Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

 

 

Infinitely Demanding - Ethics of Commitment, Politics of Resistance

Simon Critchley

Verso books 2008

 

„Heimspekin á sér upphaf í vonbrigðum“ –

Í upphafi þessarar bókar sinnar lýsir breski heimspekingurinn Simon Critchley hvernig vonbrigði nútímamannsins, komin til af staðfastri boðun hins frjálslynda húmanisma á framförum og hinu fullkomna samfélagi, leiða til spurninga um tilgang og réttlæti. Grunnur vonbrigða nútímamannsins er þráhyggja sem siðmenning vor er andsetin af  - þráhyggja sem snýst um að yfirstíga þau mörk sem mennskan setur manneskjum.

Critchley setur tvo þætti vonbrigðanna upp í litla mynd; vonbrigði útfrá trúarbrögðum og vonbrigði útfrá stjórnmálum. Vonbrigði útfrá trúarbrögðum vekja efasemdir um merkingu. Efasemdir sem geta leitt til tómhyggju. Critchley greinir á milli passívrar tómhyggju (að horfa á vandamál heimsins og ákveða að fara í jóga) og virkrar tómhyggju (að vilja eyðileggja heiminn til að leysa vandamál hans). Pólitísk vonbrigði vekja spurningar um réttlæti og ákall um siðferði sem getur ekki byggt á öðru en siðferðilegum reynsluheimi og siðferðilegri huglægni.

Markmið Critchley er að almennt geti fólk hugsað sig og unnið sig út úr freistingu merkingarleysisins og tekið á þeim harða veruleika heimsins sem sýnir óréttlæti í mörgum myndum, vaxandi innhverfu vel alinna evrópuþjóða, og þeirri staðreynd að vegna lyga, svika og spillingar er ástand hins frjálslynda lýðræðis stórkostlegur vonbrigðavaldur. Lýðræði pólitískra framapotara er alls ekki hvetjandi eða gefandi fyrir innri vitund hins almenna borgara en um leið er það bindandi fyrir daglegt líf hans. Þetta döngunarleysi tengist skorti á siðferði og því er þessi bók leit að svörum við spurningum um grundvallarsiðferði, skorti á því og nálgun á það.

Critchley tekur samt fram að: „Ég er ekki að setja fram þá umdeilanlegu kröfu að hlutverk heimspekinga sé að framleiða siðferðileg sjálf. Þau eru þegar til sem lifandi afsprengi menntunar og félagsmótunar.“ Hann leitast við að bjóða upp á siðferðilegt módel sem gæti „bæði skilgreint og dýpkað virkni þessara siðferðilegu sjálfa.“

Í því ferli fær hann lánuð þrjú hugtök frá þremur hugsuðum. Til Alan Badiou sækir hann tryggð eða staðfestu sem siðferðilega upplifun, til danska guðfræðingsins Knud Ejler Lögstrup hugmyndina um siðferðilega kröfu sem aldrei er mögulegt að fylgja eftir fullkomlega, og til Emmanuel Levinas frekari áherslu á að siðferðilega krafan sé umfangsmeiri en getan til að fylgja henni eftir.

Þessi „heimspekilegasti“ hluti bókarinnar var skemmtilega þunglesinn fyrir undirritaðan,  en í grundvallaratriðum er Critchley að ræða samvisku og síðan hver tengslin séu milli samvisku og pólitískrar virkni. Þar förum við að koma inn á hvernig anarkísk nálgun heillar Critchley því „ef siðferði án stjórnmála er innantóm, þá eru stjórnmál án siðferðis blind ... Siðferði er anarkísk pólitísk umræða (því siðferði kemur innan úr hverri manneskju) ... hið stöðuga áreiti neðanfrá gagnvart öllum tilraunum til að koma á skipulagi ofanfrá ... Ég held því fram að ekki sé hægt að takmarka stjórnmál við umsvif ríkisstjórnar sem framfylgir reglu, öryggi og gætir friðar og um leið leitast við að mynda sátt“ (í samfélagi). „Þvert á móti eru stjórnmál mynd af ósamkomulagi, þau eru ræktun anarkískrar mergðar sem efast um vald og lögmæti ríkisins“ (hugtakið mergð er notað hér í svipuðum skilningi og merking hugtaksins multitude í kenningum Michael Hardt og Antonio Negri). Það er útfrá virkri þessháttar mergðar sem við getum byrjað að færa einhverja virðingu inn í hið lýðræðislega ferli sem nú hefur verið algerlega eyðilagt.

Nálgun Critchley á þetta ferli er sannfærandi. Ég kýs að nota orðið „sannfærandi“ um málflutning hans vegna þess hve neikvæðan (naívan) stimpil orðið „bjartsýni“ hefur fengið innan siðmenningar tómhyggjunnar en annars fylltist ég bjartsýni við að lesa þessa bók. Til dæmis bendir hann á, í aftanmálsgrein, að áhrif pólitískra vonbrigða hafi ekki einungis verið neikvæð heldur einnig jákvæð þar sem vonbrigðin efla hin raunverulegu stjórnmál eigin skipulags meðal almennings. Einnig er umfjöllun hans um innbyggt siðferði byggð á því sem sjálfið telur gott. Þetta er mjög anarkísk nálgun á siðferði manneskja meðan yfirvaldssinnar nenna endalaust að taka undir með Hobbes gamla og telja yfirvaldslausar manneskjur sjálfkrafa siðlausar. 

Grunnur siðferðis útfrá Kant er; „ég er rökviss vera og að auki eru það allar manneskjur ... þannig að þau norm sem leiða líf fólks verður að velja útfrá rökum.“ Samkvæmt Fichte binst siðferðislögmálið innra lífi einstaklinganna en er um leið vitrænt. Critchley tengir kenningar Fichte við umfjöllun Marx um að gagnleg rökvísi verði að finnast þar sem hún komi að gagni, þar sem fólk lifir í sameiningu því „heimspekingar hafa aðeins túlkað heiminn á ýmsan máta, málið er hinsvegar að breyta honum.“ (35)

Infinitely Demanding er mikilvæg bók og lestur hennar var mjög gefandi lærdómur um möguleika manneskja sem mynda samfélög innan spilltra og rotinna kerfa. Fyrir áhugafólk sem litla reynslu hefur af því að lesa heimspeki, þarf að grípa í orðabókina af og til en það er lærdómur í því.

SH

Til baka í umfjallanir