Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Eyðilegging náttúrunnar kallar á árásir álfanna

 

Hulduheimur Heiðarlands

Þýð. Sigurður Harðarson

Andspyrna útgáfa, 2010.

 

Síðustu árin hefur róttækum, íslenskum, anarkískum bókatitlum fjölgað hægt og bítandi. Heiðurinn af því á útgáfan Andspyrna sem hefur meðal annars gefið út Um anarkisma eftir Nicolas Walther, Ríkið eftir Harold Barclay og handbókina Beinar aðgerðir og borgaraleg óhlýðni. Nú síðast kom út úr prentvélinni barnabókin Hulduheimur Heiðarlands, þýdd og staðfærð eftir bókinni The Secret world Of Terijian sem kom út árið 2007 á vegum bandarísku CrimethInc útgáfunnar.

 

Allt reynt en ekkert virkar

Bókin segir frá Gunnari, litlum strák sem eyðir bróðurparti daga sinna einn að leik við bakka árinnar sem hann býr við – ævintýraheiminum Heiðarlandi. Dag nokkurn kynnist hann Margréti og um leið tekst með þeim vinátta. Þau tengjast ánni og töfrandi umhverfi hennar og leika sér á árbakkanum. En þegar þau komast að því að verið er að rústa ánni og umhverfi hennar með stíflugerð fyrir rafmagnsframleiðslu, átta þau sig líka á því að þau verða að gera eitthvað í málunum. Svo þau stelast út að nóttu til og fara upp að vinnusvæðinu til að velta fyrir sér hvað þau geti gert. Þá gerast undur og stórmerki.

 

Fimm svartklæddar verur koma að vinnusvæðinu og fara að athafna sig í kringum vinnuvélarnar. Einhverjar leggjast undir þær á meðan aðrar standa vörð. Til að byrja með skilja Margrét og Gunnar  ekki hvað er í gangi þangað til ein veran úðar úr málningarbrúsa, stórum stöfum á vinnuvélina – ÁLFAR – og allt skýrist: Þarna eru komnir álfarnir sem vernda ána og landið. En þegar álfarnir heyra í krökkunum drífa þeir sig í burtu, þeim síðarnefndu til mikilla vonbrigða. Daginn eftir sjá þau að athafnir álfanna hafa ekki komið í veg fyrir að eyðileggingin haldi áfram og þá taka þau afdrifaríka ákvörðun. Nú þurfa þau sjálf að verða álfar og stöðva vinnuna með hvaða ráðum sem er.

 

Til að gera langa sögu stutta reyna þau allt sem þeim dettur í hug og spannar sá skali í raun allar þær aðferðir sem róttækir náttúruverndarsinnar hafa beitt í baráttunni fyrir verndun jarðarinnar síðustu áratugina – og reyndar allt frá upphafi iðnbyltingarinnar. Þau setjast að út á eyju í ánni og freista þess þannig að verkamennirnir stöðvi vinnu. Nótt eftir nótt reyna þau svo nýjar leiðir: Reisa virki fyrir vélarnar, brjóta í þeim rúður, fylla leiðslur og vélarhluta af mold og grjóti. Í hvert sinn eru þau viss um að þeim hafi tekist að bjarga ánni en verða svo fyrir vonbrigðum á hverjum morgni, þegar þau sjá að þrátt fyrir aðgerðir þeirra – og þrátt fyrir að þær hafi oft á tíðum einhver áhrif á framkvæmdirnar – virðist ekkert stöðva vélaskrímslin og gulklæddu skemmdarvargana. Ekkert virðist virka.

 

Sama sagan um allan heim

Sagan setur atburði sem eiga sér stað um allan heim í ævintýralegan búning. Náttúruverndarsinnar leggja höfuð sín stöðugt í bleyti í leit að nýjum og áhrifaríkum aðferðum til að koma í veg fyrir að gengið sé á jörðina. Engu virðist skipta hversu róttækar, hættulegar og ólöglegar aðferðirnar verða – því meira að segja eftir að álfarnir snúa aftur í lok bókarinnar og kveikja í vinnuvélunum, koma samt sem áður nýjar vélar á staðinn og vinnan heldur áfram. Virkjunin er reist og áin lögð í rúst. Sömu sögu má nánast alltaf segja um svipaða atburði raunveruleikans. 

 

Álfarnir eru skírskotun í hina ómiðstýrðu og mystísku, yfirþjóðlegu hreyfingu Earth Liberation Front (ELF) sem síðustu tuttugu árin hefur beitt eignaspjöllum gegn fyrirtækjum og öðrum öflum sem koma að eyðileggingu jarðarinnar. Hreyfingin er ásamt systur sinni Animal Liberation Front (ALF) á toppi lista bandarísku alríkislögreglunnar (FBI) yfir „innlendar hryðjuverkaógnir“ og notast yfirvöld og fjölmiðlar oftast við hugtakið „eco-terrorist“ þegar rætt er um þær. Árið 2005 gerði FBI mikla rassíu gegn grunuðum „eco-terroristum“ og tveimur árum seinna hlutu tíu einstaklingar 3–13 ára fangelsisdóma fyrir meinta aðild sína að aðgerðum sem gerðar voru í nafni ELF. Enska útgáfa bókarinnar, The Secret World Of Terijian, var einmitt gerð því fólki til stuðnings og rennur allur hagnaður af sölu hennar í fjárhagslega aðstoð til handa öllum fórnarlömbum herferðar yfirvalda – „Green Scare“ eins og hún er yfirleitt nefnd.

 

Að standa á sínu, fylgja hjartanu og berjast

En aftur að sögunni. Fyrrum ríkissaksóknari Oregon-fylkis, Karin J. Immergut, gerði bókina að umfjöllunarefni í greinagerð sinni um meintan hryðjuverka-álf og sagði hana rómantísera aðgerðir ELF og hvetja börn til að taka upp svipaða glæpsamlega hegðun – eitthvað sem vissulega hræðir yfirvöld og hvetur þau til harðari viðbragða. En hugmyndafræðin sem liggur að baki aðgerða í anda ELF er síður en svo rómantíseruð í bókinni, heldur einfaldlega útskýrð á einlægan og barnslegan hátt. Aðgerðirnar eru heldur ekki sýndar sem fullkomnar leiðir í baráttunni fyrir jörðinni - niðurstaðan er ekki sú að íkveikjur og skemmdarverk leiði alltaf af sér jákvæðar breytingar heldur sýnir sagan það ferli sem á sér stað í hugum fólks sem að lokum grípur til slíkra aðgerða. Það kemur vel fram í orðum krakkanna þegar þau virða fyrir sér umhverfi árinnar eftir að framkvæmdunum er lokið: „Ef maður bíður bara og vonar það besta þá gerist ekki neitt.“ Og áfram: „Stundum er gott að gráta, en stundum er nauðsynlegt að standa á sínu og berjast, fylgja því sem hjartað segir og gera hvað sem þarf til að verja það sem er þess virði að berjast fyrir.“

 

Sagan er því alls ekki einungis ætluð börnum og á erindi til fólks á öllum aldri. Hún ræðst gegn ráðandi orðræðu samfélags, sem gerir neyðarúrræði náttúruverndarsinna að glæpum og berstrípar þau allri hugmyndafræði. Og með því að notast við barnasöguformið tekst höfundunum að setja fram róttæka, oft á tíðum tormelta og óþægilega gagnrýni á iðnvædda siðmenningu, á einfaldan og auðskiljanlegan hátt. Það gerist til að mynda þegar Gunnar spyr mömmu sína hvers vegna verið sé að eyðileggja ána en hún svarar því til að það sé ekki raunin; stíflan sé byggð til þess að meira verði um að vera í sveitinni og fleira fólk flytji á svæðið. Hún reynir að sannfæra hann um réttmæti framkvæmdanna með ýmsu móti, til að mynda því að rafmagnið verði ódýrara, sjónvarpsstöðvarnar fleiri – og samtímis verði opnaður húsdýra- og skemmtigarður á svæðinu sem verði til þess að Gunnar þurfi þá ekki lengur að leika sér við ána. En Gunnar lætur ekki segjast því áin og vistkerfi hennar – gróðurinn, fuglarnir og fiskarnir – eru mikilvægari en ódýrt rafmagn, sjónvarpsstöðvar og hönnuð, tilbúin leiktæki. Náttúran er mikilvægari en neyslumenningin.

 

Eini sýnilegi gallinn á bókinni er sá að ekkert er fjallað um mögulegar afleiðingar þess þegar fólk er gripið við eða eftir aðgerðir að hætti álfanna. Það er reyndar ekki svo auðvelt að ímynda sér hvernig umfjöllun um ríkis- og lögreglukúgun kæmist að í sögu í þessum stíl og kannski er nóg að treysta á dómgreind þess fullorðna fólks sem les bókina til að taka alla mögulega þætti inn í myndina. Lýsingin á því þegar Gunnar og Margrét sitja alsæl ásamt álfunum og fylgjast með vinnuvélaskrímslinu brenna til kaldra kola, er kannski eina dæmið um fyrrnefnda rómantíseringu – útópíska hugmynd um að innan þess samfélagskerfis sem við búum við í dag sé hægt að gera hvort tveggja, kveikja í vinnuvélinni og njóta fegurðar loganna á staðnum.

 

Þessi galli skyggir þó ekki á það sem gott er í bókinni því boðskapur sögunnar um hulduheima Heiðarlands er afar nauðsynlegt innlegg í pólitíska umræðu hér á landi. Á sama tíma er bókin kærkomin viðbót í safn róttækra bóka á íslensku, sem þó mætti stækka á örlítið meiri hraða en hingað til og ættu því fleiri að taka Andspyrnu sér til fyrirmyndar. Vonandi kemst bókin svo í réttar hendur – hendur barna á öllum aldri.

 

Villimey

 

Nánari upplýsingar um Andspyrnu má finna á vefsíðunni www.andspyrna.org og upplýsingar um upphaflegu útgáfuna, herferðir yfirvalda og baráttuna fyrir frelsi fangelsaðra álfa má finna á vefsíðu CrimethInc Northstar, www.crimethinc.be.

Til baka í umfjallanir