Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Direct Action - An Ethnography

David Graeber

AK Press

 

Til að geta fjallað um þessa stóru bók þurfti ég að byrja á að leita uppi skilgreiningu á hugtakinu "Ethnography". Ég veit að íslensk mannfræði á sér afar fátækan orðaforða og umræðan innan þess geira veltur áfram á slangri. En "eþnógrafía" skilgreinist sem lýsandi skoðun á sértæku mannlegu samfélagi. Hún byggist einungis á vinnu á staðnum, vettvangsrannsókn, að lifa innan þess samfélags sem verið er að skoða en leitast jafnframt við að halda fræðilegri fjarlægð.

 

David Graeber er prófessor í mannfræði. Hann er einnig yfirlýstur anarkisti og virkur aktivisti. Aðrir geta, útfrá hans skoðunum og aðgerðaþátttöku, deilt um hversu fær hann er um að halda fræðimannslegri fjarlægð innan aktivistahópa en ég hef ekki áhuga á því. Ég hef áhuga á því sem hann fann í sínum vettvangsrannsóknum innan aktivisma.

 

Fókus þessarar vettvangsrannsóknar er "Summit of the Americas" í Quebec árið 2001. Þar komu saman leiðtogar þjóða og leiðandi kapítalista og hugðust fara yfir hvernig frekari samþætting viðskipta og stjórnmála væri best útfærð til að ráðandi hópar þessa heims, héldu sínum ítökum. Margir hópar aktivista, verkafólks og þrýstihópa mótmæltu og trufluðu fundina með ýmiskonar aðgerðum, mótmælagöngum og götubardögum við fjölmennt lögreglulið.

 

Þessar aðgerðir voru hluti af þeirri heimshreyfingu gegn hnattrænum kapítalisma, sem Graeber og fleiri segja eiga upphaf sitt í vopnaðri uppreisn Zapatistanna í Chiapas, í Mexíkó, 1. Janúar 1994. Þann dag gekk í gildi viðskiptasamningurinn North American Free Trade Agreement (NAFTA) sem gaf bandarískum kapítalistum leyfi til ódýrari reksturs sinna verksmiðja Mexikómegin við landamærin. Hagkvæmnin fólst í lagalegum aðstæðum til að fara illa með verkafólk.

 

Fyrsti hluti "Direct Action" er aðallega um stóru mótmælin í Quebec. Dagbókarlegum frásögnum af fundum aktivistahópa, þar sem oft er rakið orð af orði hvað hver einstaklingur segir á mikilvægum fundum: Bæði margra mánaða undirbúningi innan Direct Action Network NY, ferðinni til Quebec og nákvæmri frásögn hans af aðgerðunum innan borgarinnar, með innskotum og athugasemdum frá höfundi. Annar hluti er síðan analýsa þar sem hann fer yfir félagslega samsetningu hreyfingarinnar, eðli funda og tilraunir til myndunar nýrra lýðræðisforma, mismunandi aðgerðir og framsetningu hreyfingarinnar bæði í aðgerðunum sjálfum og innan bandarískrar fjölmiðlunar.

 

Allir fjölmiðlar með mikla dreifingu eru reknir af hagsmunaaðilum innan kyrrstöðu kapítalisma og fulltrúa/flokkalýðræðis. Þar af leiðir er engin leið að fá rétta mynd af aktivistum sem berjast gegn þessum aðilum, gegnum þeirra fjölmiðla. Samkvæmt Graeber er þetta sérstaklega áberandi í Norður Ameríku. Þar hafa stóru miðlarnir tekið þá afstöðu að láta eins og mótmæli og mótmælendur séu ekki til. Nema þegar skotið er inn fréttum um skemmdarverk og ofbeldi og að lögreglan standi sig vel við að stilla til friðar. Hvort mótmælendur hafi eitthvað að segja og þá hvað, má aldrei koma fram í fjölmiðlum. Það er vinnuregla. Anarkistar hafa skiljanlega ræktað með sér andstyggð á stórum miðlum sem ljúga um markmið mótmæla og um hegðun aktivista, til að skapa æsifréttir.  Innan vestrænna samfélaga, þar sem almenningur fær allar sínar upplýsingar um sinn eigin heim og annara, gegnum afar takmarkaða heimssýn þeirra fjölmiðla sem aðgengi er að, veit enginn neitt um antíkapítal aktivista eða anarkista. Væri gerð könnun kæmi mögulega fram mynd af aktivistum sem fólki sem berst við lögregluna án þess að hafa þá afsökun að vera drukkið og mótmælir einungis til að mótmæla.  

 

Innan raða aktivista er það þekkt að rómantísera eigin frammistöðu og heimsmynd. Þessvegna spyr ég kannski ekki heldur einungis aktivista þegar ég vil átta mig á einhverju ákveðnu máli. Þá eru mannfræðirannsóknir hentugar og þessi vettvangsrannsókn afar skýr lýsing og skilgreining á hvernig skipulagi og framkvæmdum meðal ákveðinna hópa bandarískra anarkista og aktivista, er háttað.

 

Mannfræðingurinn setur fram ítarlegar skilgreiningar á mikilvægum hugtökum eins og beinum aðgerðum, Consensus, aðgerðum og anarkisma. Hann lýsir ákveðnum tegundum aðgerða sem gjarnan fléttast saman í stórum mótmælaaðgerðum og setur fram vettvangslýsingar frá stórum mótmælum sem hann hefur verið viðstaddur sjálfur og verið hluti af.

 

Birtingarmynd aðgerða og aktivista í fjölmiðlum er ekki eina stóra vandamálið hvað varðar framsetningu þessara grasrótarstjórnmála. Graeber  notar einnig nokkuð púður í að rannsaka hvað aktivistakúltúrinn er í augum lögreglunnar en ofbeldi lögreglu í mótmælaaðgerðum hefur aukist og orðið harðara hin síðari ár. Graeber segir frá herfilegum dæmi um pyntingar sem lögreglumenn hafa beitt aktivista sem  hafa læst sig við jarðfasta hluti og setja síðan í kynningarefni fyrir lögreglulið sem undirbýr sig fyrir mótmæli annarsstaðar í USA.

 

Í bókarlok er einkar áhugaverður kafli, einskonar vísir að niðurstöðu, þar sem höfundur veltir fyrir sér krafti ímyndunaraflsins og hvernig standi á því að verkefni sem miða að róttækum félaglegum breytingum er ætíð talin “óraunsæ”. Hinsvegar þarf einnig sterkt ímyndunarafl til að taka þátt í þeirri almennu umræðu sem gerir ráð fyrir vilja og tilfinningum ríkja og þjóða eins og “Frakklands” og “Ítalíu” og til að trúa því að reglugerðir ríkis um markaði og stjórnmál séu hinn endanlegi sannleikur. Grundvallarmunur á þessu tvennu er hinsvegar sá   ríki hafa einkarétt á beitingu ofbeldis á því svæði sem þau gera tilkall til. Um leið byggist máttur ofbeldis á ímyndunarafli fólks því enginn hefur orðið vitni að þeim þúsundum ofbeldisatvika sem hann eða hún hefur heyrt getið eða lesið um. Við getum einungis ímyndað okkur áhrif þess (eða rifjað þau upp).

 

Kraftur ímyndunaraflsins innan aktivisma höfðar einnig til ungs fólks sem lifir firringu hins daglega lífs gegnum menntakerfi upplýsingasöfnunar og álíka hugmyndasnauðan vinnumarkað. Til eru margar skilgreiningar á firringu en fyrir ungt fólk sem stendur frammi fyrir ofannefndu verður firring;  sú örvænting  sem við upplifum þegar við stöndum frammi fyrir ótölulegum fjölda valkosta, án þess að til staðar séu siðferðilegir strúktúrar sem gefa þessu valkostum merkingu… þetta á sérstaklega við þegar við venjumst því að ímynda okkur sjálf einungis sem neytendur.” (531). Þessvegna eru bækur Situationistanna frá stúdentauppreisninni í París 1968, Raoul Vaneigem og Guy Deboard, enn mikið lesnar af ungu fólki.

 

Þegar þetta er skrifað er allt útlit fyrir gjaldþrot margra ríkja. Ég á við bæði fjárhagslegt gjaldþrot efnahagskerfa kapítalismans og merkingarlegt gjaldþrot fulltrúalýðræðisins.

 

Mjög margir, nær allir, ímynda sér sig sjálf sem neytendur og það nægir mörgum þeirra. Fyrir okkur hin, sem upplifum firringu útfrá þeirri ímyndun, er “Direct Action” mikilvægt innlit inn í  þau grasrótarstjórnmál sem ímyndunaraflið þarf á að halda til að við lifum af.

 

Þar sem þessi bók er vettvangsrannsókn og analýsa og skilgreiningar útfrá henni, tekur hún fyrir ákveðna hópa á ákveðnu tímaskeiði innan bandaríkjanna. Það þýðir ekki að hún sé ekki gagnleg og lærdómsrík fyrir aktivista annarsstaðar úr heiminum.

 

Ástæða þess að bókin er jafn mikill doðrantur og raun ber vitni (um 540 bls af hreinum texta) er bæði hvernig höfundur rekur samtöl beint þar sem hann er hluti af consensustilraunum á aktivistafundum, og nokkuð ítarlegar skilgreiningar. Bókin er aldrei þung í vöfum, of tæknileg og hvergi notar þessi prófessor í mannfræði annað en mannamál.

 

SH

Direct

Til baka í umfjallanir