Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

 

Anarchist Voices, an oral history of anarchism in America

Paul Avrich

Akpress 2005

 

Um daginn rakst ég á bók um sögu mannkyns, doðrantur mikill og stór bók og á hverri opnu tekið fyrir eitthvað tímabil í sögu mannkyns, í afar stuttu máli, með myndskreytingum. Eftir stutta yfirferð sýndist mér svo að mannkyn hefði lítið annað gert en að mynda menningarhópa sem herjuðu á hvern annan. En stríðsrekstur á sér ekki stað fyrr en eftir að ríki hafa myndast (fyrir um 6000 árum er talið að sú þróun hafi byrjað) og þegar fólk fer að fylgja leiðtogum. Homo Sapiens er hinsvegar búinn að lifa í samfélögum í einhver 70.000 ár og mig langar að lesa um hvernig fólk lifði á mismunandi tímum og á ólíkum svæðum. Mannkynssaga er ekki saga konunga og keisara eða kirkju eða annara valdafíkla. Auðvitað hafa þessi fyrirbæri áhrif á líf okkar allra en í daglega lífinu er fólk almennt ekki að lifa undir valdafígúru heldur að lifa í samfélagi.  En sögubækurnar kenna börnunum okkar að kóngar og keisarar hafi alltaf verið helstu áhrifavaldar í öllum samfélögum ... þannig læra þau hugmyndafræði ríkisins – að það sé eðlilegt að fáir hafi völdin og aðrir hlýði.

 

Þessvegna heillar frásagnabókin Anarchist Voices. Hún samanstendur af 180 viðtölum sem söguprófessorinn Paul Avrich tók yfir 30 ára tímabil og dregur upp mynd af manneskjunum innan hreyfingar sem yfirvöld og blaðamenn hafa lagt sig mikið fram við að tengja ofbeldi og hryðjuverkjum. Einstaklingarnir sem segja frá voru virkir innan anarkistahreyfingarinnar í Norður Ameríku á upphafsárum hennar, frá um 1880 til 1930 fram yfir 1970 .

 

Bókinni, sem er 500 bls doðrantur, er skipt upp í sex hluta: Frumkvöðlana, Emmu Goldman, Sacco og Vanzetti, Skóla og Nýlendur, þjóðrækna Anarkista og árin eftir 1920.

 

Avrich skrifar lítinn inngang að hverju viðtali þar sem hann rekur hvernig viðkomandi einstaklingur var hluti af anarkistahreyfingunni. Síðan segir viðkomandi frá með eigin orðum. Það sem gerir bókin skemmtilega aflestrar er að textinn í hverju viðtali er frásögn en ekki tveggja manna spjall. Hvað sem Avrich sjálfur lét út úr sér meðan á viðtölunum stóð hefur hann klippt út þannig að hvert viðtal verður flæðandi frásögn. Í hverjum hluta snúast frásagnirnar oft um það sama. Sérlega í fyrru hlutunum sem snúast um leiðandi einstaklinga eins og Emmu Goldman eða mál Sacco og Vanzetti og hvernig hver og einn upplifði líf og starf eða karaktera þeirra og réttarhöldin yfir Sacoo og Vanzetti. Kaflinn um anarkistaskólana og anarkistanýlendurnar er á sama hátt frásagnir af mismunandi upplifunum þeirra sem gengu í skólana eða voru hluti af nýlendunum. Að lesa þennan fjölda af stuttum endurminningum er eins og að fá fjölda af skyndimyndum eða sjónarhornum af einum hlut eða fyrirbæri. Mjög fróðlegt því þó margir hafi svipaða sögu að segja þá er upplifun hvers og eins og sá lærdómur sem þau draga af því, mismunandi.

 

Frásagnir anarkistanna eru, auk þess að vera innsýn inn í starfsemi og baráttuanda anarkistahreyfingarinnar í bandaríkjunum, afar fróðleg innsýn inn í líf innflytjenda til Amríku því allir voru þessir anarkistar innflytjendur frá Rússlandi, Ítalíu, Spáni eða annarsstaðar frá. Allir sem segja frá eru aldrað fólk en flestir enn sannfærðir anarkistar. Frásagnir af uppákomum innan hópanna, sem gátu bæði verið fáránlegar og tragískar, eru jafn raunverulegar og í öllum öðrum samskiptum manna. Stundum voru hópar að springa í loft upp vegna deilna, eins og um mögulega þátttöku í stríðinu gegn fasisma, eða vegna ásta og afbrýði, í annan stað vegna einstaklinga sem hegðuðu sér alls ekki eins og anarkistar heldur vildu ráðskast með hegðan og gjörðir annara innan hópsins. Stundum eru lýsingarnar á kúguninni sem þessir fyrstu anarkistar þurftu að glíma svo óhugnanlegar að maður þakkar sínum sæla fyrir að a.m.k. hérlendis eru aðstæður öðruvísi.

 

Ég er búinn að vera að grípa í þessar stuttu, sönnu, átakasögur á kvöldin í eitt ár eða svo enda bókin yfir 500 blaðsíður og skemmtilegast að lesa þær ekki fleiri en nokkrar í einu. Annars renna þær saman í huganum. Innblásturinn af þeim er svipuð upplifun og þegar ég las sjálfsævisögu Emmu Goldman fyrir þó nokkrum árum. Þessi innilega þörf annara anarkista fyrir að hafa áhrif á heiminn með baráttu gegn valdagírugum leiðtogum og gróðapungum og hvernig við leitum leiða til að vinna saman þrátt fyrir persónulegar meiningar og sérvisku hvers og eins okkar og annara. Það er þessi andi sem hvetur fólk eins og mig til að halda áfram að gefa út, miðla hugmyndum og tala við fólk.

 

sh

 

Til baka í umfjallanir