Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

The Pursuit of the Millenium

Norman Cohn

1970

 

Þessi bók rannsakar þúsaldarhópa (millenarianism) sem blómstruðu í V-Evrópu frá elleftu til sextándu aldar. Uppreisnir og byltingar smábænda voru tiltölulega algengar í evrópu á miðöldum em Cohn tekur fyrir þær hreyfingar sem tengdu saman þá sem hvergi voru félagslega staðsettir og voru hluti af myndun hópa utan um apokalyptíska öfgatrú á að þau lifðu hina síðustu tíma í bland við þrá þessara rótlausra fátæklinga eftir að bæta kjör sín.

 

Leiðtogar þessara hreyfinga voru yfirleitt lesnir menn, fyrrum prestar sem vel voru að sér í sögum biblíunnar, og sem gjarnan hötuðust við völd og vellystingalíf klerkastéttarinnar. Meðal þeirra lægst settu gat verið vel tekið í hugmyndir sjálfskipaðra leiðtoga (sem yfirleitt sögðu sig leidda af vitrunum frá guði almáttugum) um að slátra borgarastéttinni og lifa í kommúnískri alsælu og guðsblessum eftirá.

 

Oft spruttu þessar hreyfingar upp úr aðstæðum sem voru orðnar verri en ella vegna plága eða hungursneyða.  Cohn lýsir hverri hreyfingu fyrir sig, uppruna, útbreiðslu, hugmyndafræði, aðgerðum og síðan örlögum þeirra sem tóku virkan þátt. Hann bendir á hvar hugmyndirnar tengjast og í grunninn er kröfurnar alltaf svipaðar því óvinurinn er alltaf hungrið og öryggisleysið.

 

Cohn tekur hér saman hluta evrópusögunnar sem vanalega er aldrei dreginn fram í útbreiddari söguskoðunum. Áhersla opinberrar og vinsællar söguskoðunar er á viðurkennda leiðtoga og stríðsherra, ríki og kirkju. Cohn skýtur fram spurningu um hversu marktækar lýsingarnar á þessum þúsaldarhópum geti verið því lýsingarnar eru oft skrifaðar af óvinum þeirra.

 

En hvaða hópar voru þetta eiginlega? Við erum að tala um fátæklingana í fyrstu krossferðunum sem öllum var ætlað að bjarga jerúsalem úr höndum heiðingja, sem margar hverjar hófust með æsingaræðum og enduðu yfirleitt með hörmungum þegar tötralýðurinn dó úr hungri og vosbúð á ferðalaginu eða var drepinn af ræningum eða heiðingjum. Margar frásagnir eru af krossferðahópum sem umbreyttust í vígreifan hóp sem rændi sér til matar og viðurværis á ferð sinni, í guðs og jesú nafni auðvitað.

 

Hreyfing húðstrýkinga myndaðist í klaustrum á ítalíu á elleftu öld og breiddist ört út um Ítalíu og yfir alpafjöllin til Þýskalands. Markmiðið var að öðlast fyrirgefningu guðs fyrir erfðasyndina með meinlætalífi og sjálfspínslum. Þannig komst pínslafólkið nær guði sem gegnum kirkjuna var annars fjarlægur. Þetta fólk myndaði hópa sem létu af allri veraldlegri eignasöfnun, flakkaði milli borga og hafði í frammi miklar húðstrýkingasýningar á torgum svo að lýðurinn tæki tillit til þeirra. Pínslamenn litu sumir hverjir á sig sem upphafna og hafinn yfir almenning. Sumir þessara hópa voru byltingarsinnaðir og réðust gegn kirkjunnar mönnum sem leiddi til bannfæringa og leiðandi einstaklingar voru brenndir á báli fyrir guðlast þegar þeir lýstu sjálfum sér sem kristi endurbornum. Of mikil persónuleg nálægð við krist var kirkjunni ekki að skapi. Um 1360 voru síðustu hópar sjálfspínslamanna upprættir.

 

Síðan tekur Cohn fyrir ýmsa þætti í Bræðralagi hins Frjálsa Anda sem kenndu að hver og einn gæti myndað persónuleg tengsl við guð og í raun orðið guð. Útfrá þeim hugsunarhætti varð öll hegðun manna flekklaus og bræðralagið leit á sig hafið yfir öll lög og allt siðferði. Í sumum tilfellum leiddi þetta til rána og gripdeilda en aðallega var það guðlastið (bein tengsl við guð án kirkjunnar sem milliliðs) sem fór í þær fínustu á yfirvaldinu og hið frjálsa fólk var tekið af lífi hingað og þangað.

 

Þessi mystíski anarkismi Bræðralags hins Frjálsa Anda kom einnig fram seinna í Englandi, hjá the Ranters sem Cohn fjallar um í viðauka en þeir litu á alla hegðun manna sem jafn fallega og jafnréttháa, iðkuðu frjálsar ástir og deildu öllu í beinum anarkó-kommúnisma.Cohn segir sögu fleiri hreyfinga eins og Hússíta og Taboríta í kringum Tékkland og Anababtista sem ekki verður farið yfir hér.

 

Eins og áður sagði fjallar þessi bók um hluta af sögu evrópu sem sjaldan er hampað en er afar spennandi. Uppreisnir og uppbrot á stigveldi og viðurkenndum siðferðisgildum er snareðlilegur þáttur í samfélögum manna og fólk sem hefur lamið potta og pönnur við alþingi ætti að vita að það er langt frá því að finna upp hjólið. Eftir að hafa lesið um uppreisnir þúsaldarhópanna vil ég kynna mér frekar lágmenningarsögu evrópu.

 

Sh

 

Til baka í umfjallanir