Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

 

Amster, R., Abraham DeLeon, Luis A. Fernandez, Anthony Nocella II, Deric Shannon (ritstj.), Contemporary Anarchist Studies: An Introductory Anthology of Anarchy in the Academy, Routledge, 2008, London

 

Anarkistar og fræðaheimurinn. Ítar-ritdómur.

 

 

Anarkismi hefur tekið stakkaskiptum á síðustu áratugum. Allt frá endurvakningu stefnunnar á 7. áratug síðustu aldar hefur anarkismi gengið í endurnýjun lífdaga og sjaldan eða aldrei hefur verið jafn fjölbreytt hugmyndafræðileg flóra og nýsköpun innan anarkismans líkt og í dag. Hugmyndafræðilega, heimspekilega og aðferðafræðilega hefur anarkismi fjarlægst sína náskyldu ættingja; sósíalisma, marxisma og kommúnisma og um leið misst að miklu leyti þá tengingu sem stefnan hafði við verkalýð og öreiga. Umhverfismál, femínismi, friðarmál og lýðréttindi (svo fáein dæmi séu tekin) skipa í dag jafn stóran sess í orðræðu og áherslum anarkista og hin „hefðbundnu“ málefni vinstrimanna (eins og t.d. verkalýðsmál). Það þýðir þó ekki að anarkistar hafi sagt skilið við hið pólitíska Vinstri (að einstökum mönnum líkt og John Zerzan undanskildum) heldur endurspeglar þessi áherslubreyting þær þjóðfélagslegu breytingar sem hafa átt sér stað frá seinni heimsstyrjöld sem og mikilvægi anarkískrar nálgunar og anarkískrar gagnrýni á samfélag nútímans og ekki síst samfélag framtíðarinnar. Þessi bók ber vitni um þessar breytingar sem orðið hafa á anarkisma og hentar vel sem yfirlitsrit ætlað leikmönnum í anarkískum fræðum ásamt því að miðla til anarkista þeirri fjölbreyttu flóru anarkískrar hugsunar sem á sér stað innan akademíunnar um þessar mundir.

              Í formála bókarinnar er því lýst hvernig henni ætlað að gera grein fyrir þessum sívaxandi áhuga á anarkisma og sérstaklega hvernig hann birtist í fræðilegum skrifum. Ólíkt fyrri tímum á anarkisminn í dag heimangengt í háskólum víðsvegar um heim og þar sem áður þótti helgispjöll að fræðimenn skrifuðu af áhuga og sannfæringu um stefnuna er hún í dag orðið viðtekið rannsóknarefni og fræðimenn af hinum ýmsu sviðum einbeita sér ekki bara að rannsóknum á anarkisma heldur eru þeir opinskáir anarkistar innan akademíunar. Þessi bók er tilraun til að koma þessum rannsóknum, þessum staðreyndum, á prent og það eitt og sér er lofsvert, en bókin samanstendur af samtals 28 greinum eftir ennþá fleiri höfunda og er henni skipt í fimm meginkafla; kenningar, aðferðafræði, miðlun, framkvæmd og hina illskilgreinanlegu framtíð.

              Það er alltaf erfitt að skrifa ritdóm um greinasafn. Hver grein er í raun verk útaf fyrir sig og gagnrýni eða lof á hana má ekki skyggja á verk annarra greinahöfunda bókarinnar. Sú er raunin með þetta verk. Fyrsta greinin í bókinni, eftir heimspekinginn Todd May, fjallar um tengsl anarkisma við kenningar Michel Foucault og Jacques Ranciére og er sem slík góð upphafsgrein því eins og segir í nýlegu hefti ritsins Anarchist Studies þá er varla hægt að skrifa um anarkisma í dag án þess að vitna í það minnsta einu sinni í Michel Foucault og kenningar hans um vald. May færir hér rök fyrir því að þótt hvorugur þeirra hafi kallað sig anarkista þá séu kenningar þeirra, sérstaklega séu þær settar saman, „uppörvandi anarkísk sýn á heiminn sem bæði kemur úr og bætir við hugmyndafræði anarkismans“ (s.11). Hér er orðræða anarkismans, bæði fyrr og nú, tengd við hugmyndir þessara mætu manna um vald (Foucault) ásamt lýðræði og jafnræði (Ranciére) og hvaða þýðingu þær hafa fyrir orðræðu og gjörðir, uppbyggingu og baráttuaðferðir anarkískra hreyfinga.

              Frá þessum eðlilega upphafspunkti kvíslast svo greinarnar í ýmsar áttir, þrátt fyrir kaflaskiptingu ritstjóranna. Erick Buck skrifar t.d. um hagfræði út frá anarkísku sjónarhorni þar sem greiningin er blessunarlega laus við marxískar kennisetningar og bábiljur. Joel Olson skrifar einnig þarflega grein um nauðsyn þess fyrir ameríska anarkista að taka hugmyndir um kynþátt með í reikninginn þegar fjallað er um amerískt samfélag vegna þess hversu litað það er af samskiptum ólíkra kynþátta, en hann þvertekur fyrir að hægt sé að „skippa“ yfir það með alhæfingum um arðrán og stéttaskiptingu heldur verði að taka með í myndina þrælahald fyrri tíma og áhrif þess á sjálfsmynd Ameríkana af afrískum uppruna (sem og annarra innflytjenda reyndar). Aðrar greinar taka fyrir tengsl anarkisma við róttækar dýra- og umhverfisverndarhreyfingar, nauðsyn þess að gera ráð fyrir og bera virðingu fyrir fjölbreytileika menningarlífs manna, tækni og mögulegt hrun vistkerfis jarðarinnar, kennslu og hvernig gera megi menntun og þekkingarleit frjálsa og lausa við stigveldi og svo má lengi telja.

              Einhver athyglisverðasta og umhugsunarverðasta greinin í bókinni er greinin „against method, against authority ... for anarchy“ eftir Jeff Ferrell. Ferrell er afbrotafræðingur að mennt og grein hans fellur undir kaflayfirskriftina „aðferðafræði“ og í henni kemur fram einhver þarfasta og ferskasta árás á heim akademíunnar sem ég hef séð en hann telur að gefa skuli skít í þá viðteknu, hefðbundnu aðferðafræði sem tíðkast þar innan veggja. Vissulega er gagnrýnin bundin við reynslu hans af aðferðafræði afbrotafræðinnar og dæmin tekur hann þaðan en gagnrýnina má yfirfæra yfir á flestar fræðigreinar. Ferrell færir hér rök fyrir því að áhersla félagsvísindamanna á tölfræði og vísindalega kannaðar niðurstöður fræðimanna hafi fært hug þeirra og þar með fræðigrein þeirra frá viðfangsefni þeirra og gert þá að hreinum teknókrötum sem sjá fanga sem númer og einstaklinga sem kennitölur. Hann varar við þessu og bendir á nauðsyn þess að líta á viðfangsefnin, þ.e. afbrotamenn, sem einstaklinga sem vaxa úr grasi í ákveðnu umhverfi og hafa jafn margar ólíkar ástæður fyrir skrefum sínum á glæpabrautina og þeir eru margir. Hann ræðst gegn þeirri óraunhæfu kröfu um hlutlægni sem sífellt er hamrað á og bendir á hversu langt frá viðfangsefnum sínum sú krafa hefur leitt fræðimenn og að þetta tvennt, aðferðafræðin og krafan um hlutlægni, læsi fræðimenn innan í fílabeinsturnum sínum og geri þá þar með síður í stakk búna til að fjalla á raunhæfan og árangursríkan hátt um viðfangsefni sín. Það besta við grein Ferrells er að hann hverfur, þrátt fyrir gagnrýni sína, ekki frá hefðbundnum skrifvenjum fræðimanna þannig að í gegnum neðanmálsgreinar og aðra viðauka byggir hann upp trúverðugleika á skrifum sínum þrátt fyrir gagnrýní sína á kerfið eins og það er (anarkistum kann að finna þetta undarlegt lof af minni hálfu en fræðaheimurinn er svo íhaldssamur að innan hans yrði hún ekki einu sinni lesin, hvað þá tekin alvarlega, myndi hún ekki notast við tilvísanir, heimildaskrá og hefðbundna akademíska röksemdafærslu).

              Flestar greinarnar eiga það sameiginlegt að vera fræðilegar, byggja á ítarlegri þekkingu höfunda á viðfangsefninu og vísa til nýjustu rannsókna og aðferða í viðkomandi fræðigrein en þó eru undantekningar frá því. Það er augljóst að bókin hefur ekki verið ritrýnd (e. peer-reviewed) af fólki með sérfræðiþekkingu því inn í bókina slæðast greinar sem ýmist fara með ýmsar rangfærslur eða sem skorta krítíska sýn á umfjöllunarefnið. Þannig skortir grein Lisu Kemmerer um kristni og anarkisma raunhæfa umræðu um gagnrýni anarkista á trúarbrögð og guðstrú og hvort stjórnvaldsleysi geti farið saman með undirgefni við guðlegt yfirvald, en Kemmerer virðist einfaldlega hoppa fram hjá bitastæðari gagnrýni anarkista á guðstrúna sem slíka (t.d. skrif Bakunin). Einnig fer Colman McCarthy með alvarlegar sögulegar rangfærslur í grein sinni „Anarchism, education, and the road to peace“ en þar heldur hann því t.d. fram að andspyrnuhreyfingin gegn hernámi nasista í Danmörku hafi verið leidd af konunginum Kristjáni X og að þessi hreyfing sé dæmi um friðsamlega andspyrnu gegn valdníðslu (bls. 179). En Kristján X tók engan þátt í andspyrnunni, og leiddi hana því síður, og hún var langt því frá friðsamleg. Þvert á móti drap andspyrnuhreyfingin hundruði manna (bæði nasista, lögreglumenn og svokallaða „stikkera“ eða uppljóstrara og aðra sem ýmist unnu eða voru grunaðir um að vinna með nasistum.) Íslenski rithöfundurinn Guðmundur Kamban er einn þeirra fjölmörgu sem teknir voru af lífi af dönsku andspyrnuhreyfingunni. Því síður var andspyrnuhreyfingin fjöldahreyfing. Stór hluti Dana litu hana hornauga og vildu lítið með hana hafa fyrr en undir lok stríðs þegar ljóst var að Þjóðverjar myndu tapa því (fyrir áhugasama bendi ég á bókina Danmark Besat: Krig og hverdag 1940-45 eftir Claus Christensen o.fl. sem fínt yfirlitsrit um Danmörku á hernámsárunum). Restin af grein hans er svo full af jafn vafasömum fullyrðingum. Aðrar greinar eru skrifaðar á svo fræðilegu máli að það er ógjörningur fyrir leikmenn að átta sig á því um hvað er verið að tala, og það ber vitni um þá gjá sem er til staðar milli sérmenntaðra fræðimanna og almennings.

              Verst af öllu finnst mér þó skorturinn á sagnfræði, eða í það minnsta sögulegri yfirsýn, meðal þeirra 28 greina sem prýða þessa bók, en hér er ekki að finna eina einustu sagnfræðilegu grein og enginn sagnfræðingur á hér skrif þrátt fyrir að fjölda anarkista megi finna innan þeirrar fræðigreinar. Ég hafði ætlað mér að skrifa mikla langloku um þennan skort á mikilvægri fræðigrein þar til ég kom að grein nokkurri undir lok bókarinnar sem setur fram akkúrat þá gagnrýni sem ég hafði í huga. Sú grein ber titilinn „Anarchism: past, present, and utopia“ og er eftir þau Ruth Kinna og Alex Prichard en sú grein er hörð gagnrýni á þann skort á sögulegri, eða réttara sagt sagnfræðilegri, yfirsýn sem einkennir skrif og viðhorf allt of margra anarkó-fræðinga nútímans og þau kalla presentisma, sem gæti útlegst á íslensku sem „samtíðarhyggja“. Gagnrýni þeirra er svo beinskeitt að hún er þess virði að vitna í hana beint:

 

„Framtíð anarkismans hefur verið sett í höft af mörgum mikilvægustu kennismiðum anarkisma samtímans, sem afneita anarkisma fortíðarinnar til þess að upphefja nýstárlegheit anarkismans í dag. Anarkismi í reynd er þá einnig heftur því með því að kasta anarkisma fortíðarinnar fyrir róða æða þeir einnig fram hjá þeirri sögulegu greiningu sem hægt er að nýta til að skilja samtímann og sem einnig er hvatinn til að þróa með sér hugmyndir um framtíðina. Afleiðing samtímahyggju er því endalaus upphafning á örfáum af-söguvæddum og samhengislausum prinsippum sem veita ... [róttæklingunum sjálfum] ... huggun um byltingarkennda möguleika anarkismans og möguleika [ þeirra sjálfra] á því að breyta heiminum með einföldum breytingum á lífstíl og hegðun, en eru hunsuð af öllum öðrum.“(bls.270-271)

 

Þau Kinna og Prichard benda á að þeir spekingar sem fremst fara hér í flokki hafi einsleita og takmarkaða sýn á sögu anarkískrar hugsunar sem byggi ýmist á fölskum forsendum, rangtúlkunum eða einföldunum á skrifum klassískra anarkista sem tekin eru úr sögulegu samhengi sínu. En það má einnig bæta því við að oft virðast samtímahyggjusinnar hafa takmarkaða yfirsýn yfir sögu anarkismans sem lifandi hreyfingu (enda oftast heimspekingar sem vinna með hugsuði og hugmyndir en síður með hreyfingar og atburði) ásamt takmörkuðum skilningi á sögulegum áhrifaþáttum og samhengi þeirra. Anarkistar nútímans eru því gjarnir á að hunsa bæði sögu anarkismans sem slíks sem og sögu almennt, líta svo á að „hinn gamli“ anarkismi hafi brugðist og sé því í eðli sínu ótækur og beri að kasta fyrir borð með öllu tilheyrandi. Engar tilraunir eru gerðar til að setja hlutina í sitt sögulega samhengi, taka mið af öðrum sögulegum áhrifaþáttum og bera saman „þá“ og „nú“. Þegar það er reynt er það gjarnan byggt á sérvöldum heimildum sem þjóna þeim eina tilgangi að byggja undir rök þeirra og það sem ekki hentar til þess er hunsað. Þetta heftir athafnir anarkista í dag því þeir læra þá ekki af mistökum og reynslu fortíðarinnar og eru ýmist ófærir um að setja sig og baráttu sína í eitthvert sögulegt samhengi eða þeir afgreiða hið sögulega samhengi með úr sér gengnum klisjum um ríkið, kapítal, „stalinista“ og sjálfa sig sem standast hvorki nýlegri sögulegar rannsóknir né taka mið af þeim breytingum sem orðið hafa á síðustu áratugum og áhrifum þess á hugmyndaheim manna.

              Verst fyrir þessa bók er þó sú staðreynd að nóg er til af anarkistum sem blessunarlega falla ekki undir þessa gagnrýni. Fjölmargir anarkó-sagnfræðingar hafa skrifað vönduð rit um sögu anarkismans sem taka mið af nýrri þekkingu og aðferðum og hafa með því opnað fyrir nýjar túlkanir á bæði hugmyndafræði og aðferðum anarkista fyrri tíma og sett þá í sitt sögulega samhengi sem og áhrif þeirra á samtíð sína og þróun ríkisvaldsins. Hér má sem dæmi taka nýlega mastersritgerð Norðmannsins Jonas Bals, sem skrifaði um það hvernig sameiginleg viðbrögð yfirvalda í Evrópu við þeirri „ógn“ sem steðjaði af anarkisma um aldamótin 1900 leiddi til hins stranga eftirlitssamfélags sem sífellt er að færast í aukana. Einnig hafa George Esenwein og Chris Ealham uppfært og tekið til breytinga söguskoðun á spænsku anarkistunum og byltingu þeirra. Þá hafa menn á borð við David Berry og Carl Levy skrifað vönduð sagnfræðiverk um anarkista fortíðarinnar og tekið til endurmats viðtekin söguleg sannindi. Mig grunar að sagnfræði hafi einfaldlega ekki þótt nógu „cool“ fræðigrein til að fá pláss í þessari bók, sem er lýti á annars afbragðs góðri bók.

              Ég vona að lesendur taki þessari gagnrýni ekki sem árás á bókina sem slíka. Ég er einungis að benda á ákveðna vankanta á verki sem annars er afbragðs vel unnið, fræðandi, skemmtilegt og síðast en ekki síst nauðsynlegt innlegg í samfélög bæði fræðimanna og anarkista en á þó sérstaklega erindi við almenning, sem er því miður allt of illa upplýstur um anarkisma nútímans. Vonandi verður með þessari bók einhver breyting þar á.

 

VV

 

 

 

 

 

Til baka í umfjallanir