Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

We

Yevgeny Zamyatin

1924

 

„Nefndu hina endanlegu tölu.“

„Hvað? Ég ... ég skil ekki. Hvaða endanlegu tölu?“

„Þú veist  - þá síðustu, þá hæstu, þá endanlega stærstu.“

„I-330, þetta er vitleysa. Hvernig getur verið einhver lokatala þegar fjöldi talnanna er endalaus?

„Hvernig getur þá verið endanleg bylting? Það er engin lokabylting. Tala byltinganna er endalaus“ (168).

 

 

„We“ er dystópía sem var innblásturinn fyrir þekktari seinni tíma dystópíuskáldsögur; „1984“ eftir George Orwell og „Brave New World“ eftir Huxley. Hún er að hluta til prósaljóð til dýrkunar á alræðisríki OneState þar sem hinn almáttugi Benefactor er allsráðandi. Hún kom ekki út á rússnesku fyrr en sextíu árum eftir að hún kom út á ensku.

 

Sögumaðurinn, D-503, lýsir fegurð alræðisríkisins þar sem hamingja hefur verið innleidd með hinu algera ófrelsi því „..frá upphafi vega hefur eðli ófrelsisins verið hluti af manninum..“ Manneskjur eru ekki einstaklingar heldur númer og það er ekkert „ég“ eða „mitt“ heldur „við“ og „okkar.“ Andlit númeranna eru „..ómyrkvuð af brjálæði hugsana.“ Tími þeirra er fullkomleg skipulagður. Hvenær á að vinna, hvenær ganga og hvenær stunda kynlíf. Kynlífsfélagi er val en hverri kynlífsathöfn er úthlutað leyfisbréf. Hugmyndafræði alræðisríkisins á uppruna sinn í kristilegri hugmyndafræði þar sem hinn almáttugi stjórnandi hefur tekið við af hinum almáttuga guði. 

 

Borgin er lokuð frá óþekktum umheimi með vegg en innan hennar eru allir veggir úr gegnsæju gleri. Einungis er hægt að draga fyrir hafi númerin leyfisbréf fyrir kynlífsathöfn.  Hafi eitthvert númeranna truflað gang hinnar miklu vélar er haldin Réttlætissýning eða „Justice Gala“ því réttlæti hugmyndafræðinnar er óumdeilanlegt. Það er á hreinu að þegar frelsi mannsins er ekkert fremur hann engan glæp. Frelsi og glæpahneigð fer saman í huga sögumanns og hann skilur ekki hvernig getur staðið á fréttum af mögulegri neðanjarðarhreyfingu sem hefur að markmiði „frelsun frá alltumvefjandi hönd ríkisins.“

 

Það fer að slá saman holdtekju hugmyndafræðinnar í huga hans þegar hann kynnist konu sem brýtur reglurnar. Hún tælir hann til holdlegra athafna án opinbers leyfis. Hún notar áfengi og tóbak (að eyðileggja líkama sem ríkið á, á þennan hátt er skelfilegur glæpur). D-503 er samt of heillaður af konunni til að sinna tilkynningaskyldu sinni og hann flækist meira og meira inn í hennar vefi þar til hann er sjálfur orðinn hluti af neti uppreisnarfólks sem sýnir honum grænan heim handan við vegginn.

 

Stíll Zamyatin er ljóðrænn og þessar upplýsingar um alræðissamfélagið sem ég tíni til  hér að ofan eru teknar héðan og þaðan í frásögninni. Frásögnin einkennist af ringulreiðinni í huga hins hlýðna D-503 þegar heilaþvottur hans lendir í samstuði við það tilfinningalíf sem á ekki lengur að vera til staðar. Hann fer að dreyma á nóttunni og ímyndunaraflið tekur völdin af hugsuninni þannig að hann veit oft ekki lengur hvað er órar og hvað raunveruleiki. Hann vill vera hluti af uppreisninni til að geta verið með konunni I-330, en hann vill að hin alltumvefjandi gæði ríkisins varðveiti allt sem honum hefur verið kennt að sé gott.

 

Bylting er við það að skella á og ríkið er að smala öllum númerunum saman til að gangast undir aðgerð þar sem heilastöðin fyrir ímyndunarafl er tekin úr sambandi. D-503 vill gera sitt besta en veit ekki lengur hvað er fyrir bestu. Frelsi eða alræði? Sagan ákveður það ekki en við vitum að uppreisnir og byltingar eru eðlilegur hluti af samfélögum manna.

 

Íslendingar eru eins og D-503, aldir upp við þá hugmyndafræði að það sé gott og rétt að einhverjir fáir ráði en allir hinir hlýði. Að lesa skáldsögur um uppreisnir og tengja við eigin tilveru er góð byrjun á uppbroti þeirrar hugmyndafræði.

 

sh

 

Til baka í umfjallanir