Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Floating Worlds

Cecelia Holland

1976

Ég fann á netinu lista af anarkismatengdum skáldsögum og vísindaskáldsögum og fann síðan mikið af þeim bókum notuðum hér og þar. „Floating Worlds“ er vísindaskáldsaga þar sem aðalsöguhetjan er anarkisti. Sögusviðið er allt sólkerfið sem jörðin er hluti af, í óræðri framtíð. Jarðarbúar allir anarkistar, Mars er setin harðlínuherveldi, tunglið virkar sem hlutlaus miðstöð viðskipta og á Uranus búa Styths, afbrigði af mönnum, líkamlega umbreyttir og hafa lifibrauð af geimránum (eins og sjóránum). Loftmengun á jörðunni er svo mikil að hún er bráðdrepandi og manneskjur lifa í samfélögum undir verndandi hvolfþökum.

Samskipti anarkistasamfélagsins við samfélög á öðrum hnöttum er í höndum fámennrar nefndar og söguhetja okkar, Paula Mendoz, er fengin til liðs við nefndina þar sem hún er klók og talar tungumál Stythanna.  Hún fer til Uranusar með geimræningjunum sem ástkona eins þeirra. Stythar eru kolsvartir, mjög hávaxnir og kraftalegir og með klær og líkamslykt þeirra breytist eftir tilfinningasveiflum. Paula Mendoz er anarkisti af lífi og sál og mjög sjálfstæð og þrjósk kona. Hún er eðlilega gagnrýnin á byltingarnefndarinnar og vill gæta þess að ekki verði úr henni nýtt stigveldi sem fólk lætur um að leysa sín vandamál heldur glími við það sjálfst sem félagslega sjálfbært samfélag.

Hún gengur í gegnum erfiða hluti þegar hún reynir að vera hluti af samfélagi Styth því innan þess hafa konur einungis hlutverk ástmeyja og eiginkvenna og er ætlað að sitja heima meðan karlarnir þjálfa sig í bardögum, halda þræla, berjast um yfirráðin innbyrðis og fara í ránsferðir út í geim og til annara hnatta. Að taka upp viðskipti við þá er leið anarkistanna til að vera ekki fyrir barðinu á þeim.

Gegnum söguna er Paula fámálug í samskiptum sínum við aðrar persónur, hennar persónulegu markmið í lífinu koma aldrei sérstaklega fram utan þörf hennar fyrir að vera öðrum óháð. Hún verður mikilvæg persóna í samskiptum milli menningarheims Styth og annara en um leið eru stöðugir árekstrar milli hennar lífsstíls og þeirra menningar. Hún plottar og njósnar og treystir engum en hugsjónir hennar koma ekki beint fram eða markmið hennar með þessu starfi nema að vernda jörðina fyrir ágangi herveldanna.

Einna athyglisverðastar fannst mér lýsingar á því anarkíska samfélagi sem höfundur dregur upp á jörðunni. Smærri félagsleg vandamál virðast almennt þau sömu og í dag eins og fíknisjúkdómar og græðgi og deilur sem upp koma þessu fylgjandi en anarkistar glíma við þessi vandamál án þess að ætlast til þess að einhver annar gerir það fyrir þá (eins og nútímamaðurinn getur verið snöggur að kalla til lögreglu og aðrar ríkisstofnanir þegar upp koma vandamál) og þeir almennt láta hvern annan í friði.

Í einu tilfelli stelur fíkill af Paulu litlum hlut sem henni er kær og selur í verslun. Eftir að Paula hefur fundið út hvar hluturinn lenti, fer hún til verslunarhaldarans sem neitar að láta hana hafa hlutinn, vitandi að hann er stolinn. Paula tekur til ráðs að sitja við dyr verslunarinnar og segja öllum mögulegum viðskiptavinum frá þessum óheiðarleika. Eftir tvo daga af slæmum áhrifum hennar á viðskiptin gefst verslunarhaldarinn upp og lætur hana hafa hlutinn.

Vísindaskáldsögur með anarkistaþema geta verið spennandi að lesa því þær draga oft upp myndir af samfélögum sem eru birtingarmyndir þeirra stjórnmála og heimspeki og lífsstíls sem anarkistar aðhyllast. „Floating Worlds“ gengur meira út á milliplánetupólitík og hvernig þessum eina anarkista gengur að lifa af innan samfélags karlrembu, ofbeldis og hernaðarhyggju. En við vitum heldur ekki mikið um það því persóna anarkistans er jafn fámálug gagnvart lesendum og hún er gagnvart öðrum persónum skáldsögunnar.  

Bókin varð spennandi þegar á leið (mér leiddist einungis þegar frásögnin fór út í tæknilegar útskýringar á flugleiðum flugaðferðum milli pláneta) því stöðugt gat farið á báða vegu hvort að einhverjir stríðsmanna Styth myndu ekki bara kála henni og fara í stríð frekar en að standa í viðskiptum með hana sem millilið. Og þannig fer að jörðin er endanlega eyðilögð í stríði milli íbúa Mars og Styth og stríðsmenn Styth hæðast að anarkistunum fyrir að vera svo varnarlausir gagnvart þeim.

Floating Worlds er hin ágætasta skáldsaga. Vísindaskáldsögur eru hvað áhugaverðastar þegar þær fara út í sérstæðar mannfræðilegar og félagsfræðilegar uppbyggingar en Floating Worlds nær ekki miklum hæðum í því sambandi. Persónulýsingar eru heldur ekki miklar eða kannski var það vöntun á persónulegri pólitík anarkistans sem er aðalsöguhetjan, sem angraði mig.

sh

 

Til baka í umfjallanir