Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Anarchy in the U.K. - The Angry Brigade

Tom Vague

AKPress

 

Bók þessi fjallar um 'Angry Brigade' andspyrnuhópinn, eða öllu heldur hugmyndafræðina, sem skaut upp kollinum undir lok 7. áratugarins í Englandi.

'Angry Brigade' stóð fyrir sprengjuárásum á eignir og hýbýli ríkis og auðvaldsins, sem hófust með skotárás á bandarísku sendiráðsbygginguna árið 1968. Hópurinn lýsti ávallt yfir andstöðu við árásir á fólk, sögðust ekki vilja gera martýra úr röðum auðvaldsins, heldur vilja hvetja verkafólk til að taka völdin í sínar hendur og láta reiði sína í ljós í verki. Því var 'Angry Brigade' frekar hugmyndafræði sem reyndi að teygja anga sína inn í hversdagsleikann í kúguðu samfélagi og hvetja til harðrar uppreisnar gegn ríki og auðvaldi, frekar heldur en lokaður hópur hryðjuverkamanna, eins og yfirvöld héldu í sífellu fram.

Hver eru hin 'Reiðu?' Verkamaðurinn á höfninni, húsmóðirin sem situr við hliðina á þér í strætónum, nemandinn sem þú mættir á götunni?... (úr einni fréttatilkynningu AB).

Bókinni má skipta í tvennt, og rekur fyrri helmingur hennar forsögu og aðgerðir 'Angry Brigade' í nokkurs konar dagbókarformi og kastar inn á milli staðreyndum úr enska samtímanum sem höfðu eitthvað gildi fyrir róttækar hreyfingar og popp-menningu. Ég hafði t.d. mjög gaman að því hvernig því er sífellt skotið að hvaða lag sat á efsta sæti vinsældarlistanna á tímum hinna og þessara sprenginga og annarra atburða.

Eftir fjöldann allan af sprengjum og eldsprengjum er myndaður sérsveitarhópur innan lögreglunnar með það eitt markmið að stöðva 'Angry Brigade'. Í kjölfarið er hópur róttæklinga handtekinn og ásakaður um samsæri og tekur þá seinni helmingur bókarinnar við, sem fjallar á frekar leiðinlegan hátt um réttarhöldin. Mikið af textum teknir beint upp úr dagblöðum og skrifum um réttarhöldin, sem í sjálfu sér eiga mjög áhugaverða punkta um misbeitingu valds og samsæriskenninga, en þessum lesanda fannst allavega að það hefði verið hægt að skýra frá þeim á betri og skemmtilegri hátt.

Sem slík voru réttarhöldin yfir þeim 10 sem ákærð voru í málum 'Angry Brigade' mjög loðin í alla staði og voru mörg lög um réttindi ákærðra brotin og beygð til að gera tímenningunum ómögulegt að geta sett upp fulla og sanngjarna vörn fyrir sinn málstað.

Bókin er tekin saman árið 1997 úr eldri skrifum, en miðað við þær upplýsingar sem lágu frammi á þeim tíma um 'Angry Brigade' nær hún að skila af sér frekar góðri mynd af þeirri hugmyndarfræði sem skapaðist út frá andspyrnuhópnum og að vera hnyttin og skemmtileg lesning á sama tíma.

Ég mæli með bókinni fyrir fólk sem hefur áhuga á að kynna sér sögu mjög róttækra andspyrnuhópa, óréttlæti réttarkerfisins og endalok hippatímabilsins svokallaða, en endurtek að réttarhöldunum hefði verið hægt að gera miklu betri skil og fyrst að RAF, King Mob og þess háttar hreyfingar eru nefndar og gefið smá pláss í bókinni hefði alveg verið hægt að gefa bókinni meira gildi við að tileinka þeim pínulítið meira pláss í öllu samhenginu.

Anti

 

Til baka í umfjallanir