Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Anarchism: A very short introduction

Colin Ward

2004

Oxford University Press

 

Það eru til fjölmargar bækur sem ætlaðar eru sem stutt inngangsrit um anarkisma. Gæði þeirra eru ansi misjöfn, allt frá hörmung Alberts Meltzer Anarchism: arguments for and against til hinnar sæmilegu en þó gölluðu Anarchy: a graphic guide eftir Clifford Harper til þeirrar afbragðsbókar Um anarkisma eftir Nicolas Walter. Hér bætir hinn þrautreyndi anarkisti og fræðimaður Colin Ward einni enn í flóruna og tekst bara helvíti vel til.

              Það er ástæða til þess að nefna þá ritröð sem bók þessi er 116. hefti af. A very short introduction serían hjá Oxford University Press er – líkt og þeir eru duglegir við að koma á framfæri – alveg afbragðs hugmynd. Í þessari ritröð eru sérfræðingar á sínu sviði fengnir til að skrifa stutt yfirlitsrit á aðgengilegu máli um hinar ýmsu kenningar, hreyfingar, atburði og hugsuði. Bækurnar ná sjaldan meira en 150 bls. en það er með ólíkindum hversu yfirgripsmiklar þær eru engu að síður. Þannig er t.d. bók Helen Graham um spænsku borgarastyrjöldina einstaklega víðfeðm, hnitmiðuð og aðgengileg og bók Peter Singer um Karl Marx er lang besti inngangur að þeim flókna hugsuði sem ég hef rekist á.

              En aftur að bókinni sem hér er fjallað um. Það var sérstaklega vel valið hjá ritstjórum ritraðarinnar að fá Colin Ward til að rita þennan stutta inngang að anarkisma því auk þess að vera mjög vel að sér um stefnuna hafandi verið viðriðinn hana í áratugi (hann var t.d. ritstjóri blaðsins Freedom frá 1947 til 1960 og stofnandi og ritstjóri tímaritsins Anarchy frá 1961 til 1970) þá hefur hann skrifað fjölmargar bækur sem fjalla á einn eða annan hátt um anarkisma en ólíkt flestum öðrum skrifar hann mun meira um hugsanlegar praktískar nálganir og lausnir anarkista á ýmsum samfélagsmálum heldur en einfalda gagnrýni á kerfið. Hann hefur einnig lagt áherslu á að finna og benda á þær athafnir sem venjulegt fólk aðhefst í daglegu lífi sem eru í eðli sínu anarkískar. Af þeim sökum er þessi bók laus við þann áróðursbrag sem einkennir gjarnan inngangsrit um anarkisma og þann innanbúðarágreining og heift sem því fylgir en án þeirrar neikvæðni í garð anarkismans sem hefði að öllum líkindum einkennt bókina hefði hún verið skrifuð að einstaklingi sem ekki hefði nein tengsl við stefnuna.

              Bókinni er skipt í tíu stutta kafla sem hver um sig fjallar um ólíka þætti anarkískrar hugsunar. Hann byrjar á ósköp hefðbundinn hátt með því að skilgreina hugtakið og fjalla um þær sögulegu kringumstæður sem stefnan spratt úr auk þess að segja í stuttu máli frá helstu frumhugsuðum stefnunar. Eftir örstutt ágrip af sögu anarkismans dembir hann sér svo í umfjallanir um helstu áherslur anarkismans, þ.e. andstöðuna gegn ríkisvaldi og miðstýringu, áhersluna á valddreifingu og jöfnuð, afstöðu anarkista gagnvart þjóðum og þjóðernishyggju, trúarbragða og fúndamentalisma, viðhorf anarkista gagnvart vinnu og glæpum, hugmyndir þeirra um menntun og menntakerfi o.s.frv. Það er í raun óþarfi að telja hér allt upp sem hann fjallar um því það er ekki umfjöllunarefnið sem slíkt sem er nýstárlegt við skrif Wards heldur nálgun hans á efnið. Þannig endurtekur hann ekki bara áróðurskenndar yfirlýsingar anarkista um hin ýmsu mál heldur tekur ýmis dæmi máli sínu til stuðnings sem ekki er algengt að sjá í anarkískum ritum. Þannig notast Ward við gagnrýna umfjöllun um velferðarkerfi nútímans – krúnudjásn ríkisvaldsins og helsta lögmætistákn þess – og bendir þar á hvernig ríkið hefur yfirtekið starfsemi sjálfshjálparsamtaka og fært það í hendur sjálfskipaðra sérfræðinga (stjórnmálamanna og embættisfylgisveina þeirra) sem stýra þeirri „þjónustu” sem velferðarkerfið býður upp á með skrifræði og miðstýringu sem ávallt er háð pólitískum skammtímahagsmunum. Þar með er velferðarþjónustan tekin úr höndum samfélagsins, úr höndum þeirra sem hún er ætluð.

              Ward fjallar einnig töluvert um þær „þöglu byltingar” sem eiga sér í sífellu stað en fáir taka eftir þar sem þær eiga sér stað undir yfirborðinu og án augljósra átaka. Þær hafa þó ekki gerst af sjálfu sér heldur er þeim ýtt áfram að hegðun, atferli og áróðri róttæklinga sem smitast svo smátt yfir á allan almenning. Hér eru t.d. þær miklu úrbætur í refsingar- og fangelsismálum sem áttu sér stað á fyrri hluta 20. aldar, frjálslyndari viðhorfum til kynlífs og klæðaburðar og svo má áfram telja. Þetta er að sjálfsögðu ekki „bylting” í þeirri mynd sem byltingarsinnaðir anarkistar sjá fyrir sér heldur frekar umbætur á handónýtu kerfi en eins og Ward bendir sjálfur á þá eru þetta „þættir í langri keðju frelsandi atburða sem lyft hafa þungri byrði mannlegrar eymdar” og menn hljóta að skorta alla mannúð sjái þeir ekki kosti þess að koma á slíkum umbótum til að létta á kvöl fórnarlamba þeirra ómanneskjulegu laga, reglna og viðhorfa sem ríktu hér áður.

              Þó Ward sé á köflum of Bretlandsmiðaður að mínu mati (sem er þó skiljanlegt þar sem hann er jú Breti að skrifa bók fyrir breskt bókaforlag) þá gleymir hann því ekki að anarkisminn er alþjóðlegur og byggir á alþjóðahyggju. Þannig er einn lengsti kafli bókarinnar um þjóðernishyggju, trúarbrögð og fúndamentalisma og þar fjallar hann á afar skilningsríkan hátt um orsakir og afleiðingar slíkra stefna og tengir þetta þrennt saman í eina heild en þó án þeirrar afdróttarlausu og skilningslausu fordæmingar sem einkennir gjarnan orðræðu anarkista um slík mál en einnig án þess að gefa eftir í skilyrðislausri alþjóðahyggju anarkismans og andstöðu við þjóðernishyggju. Í stuttu máli þá fetar hann þann þrönga stíg milli skilnings og stuðnings sem nauðsynlegur er til að geta átt í málefnalegum umræðum um slík hitamál. Á öðrum stað skýrir Ward einnig þann augljósa mun á raunverulegri alþjóðahyggju og sambandsstjórnarstefnu (e. federalism) annars vegar og svo hins vegar þeirri gervi-alþjóðahyggju og sambandsstjórn sem Evrópusambandið er.

              Í stuttu máli sagt þá er þetta besta inngangsrit að anarkisma sem ég hef lesið, og þau eru orðin þónokkur. Stíll Wards er skemmtilegur og einfaldur án þess að draga úr vægi hugmyndanna sem til umfjöllunar eru og nálgun hans er nýstárleg, fersk og aðgengileg fyrir þá sem lítið þekkja til auk þess sem hún vekur upp marga punkta til umhugsunar fyrir “lengra komna” og býður þar að auki upp á fjöldamörg góð dæmi tekin úr sögu og samtíma um það hvað það er sem anarkistar raunverulega vilja, hvernig anarkistar myndu skipuleggja samfélag sitt án þess að tapa þeim ávinningum sem hlotnast hafa (eins og heilbrigðis- og menntakerfi). Hún sýnir því bersýnilega fram á gildi anarkismans fyrir nútímann og brýtur þar með niður þá algengu gagnrýni að anarkismi henti bara fyrir bændasamfélög hins gamla tíma. Eiginlega eini gallinn við bókina er að hún er of stutt. Colin Ward þyrfti að skrifa sömu bók aftur, bara 2-300 blaðsíðum lengri og þeim mun ítarlegri. Það yrði líklega besta og mikilvægasta anarkistarit 21. aldarinnar, en þangað til verður þessi inngangur hans að duga.

 

VV

 

Til baka í umfjallanir