Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Róstur

4. tölublað

1. árgangur

 

www.rostur.org

 

Í flestum lýðræðisríkjum evrópu, sem undirritaður þekkir eitthvað til, er í fjölmiðlaflórunni, alltaf að finna a.m.k. eitt dagblað sem er gagnrýnið. Blað sem tekur á því sem ráðamenn og valdhafar hafast að, leitast við að skilgreina völd og strauma, afhjúpa þau og rekja áhrif þeirra á samfélagið. Þetta hefur ekki verið raunin á því Íslandi sem tilheyrir mínum fullorðinsárum. Ég hef aldrei kynnst neinum lífvænlegum miðli sem ekki var málpípa flokks, stofnunar, fjármagns eða afþreyingariðnaðar. Ekki fyrr en núna.

 

Róstur er rekið á þeim peningum sem koma inn fyrir sölu blaðsins. Það er alveg laust við krabbamein auglýsinga, flokkapest og fjármálasmit. Auk þess treystir ritstjórn Rósta lesendum sínum til að hafa ekki áhuga á lífi þess vesalings fólks sem eru frægt fyrir það eitt að vera frægt. Innihaldið er einungis háð áhugasviði þeirra sem standa að blaðinu og skrifa í það en ástæða þess að þau lögðust í útgáfuna var einmitt hversu leið þau voru á að hafa enga fjölmiðla að lesa nema hægrisinnaða fjölmiðla.

 

Þar sem undirritaður horfir ekki á sjónvarp (hvorki loftnet né kapall er tengdur inn á heimilið), kaupir engin dagblöð (glugga í þau af minnkandi áhuga) og hlustar ekki á útvarp nema sjaldan og þá tilviljanakennt,  veit ég hvað er helst í fréttum dags daglega en ekki mikið meira. Það þýðir ekki að ég þurfi að fara aftur að horfa á sjónvarp eða lesa morgunblaðið. Róstur tekur fyrir margt það sem hefur helst verið í fréttum, greinir það og fer dýpra í það en ég sé aðra miðla gera (t.d. hið sjálfsstæða DV getur skrifað ítarlegar greinar um hversu mikill ræningi t.d. Finnur Ingólfsson sé en á engan hátt rakið garnirnar úr því kerfi sem gerir hans athæfi bæði löglegt og siðferðilega samkvæmt sjálfu sér - þá er það orðið of „pólitískt“).   

 

Lærdómur minn af fjórða tölublaði Rósta byrjar þegar í ritstjórnargrein þar sem umkomuleysi pólitísks pirrings hins almenna kjósanda er skilgreind sem „valdhæðni“ þar sem til að upplifa pólitíska virkni nægir almenningi að „fáránleiki okkar svokallaða lýðræðis sé dreginn fram í dagsljósið“. Inngangurinn kallast á við greinina „öld ímyndarinnar“, um nýafstaðnar borgarstjórnarkosningar, sem bendir á að enn eru „auglýsingasálfræðingar og markaðsfræðingar hinir raunverulegu sigurvegarar kosninganna.“

 

Opinberar skýrslur eru teknar fyrir í tveimur greinum; „Áfram Ísland“ sem rekur hræsnina og firringuna á bakvið „Ímynd Íslands – styrkur, staða og stefna“ auk verkefnisins „Inspired by Iceland“. Greinarhöfundur bendir m.a. á hversu fjarlæg þessi ímyndasmíð er hinu raunverulega landi og lífi og gerir það snyrtilega.

Það er fátt leiðinlegra en penni sem vill beita gagnrýninni hugsun á einhvern málaflokk en skrifar síðan innblásinn  af eigin egói í stað vakandi meðvitundar og verður besserwisser. Þar tekst höfundinum SP vel upp.  

„Hvítþvottur á áhrifum stóriðjunnar“ er hin sem bendir á hvað vantar í rannsóknarskýrslu alþingis sem „lítur hvergi á stjórnarfarið með hlutlausum augum heldur upphefur hún kosti þess...“ og þöggun fjölmiðla á niðurstöðum skýrslunnar um hrunafleiður stóriðjustefnunnar. Að „meginorsakir þess að svo fór sem fór liggja í raun í þessum framkvæmdum ...“

 

Stofnanir vs. Manneskjur er tekið fyrir í vel unninni, og þar af leiðandi óhugnanlegri, heimildagrein um „símhleranir réttarríkisins“ þar sem m.a. kemur fram að „löggjafinn leggst í lagatæknilegt letikast og hlífir sjálfum sér við flóknum lagabreytingum sem hann þó viðurkennir að geti aukið réttöryggi manna.“

 

Konur og feminismi er áberandi í þessu tölublaði. Tvær greinar, mjög ólíkar, fjalla um blæjur múslísmskra kvenna og pólitíkína þar á bakvið. „Hlutgerving kvenna og pólitíkin bakvið blæjuna“ eftir hina Írönsku Tahmineh Mostafavi, fer yfir stöðu kvenna sem í yfirlýstum „íslömskum löndum verða að hylja líkama sinn til að tæla ekki karlpeninginn og er því „tilvera kvenna túlkuð sem ógn við hið opinbera karllæga rými ...“. En í vestrænum samfélögum byggist „staða kvenna gagnvart karlmönnum fyrst og fremst á fegurð þeirra eða skorti þar á, óháð því hvaða hlutverk þær taka sér.“

“Blæjur og bönn“ eftir Valdísi Björtu Guðmundsdóttur fjallar um ástæður bak lagasetningum á blæjur í evrópu þar sem mjög lítill hluti múslima notar blæjuna. Kristín Anna kynnir vistfeminisma (ecofeminism) í mjög athyglisverðri grein sem veltir fyrir sér tengslum karlrembu og náttúruníðs útfrá þeim yfirráðum vestrænnar siðmenningar yfir náttúrunni og öllu náttúrutengdu, sem er grunnur hennar og því kúgun kvenna óumflýjanleg.

 

Afþreyingariðnaðurinn gerir það svalt, hipp og kúl að hafa ekki pólitíska meðvitund og að vera hálfviti. Grein Eyrúnar Ólafar; „Kvenfyrirlitning samtímans ríður ekki við einteyming“ er menningarsjokk hennar eftir snögga yfirferð um fésbókargrúppur karlrembunnar eins og „Sniff, ertu á túr“ og „konur eru eins og gras, það þarf að slá þær reglulega“ og hún veltir fyrir sér hvað liggi að baki, sérstaklega hjá þeim konum sem taka undir í klappstýruhópnum.

 

Annar hópur, hærra settur en fésbókartrúðar, er tekinn á beinið í „íslenska umræðuplanið“ af Snorra Páli, einum af þeim níu sem ákærð eru fyrir árás á alþingi. Hann tók saman helstu fásinnuna sem rituð hefur verið um þau níu í hægrisinnuðum fjölmiðlum okkar daglega lífs, áður en nokkur niðurstaða er fengin í mál þeirra, og ber saman við það sem komið hefur fram í málsgögnum. Greinilega vissi enginn af þeim sem tjáðu sig (þar á meðal blaðamenn, lögreglumenn, ráðherrar og þingmenn) neitt um málið heldur alhæfa þeir eins og hver annar moggabloggari.

 

Þetta eru nokkrar þær helstu greinar sem ég lærði mikið af. Næsta víst að ecofeminism og blæjur múslímakvenna frá sjónarhóli múslímakvenna, fá minna blaðsíðupláss í hinum almennu fjölmiðlum en yfirlýsingar samtaka iðnaðarins á undan myndefni af einhverjum konum sem falla undir fegurðarstaðla. Þessvegna þekkti ég þessi viðhorf ekki nema leita þau uppi í fáséðum miðlum eða bókum. Fyrr en núna. Takk Róstur.

 

Ég fékk einnig góða skilgreiningu á kommúnisma, á skjön við öll þau flokksbundnu bloggarafífl sem þrugla ólesin um stalínisma, er kommúnismi skv Alain Badiou sú einfalda „hugmynd að undirgefni vinnandi fólks við forríka yfirráðastétt ekki náttúruleg nauðsyn“. Fékk einnig innsýn inn í hvernig ekki stendur steinn yfir steini í hugmyndafræðilegri meðvitund flokkapólitíkur þýskalands í „ógn hins sjálfgefna.“

 

Mögulega er þessi litla yfirferð farin að láta Róstur líta út eins og smáletraðar tormeltar pælingar vinstrimanna sem hafa lesið yfir sig. Ef svo er, kem ég þessu illa frá mér. Allt frá því að ég var barn hef ég haft það á tilfinningunni að heimur manna væri á hvolfi. Róstur hjálpa mér að skilja hvernig og hversvegna. Takk aftur Róstur.

 

Já, og svo þarf ég að fara að horfa á Buffy the Vampire Slayer úr safni kærustunnar, þar sem anarkistinn og mannfræðingurinn David Graeber greinir pólitíkina í þáttaröðinni  sem „uppreisn án guðlegrar íhlutunar“ í stórskemmtilegri þýddri grein.

 

Takk Róstur.

 

SH

 

Til baka í umfjallanir