Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Rebellion of the Hanged

B Traven

1952

 

Í formála að þessari skáldsögu er tekið fram að enginn viti í raun hver B Traven var. Talið er að hann hafi verið þjóðverji en hans er minnst fyrir skáldsöguna „Treasure of the Sierra Madre“ og sex skáldsögur í „jungle seríunni“ sem allar hafa verið og eru róttæklingum og öðrum mikill innblástur. Rebellion of the Hanged er ein af þeim. Skáldsögum B Traven hefur verið hampað meðal bókaorma anarkista.

 

Sagan hefst með Cándido Castro, Tsotsil indíana í Mexíkó sem vegna veikinda og dauðsfalls konu sinnar lendir í skuld við hvítan lánadrottin. Hann dæmist til nauðungarvinnu vegna skuldarinnar og ásamt stórum vinnuhóp annara eignalausra indíana, fer hann með unga syni sína og systur út í frumskóginn. Þar eru vinnuhóparnir reknir áfram við vinnuna á hrottalegan hátt við erfiðar aðstæður. Vistin er öll hin ömurlegasta; Þrír bræður (hvítir menn) hafa keypt upp frumskógasvæði í von um að verða ríkir á að fella mahónítré. Vegna erfiðra aðstæðna gengur þeim illa að koma timbrinu til byggða og þar með standa við sínar skuldbindingar og þeir taka það út á verkamönnunum. Bræðurnir, sem eru drukknir hrottar og þeirra undirtyllur með, beita hótunum, pyntingum og morðum til að skelfa indíánana til að halda áfram að vinna sig til dauða á ónýtu fæði í hita og raka frumskógarins.  Áhrifaríkasta pyntingaraðferðin sem þeir beita er að hengja mennina upp í tré á höndum og fótum, yfir nótt, nakta og með feiti í andlitinu svo að maurar og flugur sæki í þá. Þaðan kemur titill bókarinnar.

 

Óttinn og þrælslundin er reiði indíánanna yfirsterkari og innan vinnuhópanna eru alltaf einhverjir sem eru tilbúnir að kjafta frá. Örvæntingin rekur þrælana til að reyna að stinga af en fæstir lifa það af. Meðal þeirra sem komu í vinnubúðirnar með Cándido eru þrír pólitískt meðvitaðir menn sem voru á flótta eftir að hafa agíterað meðal fátækra verkamanna fyrir uppreisn.

 

Regntíminn nálgast, þá vinnast verkin seinna og örvæntingin verður meiri meðal þeirra sem reka á eftir. Þeir taka það út í aukinni hörku gagnvart indíánunum. Einn þeirra, sem dreginn er tilbaka eftir flóttatilraun, veit að hann á inni hrottalegar pyntingar og í örvæntingarkasti nær hann að stinga yfirmann sinn í augun svo hann blindast, síðan stekkur indíaninn í ána og drekkir sér en yfirmaðurinn skýtur sig í hausinn þar sem hann vill ekki lifa blindur. Þetta kvisast út meðal hinna kúguðu og þeir átta sig á dauðleika kúgara sinna. Orð þeirra sem skilgreina kúgun þeirra nær eyrum þeirra. Uppreisn hefst.

 

Indíánarnir myrða verkstjóra sína og yfirmenn þeirra og taka yfir vinnustöðvarnar. Þeir vita að víða um landið eru svipaðir hlutir að eiga sér stað og þeir hafa engu að tapa í baráttu sinni fyrir landi og frelsi, nema lífinu og líf þeirra er hvort eða er einskis virði í höndunum kúgaranna. „Hefðu þeir verið rökfastir menn hefðu þeir aldrei gert uppreisn. Uppreisnir og byltingar eru alltaf órökréttar í sjálfu sér því þær valda truflun á því syfjuástandi sem kallast lög og regla“ (213). Þeir eru ekki skipulagðir en „treysta á byltingarandann sem aldrei hættir að endurnýja sig, sé hann ekki afvegaleiddur af pólitíkusum“ (171).

 

Það er rétt sem ég hafði lesið að þessi skáldsaga er anarkistum og öðrum byltingarsinnum innblástur. Hún er spennandi, hún er vel skrifuð, á einföldu máli (mögulega var enska ekki fyrsta tungumál höfundar) og grípandi. Ég tengir uppreisnarandann við mitt daglega líf, þótt að ég sé hvorki barinn né pyntaður og megi rífa kjaft, er ég flesta daga í vinnu og megnið af afrakstri þeirrar vinnu fer í að viðhalda stofnunum sem einungis sumpart eru almenningi til gagns.

 

Mjög góð bók að finna og lesa í þeim afþreyingarmarkaði sem bókaútgáfa er orðin. Ég mun leita uppi fleiri skáldsögur B Traven.   

 

sh

 

Til baka í umfjallanir