Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

The Russian Anarchists

Paul Avrich

AK press 2005 (fyrst gefið út 1969)

„Harðstjórnin hefur færst yfir frá konungshöllum til tengslaneta skipulagsnefnda. Það er hvorki skikkja konungs, veldissproti hans né kóróna sem gerir það að hann er hataður, heldur dramb og harðneskja. Í mínu landi hafa menn hafa klæðaskipti.“

Jean Varlet, Explosion, 1793

 

Það er langt síðan ég hef lesið bók sem hefur verið mér jafn mikill innblástur og þessi. Hún er spennandi og hún er átakanleg, kraftmikil og stendur mér nærri. Þetta er saga alls þess fólks sem lagði líf sitt í að veði vegna hugsjónar anarkismans í baráttu við valdagræði og kapítalisma.

Fyrri hluti (bls 9-121) segir frá fyrstu rússnesku anarkistunum í uppreisninni árið1905. Seinni hluti (bls 123-290) segir frá sögu anarkistanna innan borgarastríðsins árið 1917.

Sagnfræði er eitthvað sem ég lærði ekki að meta fyrr en einhverntímann eftir þrítugt. Það er eins og að ég hafi lært að að meta sögu, þegar ég sjálfur var orðinn nógu fullorðinn til að geta vísað til einhverrar eigin sögu og þá um leið tengt við sögu annara. Þar sem ég er anarkisti hef ég frelsisþrá og um leið andstyggðin á þeim einstaklingum og hópum sem setja sig í stellingar til að stýra mér og öðrum. Því tengi ég við það sem rússnesku anarkistarnir gerðu. Líka þeir sem, uppúr 1890, voru tengdir við níhilisma, létu alla málefnamennsku lönd og leið og gerðu sitt besta til að sprengja sig til frelsis. Mörg þeirra voru innan við tvítugt þegar þau voru leidd fyrir aftökusveitir, þá enn full af baráttuanda.

Frásögnin af skæruliðabaráttu Makhnovistanna er mögnuð og mig langar til að lesa mér meira til um hana í vetur. Þá í sögunni hafa valdagráðugir kommúnistarnir sýnt sitt rétta andlit eftir að herflokkar anarkista hafa barist með þeim. Lenin áttaði sig á því að útfrá hans sýn á valdið að fólkinu var ekki treystandi til að leyfa hans flokki að stjórna þannig að hann breytti eigin orðum, rétt eins og svínin í Animal Farm eftir Orwell. Kommúnistar handtóku anarkistana og tóku þá af lífi hvar sem í þá náðist. Hreinsanir Stalíns hins ofsóknaróða gengu frá restinni af fjöldahreyfingu anarkista í Rússlandi. Margir náðu að komast í útlegð og urðu brunnur að hreyfingum anarkista í evrópu og ameríkunum (sjá t.d. „Anarchist Voices“ eftir sama höfund).

Þó að Avrich hljóti að hafa verið anarkisti sjálfur er hann gagnrýninn á skort á skipulagi innan anarkistahreyfingarinnar og endalausum innbyrðis deilum milli hópa anarkista.

Eins og með allar aðrar bækur sem ég les þá sit ég ekki eftir með allar staðreyndir sögunnar, engin ártöl og fá nöfn. Það sem situr í mér eru áhrifin af bókinni. Áhrif þessarar bókar munu fylgja mér alla ævi. Kannski situr hún svo sterkt í mér vegna þess að ég lifi nú í menningarhóp sem er fastur í ringulreið ríkisvalds og kapítalisma en er jafnframt afar fátækur pólitískt.

SH

 

Til baka í umfjallanir