Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

The Dispossessed
Ursula K. Le Guin


Ég veit ekkert um hvort að Ursula K. Le Guin er anarkisti. Hún skrifar vísindaskáldsögur og er þekkt af því og margverðlaunuð. Í þessari bók sinni skrifar hún frá sjónarhorni anarkistans Shevek.

Shevek elst upp á tunglinu Anarres sem um 170 árum fyrir sögutíma var numið af stórum hópi anarkista. Landnemarnir komu upphaflega frá plánetunni Urras en fluttu til Anarres til að gera að alvöru drauma sína um samfélag byggt á jafnræði og gagnkvæmri virðingu og haldið saman af sjálfviljugu starfi einstaklinganna sem byggja plánetuna. Shevek er vísindamaður; eðlisfræðisnillingur sem vill sameina heimana tvo, í upphafi bókarinnar er hann að fara frá Anarres til Urras í mikilli óþökk flestra meðlima síns samfélags sem líta á hann sem svikara sem hafi samskipti við óvininn.

Shevek hefur lengi unnið að kenningum sem í virkni myndu einfalda geimferðalög um allan mun og þá kenningu vill hann færa íbúum alheimsins. Hann kemur til Urras í boði annara vísindamanna en kemst fljótt að því markmiði þeirra að nýta kenningar hans í þágu hinna valdagírugu auðvaldshyggjumanna sem stjórna Urras. Shevek kemst út á meðal almennings og sér muninn á lífi verkamannanna og hástéttarinnar, þær sömu aðstæður og forfeður hans, anarkistarnir, landnemar Anarres, gerðu uppreisn gegn á sínum tíma. Ástandið hefur ekkert breyst síðan þá; hagkerfi kapitalismans heldur þeim í fátækt sem litla fjármuni hafa fyrir og gerir þeim ríku kleift að verða enn ríkari. Karlmenn ráða öllu meðan konur eru aldar upp við að vera þægilegur hluti af umhverfinu. Svona eins og ástandið er víðast hvar í heimi okkar í dag. En á Urras lifa hugsjónir anarkismans meðal verkalýðsins, anarkistar útbreiða hugsjónina í leynd og undirbúa uppreisn.

Í gegnum bókina er rakinn uppruni Sheveks, líf hans á Anarres og hvernig stendur á því að hann er að flýja plánetu anarkistabræðalagsins til að geta sinnt hugsjón sinni. Annar hver kafli bókarinnar lítur tilbaka og þannig kynnumst við því anarkistasamfélagi sem Le Guin hefur sett saman: Þar er öllum ætlað að búa við jafnan kost og ekki setja sig öðrum ofar, fólk áminnir hvort annað; “stop egoizing,” og minnist orða Odo, en hún var byltingarleiðtoginn, kona sem setti niður á blað sannfæringar upphaflegu anarkistanna. Shevek sem barn lærir í skólanum um að á öðrum plánetum tíðkist það að setja fólk í fangelsi og krakkarnir gera tilraunir með hverskyns upplifun það hljóti að vera að vera lokaður inni. Fjölskyldulíf á Anarres er háð vali hvers og eins, fólk sem eignast börn annaðhvort elur þau upp sjálft eða börnin alast upp í sameiginlegum uppeldisskálum með tengslum við blóðforeldra sína. Atvinnumiðstöðin útdeilir vinnu fyrir einstaklingana innan samfélagsins, allir taka þátt sem geta, hver útfrá sínum hæfileikum og getu en allir sinna einhverntímann óhreinu og erfiðu störfunum. Fólk býr á herbergjum og borðar í sameiginlegum eldhúsum. Anarres er eyðimörk og lífið er hart miðað við þá grænu jarðarlíku paradís sem Urras er. Þing er ávallt öllum opið sem vilja hafa áhrif á ákvarðanatökur um málefni samfélagsins. Almennur velvilji virðist einkenna öll samskipti, enginn á mikið af veraldlegum eigum og fólk er alltaf tilbúið að flytja sig um set gerist þess þörf vegna vinnuálags. Allir eru bræður og systur og fólk almennt laust við nokkra mynd af kapphlaupi um félagslega stöðu eða ríg á grunni kyns eða kynhneigðar. Einhverjir kjósa að lifa utan þessa samfélags og fá að gera svo í friði. Fólk sem framið hefur morð eða framið önnur óhæfuverk dvelst sjálfviljugt á hælum fyrir andlega veika.

Le Guin skapar skemmtilegar persónur og lýsir hugarstríði einstaklinganna sem takast í sameiningu á við hart lífið á eyðimerkurplánetunni. Shevek horfir gagnrýnum augum á samfélag sitt og sér að því ýmsa hluti sem náð hafa að þróast og eru ekki í samræmi við upphaflega hugsjón anarkistanna: Menntamenn hafa myndað klíkur og leyfa þeim einum að gefa út verk sín sem þeim líkar. Þegar Shevek stofnar eigin útgáfu óháða þeirri klíku og hefur máls á samstarfi við fólk á öðrum plánetum, verður hann og hans nánustu fyrir aðkasti frá sínu félagslega umhverfi. Shevek er sannur anarkisti og sér byltingu anarkista sem verkefni sem sífellt er í gangi, hann vill kenna sínu fólki að hegða sér eins og ekta anarkistar; að vera gagnrýnið og spyrja spurninga.

Þessi bók hafði sterk áhrif á mig. Ég las í henni um einstaklinga sem eru að lifa drauma sína og hugsjónir og er um leið óhræddir við nauðsynlega gagnrýni á sjálft sig. Ég las skemmtilega útfærða pælingu um breytta samfélagsskipan en spurningin um “hvernig anarkistar vilji skipuleggja samfélagið” er ein af þeim algengari sem ég hef fengið senda á mig. Staðreyndin er sú að enginn anarkisti vill segja öðrum til um hvernig þau eigi að lifa eða setja fram stíft skipulag í þá átt. Ákvarðanir þaraðlútandi yrðu alltaf að vera í höndum íbúa hvers samfélags. En þessi bók setur samt fram skemmtilega mynd af mörgu því sem anarkistar hafa sett fram fræðilega síðustu 150 árin eða svo.

- Sigurður Harðarson

Til baka í umfjallanir