn hugsunina í nálgun fyrri rithöfunda á samskipti skáldsagnapersóna við umhverfi sitt, við psychogeography.

 

William Blake hefur verið lýst sem guðföður psychogeography, ekki síst fyrir að vera anarkisti sem setti fram þá pólitísku róttækni gegn öllu yfirvaldi og gegn þeirri efnis- og rökhyggju sem breytir borgum úr mannabústöðum í kjarna fyrir kapítalískan rekstur og stýringu, og sem seinna einkenndi nálgun situationista á psychogeography. Daniel Defoe, höfundur sögunnar um Robinson Crusoe og „Journal of the plague year“ mun hafa verið fyrstur rithöfunda sem tengdur er fyrirbærinu. Dópaðar gönguferðir Thomas de Quincey í „Confessions of an English Opium Eater“ er ein varða á þessari leið sem og „The Strange Case of Dr. Jekyll and Mr. Hyde“ eftir Robert Louis Stevenson þar sem hinni gotnesku London er lýst. Arthur Machen í „The Great God Pan“ og „The Three Impostors“ sá einnig dulúðina í borginni sem var sem völundarhús á þessum tíma.

 

Í París varð til hugtakið „flaneur“ um ráparann einmana, hið þögla skáld sem mælir göturnar, slakker fyrri tíma sem Coverley segir í dag vera ofnotað fyrirbæri af menningarvitum. Bæði Baudelaira og Walter  Benjamin benda á að flaneur sé fyrst að finna í smásögu eftir Poe –„The Man of the Crowd“ frá 1840.

 

Súrrealismi kom fram á millistríðsárunum og fyrstu sönnu „psychogeographical novels“ voru „Nadja“ eftir Andre Breton og „Paris Peasant“ eftir Aragon sem lýsa endalausum ferðalögum um stræti Parísar, leidd áfram af kynferðislegri þrá og tilviljunum. „Paris Peasant“ er þó pólitískari með yfirlýsingum gegn endurskipulagningu borgarinnar eftir beinum línum (new york style), svipað viðhorf kom fram í london gegn endurskipulagningu Tatcherismans á níunda áratugnum og hjá Situationist International (1957-1972) sem hömruðu gegn endurskipulagninu borga til að aðlaga þær bílaumferð.

 

SI tóku Psychogeography upp á sína arma og veltu fram ýmsum hugmyndum um skipulagningu borga sem mannabústaða til að njóta lífsins. Hugtakið Dérive settu SI fram sem tilraunakennda hegðun tengda aðstæðum innan þéttbýlissamfélags, leið til að líða gegnum umhverfi af ýmsu tagi (samtímaanarkistar eins og crimethinc hafa einnig sett fram þessar hugleiðingar um rannsóknir á eigin umhverfi). Détournement sem umbreytingar á elementum í umhverfinu var stór þáttur í rannsóknum SI á tengslum manna við þéttbýli sitt. Samt kemur Psychogeography lítið við sögu í tveimur helstu bókum SI - „Revolution of everyday life„ og „Society of the Spectacle“ – en ýmsar heildarútgáfur af verkum þeirra er auðvelt að komast í.

 

Psychogeography samtímans er m.a. að finna í verkum JG Ballard þar sem hann setur fram uppbrot á dauðyflishætti þess daglega lífs þéttbýlisbúans sem drepur allt tilfinningalíf. „Ballard lýsir tilveru í þróuðum iðnaðarsamfélögum samtímans sem þurrkar út tilfinninganæmi. Tilfinningaleg viðbrögð dofna vegna ofhleðslu fjölmiðlunarímynda og við getum ekki lengur tengst umhverfi okkar lengur án sjónvarps og auglýsinga. Afleiðingin verður, eins og situationistarnir lýstu yfir, fáránleiki hins daglega lífs þar sem við rembumst við að kaupa okkur leið út úr þessu skynleysi.“ Þannig verður í „Crash“ eftir Ballard, bílslys raunverulegasta upplifun sem persónan hefur nokkurn tímann upplifað.

 

Stewart Home er menningarprakkari sem er stórvirkur í útgáfu ýmiskonar athugana útfrá Psychogeography og gerir menningarvitum grikki með uppákomum og hroðalegum lýsingum í sínum bókum. Nokkrir aðrir breskir samtímahöfundar koma við sögu.

 

Með því að renna yfir þessa bók er undirritaður bókaormur búinn að setja saman lista yfir hugvekjandi bækur sem hann þarf að nálgast og stúdera og tengja við sitt eigið líf. Það er á þann hátt sem þessi handbók Coverley er hentug en hans eigin athugasemdir eru smáborgaraháttur og prump. T.d. þar sem Debord setur inn í skilgreiningu sína á Psychogeography að henni beri að taka með „þægilegum efa“ lítur Coverley á það sem undankomuleið sem gerir það að verkum að svo margir geti gert tilkall til hugtaksins. Það finnst Coverley neikvætt. Hann vill hafa skilgreininguna á hreinu, hann vill hafa beinar línur og ætti því kannski ekki að vera að fjalla um Psychogeography yfirhöfuð.

 

sh

 

Til baka í umfjallanir