Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Píkutorfan
Linda Norrman Skugge/Belinda Olsson/Brita Zilg
Hugrún R. Hjaltadóttir og Kristbjörg K. Kristjánsdóttir þýddu
Forlagið 2000

Píkutorfan er ekki anarkistabók, en hún kemur að þeirri kúgun sem anarkistar standa gegn. Kúgun ýmissa félagslegra afla á einstaklingnum sem við erum, hvert og eitt okkar. Þessvegna er fjallað um hana hér á Andspyrnusíðunni. Auðvitað beina höfundar greinanna, sem Píkutorfan samanstendur af, augum sínum að því hvernig konum er haldið niðri því þær eru allar feministar og skrifa útfrá persónulegri upplifun og í ljós kemur hve víða félagslegir pottar og pönnur eru brotnar hvað varðar að konur fái að vera konur á eigin forsendum.

Lestur Píkutorfunnar veitir lesandanum nýja sýn á samfélag okkar, sýn sem er ekki falleg en vekur til þarfrar umhugsunar, því auðvitað eigum við að geta horft á samfélagið sem er samsett úr okkur sjálfum og glaðst. M.a. er komið inn á hvernig samfélagið fær fólk til að hata hvert annað í stað þess að hata þá þætti sem egna okkur á móti hvoru öðru, eins og Linda Normann Skugge kemur inn á í sínum hluta. Það hvernig konur eru ekki metnar fyrir sköpun sína sem listakonur heldur eru ætlaðar sem skraut, komið er inn á hvernig kennarar og aðrir í uppeldishlutverkum gefast upp á að glíma við yfirgang og frekju stráka í bekkjum á kostnað stelpnanna og hvernig enginn stendur með þeim stelpum sem rífa kjaft. Einnig fjallar Píkutorfan um hvernig stelpum er sagt ungum hverju þær hafi áhuga á; að þær hafi ekki áhuga á fótbolta eða íshokky heldur einhverju "sem stelpur hafa áhuga" og hvernig fólk er endalaust flokkað, í nýbúa t.d., og hvernig stjórnvöld og fjölmiðlar viðhalda þessari flokkun í stað þess að leyfa fólki að vera manneskjur.

Kynlíf og hvernig löngun kvenna til að fá að stunda sitt kynlíf er eðlileg (og hvernig sú löngun er gerð óeðlileg) og hvernig félagsleg fyrirbæri eiga ekki að koma í veg fyrir að konur segi "já" eða "nei" samkvæmt eigin óskum. Umræðum um kynlíf kvenna fylgir alltaf druslustimpillinn og Píkutorfan kemur inn á hvernig hann virkar sem kúgunartæki.

Þetta eru bara nokkur atriði af því sem hinar fjölmörgu ungu konur sem skrifuðu Píkutorfuna vekja máls á og gera vel. Hinn ömurlegi málfarsþvottur sem stundum hefur verið kenndur við pólitíska réttsýni og getur gert spennandi skriftir að meinlausu, og þá um leið hundleiðinlegu, stofnanamáli er víðs fjarri. Hér fær eldmóður reiðra ungra kvenna að njóta sín. Það gerir það að verkum að ég fæ aukna trú á mannkynið við lestur Píkutorfunnar um leið og ég fyllist réttlátri reiði, en reiði getur verið skapandi afl. Sú vakning sem ég varð fyrir við að lesa þessa bók ýtir mér til þess að skoða sjálfan mig, mögulega þátttöku mína í kúgun kvenna og hvað ég geti gert til þess að bæta.

Skilningur kvenna og karla á feminisma og ræktun þess skilnings í eigin brjósti eru mikilvægt skref í átt til þess að við hættum að keppast við og hata hvert annað og förum að átta okkur á hverjir eru hinir raunverulegu óvinir. Ég trúi því að með áherslu á feminiska innsýn á samskipti kynjanna getum við hætt að vera hvors annars verstu óvinir og farið að starfa saman að því að gera samfélag okkar lífvænna. Þessvegna er Píkutorfan mikilvæg lesning fyrir ungt fólk á öllum aldri og af báðum kynjum.

Kápumyndin er sú flottasta og sú mest viðeigandi sem prýtt hefur nokkra bókarkápu í manna minnum. Þeir einstaklingar sem hrökkva við, við að sjá hana eru einmitt þeir sem þurftu á því áfalli að halda.

Sigurður Harðarson

Til baka í umfjallanir