Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

A Friend of the Earth

T.C. Boyle

Penguin 2000

Árið 1989 er Tierwater, miðaldra karlmaður, grjótharður umhverfisverndaraktivisti sem beitir sér á ýmsan ólöglegan máta til að stöðva og trufla vinnu skógarhöggsfyrirtækja. Höfundur þessarar skáldsögu segir sögu hans gegnum hann sjálfan, lýsir stuttlega hvernig Tierwater breyttist úr venjulegum jeppaakandi úthverfisbúa sem vinnur of mikið, í náttúruverndaraktivista sem hættir öllu til að verja vistkerfið fyrir græðginni. Tierwater er afar annt um þau lífsvæði annara dýra en manna sem kapítalísk græðgi m.a. skógarhöggsfyrirtækja eyðileggur endanlega. Samhliða því er hann skapbráður þverhaus og þetta tvennt saman kemur honum í fangelsi, mörgum sinnum, með langa dóma. Hann skipuleggur sig ekki alltaf nógu vel og lætur aðgerðir sínar stundum ákveðast af hefndarþorsta gagnvart því yfirvaldi sem tekur hann í karphúsið fyrir óhlýðni. Það setur strik í reikninginn í einkalífinu þó hann eigi konu og dóttur sem berjast með honum fyrir náttúruvernd.

Árið 2026 er Tierwater gamall og stirður og horfir upp á lífkerfið í rúst, flestar villtar dýrategundir útdauðar og öll veðrakerfi sveiflast öfganna á milli. Hann hefur verið ráðinn sem dýragæslumaður hjá sérvitrum milljónamæringi sem vill bjarga hinum og þessum ófrýnilegum skepnum frá dauða þar sem þeirra náttúrulega umhverfi er horfið. Hann lifir með stöðuga sorg í hjarta, bæði almenna og persónulega því dóttir hans lét lífið löngu áður, þegar hún féll úr mikilli hæð úr rauðviðartré sem hún bjó í árum saman, trénu til verndar.

Eftir því sem sögunni vindur áfram skiptast kaflar milli þess að segja frá lífi Tierwater sem aktivista og lífi hans sem gamals manns í ónýtum heimi.

T.C. Boyle virðist hafa unnið heimavinnuna sína þegar kemur að því að draga upp mynd af umhverfi róttæks umhverfisverndarsinna. Ekki að karakter Tierwater væri mér sérlega að skapi en reiði hans var einlæg og hana tengdi ég við, bráðlyndið ekki. Boyle kallar samtökin sem Tierwater tilheyrir E.F. eða Earth Forever! Tierwater á í útistöðum við hófsamari aktivista vegna sinna beinu aðgerða. Hljómar kunnuglega.

Sá helmingur bókarinnar sem sagði frá lífinu í hinni ónýtu framtíð fannst mér minna áhugaverður en samtímahlutinn. Framtíðin var ekki sannfærandi og í heildina séð er „A Friend of the Earth“ ekki skáldsaga sem ég mæli sérstaklega með vilji fólk lesa eina skáldsögu sem tengist umhverfisvernd. Höfundur reynir of mikið að vera sniðugur og kannski tengi ég ekki við þann stíl í bókinni afþví að húmorinn gengur útfrá þekkingu á m.a. bandarískri afþreyingarmenningu.

sh

 

Til baka í umfjallanir