Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Distress

Greg Egan

Millenium 1995

 

Árið er 2065. Andrew Worth er free-lance heimildamyndagerðarmaður sem sérhæfir sig í umfjöllun um vísindi. Sú vestræna siðmenning sem hann lifir í og teygir sig yfir búsvæði manna um alla jörðina er um margt áhugaverð útfrá því sem við vitum um okkur sjálf í dag, en upphaflega las ég þessa bók vegna þess að hún er skáldsaga þar sem anarkískt samfélag gegnir veigamiklu hlutverki.

Til að byrja með er framsetning Egan á þróun kynhegðunar áhugaverð því með tækni í læknavísindum hafa manneskjur tekið kynhegðun langt út fyrir male og female: „Meðan ufems og umales ýktu þekkt kynjasvipmót og asexes þurrkuðu þau út, höfðu fyrstu ifems og imales mótað sýn manneskja og fundið algerlega nýja eiginleikaflokka sem skáru þau algerlega frá öðrum - án þess að gera þau öll kynlaus." (104)

Bókin er einnig öll mjög vísindalega miðuð og væntanlega hefði ég sem amatör vísindanörd haft gaman af henni á þann máta en ég er það ekki. Hinsvegar er ég anarkisti og þessvegna las ég þessa vísindaskáldsögu, út af samfélaginu sem lýst er á anarkistaeyjunni „Stateless".

Einn íbúi reynir að útskýra samfélag eyjunnar fyrir blaðamanninum: „Stateless er kapítalískt lýðræði. Og frjálslynt, sósíalískt lýðræði. Og bandalag kollektíva. Og nokkur hundruð hlutir aðrir sem ég á ekkert nafn yfir. ... „

„Þú átt við að fólkið hér velji að hegða sér eins og það myndi gera í þessháttar samfélögum?

„Já, en það ristir dýpra. Flestir hérna ganga í syndicate (syndicate er félag sem fólk myndar utan um framkvæmdir – þekki ekkert gott íslenskt orð) sem í verki eru þessháttar samfélög. Fólk vill hafa frelsi til að velja en það vill einnig njóta stöðugleika að einhverju marki. Svo það gerir samkomulag sín á milli sem gefur því ramma innan hvers það getur skipulagt líf sitt - samkomulag sem hægt er að ganga út úr, auðvitað ... Ef að í einu syndikatinu sextíu þúsund manns sættast á að greiða hluta af sinni innkomu í sjóð sem er nýttur í heilsugæslu, menntun og velfarnað, dreift útfrá stefnum negldum niður í smáatriðum af nefndum kjörinna fulltrúa ... þau hafa kannski ekki þing eða ríkisstjóra en mér finnst þetta samt vera eins og sósíalískt lýðræði."

... „En eruð þið anarkistar eða ekki? Gilda ekki alþjóðalög hér sem allir verða að hlýða?"

„Það eru nokkur grundvallarlögmál sem mestur meirihluti íbúa aðhyllist. Grunnhugmyndir um frelsi frá ofbeldi og kúgun. Þeim er haldið á lofti og sá sem væri ósammála þeim ætti líklega ekki að koma hingað." ... „Hvort að við erum anarkistar eða ekki? Anarchy þýðir „enginn ræður" ekki „engar reglur" en það er enginn á Stateless að velta sér upp úr dýpri merkingu forngrískrar speki eða skrifum Bakúnin, eða Proudhon eða Godwin ...“ (116)

Sá anarkisti sem Andrew Worth ræðir við er ekki að leggja mikið upp úr hvað hann kallar sig heldur hvernig fólk lifir. Málið er, útskýrir hann, að eyjan „Stateless" er kóralvöxtur sem settur var af stað af litlum hóp líftæknifræðinga sem vildu byrja anarkískt samfélag. Svo að „um það leyti sem umheimurinn áttaði sig á því að Stateless var í vexti, voru nokkur hundruð manns sem skiptust á að búa hérna og það hefði verið vont PR stunt að þurrka það út. ... Það var okkar „bylting". Miklu betra en að mæla líf sitt í Mólotov kokteilum."

„En ég skil ekki enn hvað heldur þessu saman."

Munroe horfði undrandi á mig „heldur þessu saman gagnvart hverju? Stjórnleysi?"

„Ofbeldi. Þjófnaði. Skrílræði".

„Til hvers að leggja á sig ferðalag út í mitt Miðjarðarhafið til að gera það sem þú getur gert í hvaða heimsborg sem er? Helstu virkilega að við hefðum lagt á okkur alla þessa vinnu til að geta leikið Lord of the Flies?"

Samfélagið hefur einnig lítinn herflokk en auk þess útskýrir anarkistinn: „Fólk kemur hingað með nokkuð hærra stig hugsjónamennsku en gengur og gerist. Það vill að Stateless gangi upp, annars hefði það ekki komið ... það er reiðubúið til samvinnu. Ég á ekki við að lifa í heimavist og láta eins og allir séu ein fjölskylda ... En það er viljugra til að aðlagast og er umburðarlyndara heldur en sá meðalmaður sem kýs að eiga heima annarsstaðar ... afþví að það er aðalmálið.“

„Fjármagn og völd safnast síður á fárra hendur -það gæti gerst með tímanum - en þegar vald er svo dreift þá er mjög erfitt að kaupa það." (117)

Munroe heldur áfram að útskýra hvernig hið anarkíska samfélag gengur upp fyrir skeptískum blaðamanninum sem spyr hvort að þau verði að heilaþvo börnin sín til að næsta kynslóð vilji ekki mynda þjóðríki eða að samfélagið brotni upp. En svarið kemur honum á óvart því anarkistarnir kenna börnunum sínum félagslíffræði (sociobiology) frá unga aldri. Rök fyrir hinu fullkomna samfélagi eru endalaust til í bland við óskhyggju og goðsagnir án þess að fólk verði nokkurn tímann sammála. „Þekking og skilningur á þeim líffræðilegu öflum sem virka á okkur sjálf gefur okkur færi á að móta skynsamlega stefnu til að nálgast það sem við viljum með sem minnstum árekstrum.“ (118)

Það er ómur af „Mutual Aid" nálgun Kropotkin á lífheiminn í þessari speki þar sem áherslan á fjölbreytileika helst í hendur við lífræðileg öfl. Það er engri skepnu eðlislægt að eyðileggja búsvæði sitt eða samfélag, það er ekki fyrr en manneskjur fara að raðast upp í valdapýramída, inn í siðmenningu sem byggist á valdbeitingu og ofbeldi, sem fjandinn er laus. Þannig er það rökrétt að anarkistarnir kenni börnum sínum félagslíffræði frekar en hugmyndafræði.

Börnin okkar hér, í raunheimum ríkisrekins fulltrúalýðræðis og falsks markaðsfrelsis kapítalisma hinna auðugustu, læra um sinn stað og framamöguleika innan valdapýramída stjórnmála, efnahags og „réttrar“ kynhegðunar. Þau eiga ekki möguleika til að skilja frelsi og ábyrgð þess, nema þau nái að brjóta upp þennan lærdóm kapítalískrar samkeppni, þjóðernishyggju, trúarbragða og leiðtogafylgni. Við lifum ekki öll útfrá sömu lífsviðhorfum og munum aldrei gera, því er þjóðríkið ranglæti. Kosturinn við að læra líffræði í stað þjóðernishyggju er að líffræðin er raunveruleg. Þjóðir eru ímynduð fyrirbæri.

"Stateless virtist ganga upp á þeirri grundvallarreglu að fólk sé sammála um að gera sama hlutinn á algerlega ólíkum forsendum ... engin þvinguð stjórnmál, heimspeki eða trúarbrögð, engin fábjánaleg fánadýrkun - en regla komst samt á." (262)

Eins og allir anarkistar vita þá leiðir reglu af frelsi, við sköpum ekki frelsi með því að setja okkur reglur.

Það sem þessi umfjöllun hefur fjallað um er einungis lítill hluti af sögunni. Hvað bókinni Distress líður fyrir utan þá anarkismaspeki sem dró mig að henni, þá er hún skemmtileg. Ég ætla ekki að fara út í söguþráðinn en segi þó að hún spyr stórra spurninga en gefur bara eitt stórt vísindalegt svar, allsherjarlausn. Hún býr til goðsögn. Mér fannst skálduð tilvera anarkistanna á Stateless mun áhugaverðari en kenning bókarinnar allrar um örlög „heimsins".

  SH

 

Til baka í umfjallanir