Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

The Story of Crass

George Berger

Omnibus press 2006

„There is no authority but yourself“

 

Á hægri upphandlegg er ég með Crass logoið húðflúrað. Ég lét gera það til að gleyma aldrei hver það voru sem komu mér í kynni við anarkisma. Þá bara pínulítill pönkari sem skildi minnihlutann af öllu því sem þau höfðu að segja í söngtextum og fylgiritum hljómplatna, en samt nóg til að ég áttaði mig á afhverju mér hafði alla ævi liðið eins og heimurinn væri á pólitísku hvolfi og eitthvað þyrfti að gera í því. Ég var anarkisti.

Berger vinnur bókina upp úr samtölum við fyrrum meðlimi Crass, utan einn þeirra sem hafði ekki áhuga. Þau horfa tilbaka og segja frá, með yfirsýn yfir það sem er liðið en samt er þetta engin samtalsbók heldur heilsteypt frásögn. Berger er sjálfur samtímamaður Crass og gamall pönkari sem þekkir efnið persónulega (og skrifar í bókarlok að í raun hafi honum sjálfum alltaf fundist Poison Girls betri en Crass) sem er gott því ég hefði ekki treyst t.d. blaðamanni eða poppskríbent sem hefur ekkert persónulega að gera með pönk, til að skrifa læsilega bók um eitthvað tengt pönki eða anarkisma.

Meðlimir Crass kynntust mörg hver gegnum listaskóla. Berger rekur félagslegan bakgrunn hvers og eins og um leið hvað það var sem ýtti við þeim og vakti þau til umhugsunar um misskiptingu valds í sínu samfélagi, hvort sem það var einhver einn atburður eða þeirra eigin náttúra og viðhorf.

Sveitabærinn Dial House er áhrifaríkur miðpunktur í sögu Crass. Penny Rimbaud, sem seinna varð trommuleikari og ein af driffjöðrum hljómsveitarinnar, settist að í þessu gamla húsi úti í sveit og það varð opið fyrir hvern sem vildi koma og njóta þess (og er enn eftir því sem ég best veit). Því var mikið streymi af allskonar fólki en þó aðallega fólki sem tengdist nýbakaðri pönkhreyfingunni og skapandi einstaklingum. Nokkur þeirra unnu saman að ýmsum verkefnum í tónlist og öðru þar til þau duttu niður á það að stofna pönkhljómsveit. Fyrstu giggin voru fyllerísflipp og rugl og fjör þartil Penny Rimbaud tók af skarið og sagði að annaðhvort færu þau að gera þetta almennilega, sem ein meðvituð heild, eða hættu þessu. Hann var rekinn úr hljómsveitinni ... í sólarhring. Þá settust þau niður og ákváðu sig.

Fyrsta platan „Feeding of the 5000“ var ritskoðuð vegna guðlasts hjá útgáfu vina þeirra en plötupressarinn neitaði að prenta hana. Seinna stofnuðu þau eigin útgáfu og endurútgáfu plötuna með bannlaginu „Reality Asylum“ með pressun í Frakklandi. Ekki bara var þetta óhefðbundin „smáskífa“ (12 tomma með mörgum lögum) heldur og ákvaðu Crass sjálf hvað hún ætti að kosta, sem var vel undir meðalverði tónlistarmarkaðarins.  Þetta gerðu þau við allar sínar plötur og allar þær plötur sem þau gáfu út seinna með öðrum hljómsveitum en þar sem plötur þeirra rokseldust kom inn heilmikið af peningum sem þau nýttu til annara verkefna.

Fyrir utan að koma til íslands og spila á „Við Krefjumst Framtíðar“ anti NATO andspyrnuhátíðinni í Laugardalshöllinni árið 1984 fóru þau einungis einusinni á tónleikaferð útfyrir England (auk Írlands). Á þessum fyrstu mánuðum fannst þeim þau einfaldlega ekki eiga neitt að segja um pólitískt ástand í öðrum löndum og þau slepptu því þessvegna.  Markmið þeirra var að vekja fólk til að bjarga lífi sínu frá kerfum og stofnunum ríkis og þjóðfélags. Þau voru gagnrýnd fyrir að vera ekki hluti af pönkhreyfingunni (búandi út í sveit), fyrir að taka sig of alvarlega og vera of hörð á sínu (fylgjandi hjarta sínu eins og sannir pönkarar) og fyrir að búa til ljóta tónlist (tónlist þeirra var beint svar við þeim ljótleika sem þau börðust gegn) og þau taka undir suma þá gagnrýni sem komið er inn á í bókinni en þetta var það sem þeim fannst vera rétt að gera á þessum tíma og þau sjá eftir fáu sem raunverulega skiptir máli eins  og nálgun sinni á tónlist og stjórnmál sem Crass hópurinn.

Á seinni hluta þeirra sjö ára sem Crass starfaði sköpuðust þær aðstæður að það sem þau gerðu og sendu frá sér hætti að vera hugmynd í framkvæmd heldur varð viðbrögð við einhverju sem gekk á í kringum þau. Eftir að Tatcher komst til valda og hóf beinar árásir sínar á breskt samfélag, var af nógu af taka og tónlistin varð stöðugt brjálaðri og ljótari og náði hápunkti öfganna á breiðskífunni „Yes Sir, I will“ sem er upplesnir textar yfir impróvísuðum pönkhávaða. Engin unaðshlustun. Þetta er einmitt efnið sem þau gerðu þau mistök að flytja á tónleikum sínum í laugardalshöll og bókarhöfundur segist finna til með þeim sem hafa hlustað á Crass alla ævi og loksins þegar kemur að tónleikum fær fólk ekki að heyra neitt af tónlist þeirra.

Hitt og þetta kom mér á óvart sem gömlum áhanganda: Söngvarinn Steve Ignorant segir frá því að hann var í raun mikill glaumgosi og fann fyrir frelsi til að „glápa á rassinn á stelpum“ eftir að Crass hættu og hann þurfti ekki lengur að vera stöðugt pólitískt meðvitaður. Allan sinn feril voru Crass inn á milli að semja texta gegn poppskríbentum sem hötuðust við bandið. Hvaða pönkara ætti ekki að vera sama hvað þannig rugludöllum finnst? Þau lásu aldrei neinar anarkistabækur að ráði og taka skýrt fram að það sem þau þekktu af klassískum ritum anarkista fannst þeim hundleiðinlegt efni. Gott að gamlir and-idol standast ekki neinar fullkomnunarkröfur en kom mér á óvart.

Hvað sem því líður þá vorum við svo mörg sem lærðum svo margt af Crass og fengum innblástur sem enn býr mér í brjósti.

Bókin er skemmtilega skrifuð og auðlesin og ljósi varpað á ýmsar uppákomur sem Crass annaðhvort lentu í eða stóðu fyrir. Kannski eitt sem ég saknaði stöku sinnum var að meðlimirnir dramatíseruðu frásagnir sínar. Þau segja frá spennandi hlutum eins og það hafi verið eitthvað sem er bara búið og gert þegar mig langaði að lesa um það eins og það ævintýri sem mér finnst að það hljóti að hafa verið. Þetta kemur líklega til af því að þau eru enn að lifa lífinu eftir eigin höfði og starfa að ólíkum verkefnum sem þeim finnst ekki minna spennandi en Crass var.

sh

 

Til baka í umfjallanir