Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

The Art of the Siesta

Thierry Paquot

Marion Boyars Publishers (www.marionboyars.co.uk)

2005

Höfundur er franskur heimspekingur og þetta er þýðing úr frönsku. Paquot byrjar á hógværum vangaveltum um gildi þess að stela stund og stund úr deginum fyrir sjálfa/n sig og hvílast og láta sig dreyma í stað þess að jafngilda lífið atvinnu. Síðan fer hann í stuttan kafla þar sem hann rekur birtingarmyndir síestunnar í hinum og þessum þekktum málverkum.

Þegar lengra kemur í hugleiðingum hans útfrá hlutverki síestunnar í daglega lífinu verður hann pólitískari og rekur hvernig ríki og kapítalisminn fóru að því að stela tímanum úr lífi fólks með innsetningu reglulegs vinnutíma og klukkukerfa þannig að vinnandi fólk situr uppi með það að hafa næsta litla stjórn á eigin lífi. Hann kvótar Lewis Mumford sem benti á að helsta uppfinning iðnvæðingarinnar er ekki gufuvélin heldur klukkan. Frá þrettándu öld og fram á fimmtándu öld tóku allar borgir og bæir hins kristna heims upp bæjarklukku (kirkjuklukku vel að merkja) sem agaði hinn mennska ryþma hjartans, öndunar og hegðunar yfir í einsleitan og absúrd vinnustaðaryþma. Í stað þess að sofna og vakna með hænsnunum á vetrarnóttum varð maðurinn bundinn klukkunni.

Í framhaldi af þessu hellir Paquot sér út í harða gagnrýni á hin fölsku verðmæti efnahagskerfa sem byggja á söfnun kapítals. Verkin verða stöðugt minna virði því þau virða ekki verkamanninn, efnahagskerfið tekur honum einungis sem hluta af jöfnunni fyrir aukningu kapítals. Eymd verkafólks og úrgangur eru almennt talin til afleiðinga framleiðninnar en Paquet segir framleiðnina byggða á undangenginni menningarlegri eyðileggingu eða  - kvótar Ivan Illich – sköpun vanverðmæta (disvalue).  Að þvinga almenning til að aðlaga tilveru sína tímaplönum og vélrænum tíma til að hámarka verðmætasköpun a la kapítalismi, er árás á líf þeirra og eyðilegging á raunverulegum verðmætum. Útfrá þessu eru allar helstu hugmyndir okkar um framfarir absúrd.

Paquet vísar til margra speking og bóka sem fjalla um að bjarga rólegheitunum sem gera fólki kleift að finna fyrir því að vera á lífi, þannig að róttæka bókaorminn kitlar í puttana.

Hann heldur gagnrýni sinni á nútímasamfélagið áfram með hugleiðingum um einsleitni og setur fram mjög áhugaverða punkta um hvernig stöðugleiki sé í raun frávik þegar kemur að samfélögum manna: „það sem flestar útópíur flaska á er m.a. þessi vanhæfni til að sættast við fjölbreytilega hegðun og þar af leiðandi hvetja til allrar mögulegrar tímahegðunar sem hægt er að ímynda sér.“

Í lokakaflanum veltir hann fyrir sér síestunni sem formi andspyrnu gegn þessum þjófnaði á lífinu úr tilverunni. „Ég aðhyllist fjölbreytni, ánægju þess „að vera,“ auðlegð þess að umgangast fólk, hamingju þess ófullkomna, þess óörugga, áhættunnar, hins óstöðuga, hins hættulega, hins ófullkomna ... framtíðin á að vera ófullkomin, rétt eins og samtíminn, okkar samtími er oft skilyrtur og ekki alltaf einfaldur ... þú sérð útfrá þessu sjónarhorni að það að taka sér tíma er úrslitaatriði og gefur ákvörðunarvald. Þessvegna er síestan andspyrnuform, hún er afstaða og stefna.“

The Art of the Siesta er lítið og skemmtilegt safn af hugleiðingum og miklu róttækari en ég bjóst við þegar ég hóf lesturinn. Hún vísar líka til annara rita sem hægt er að leita uppi sem ítarefni til að skilja betur kúgun okkar daglega lífs.

sh

 

Til baka í umfjallanir