Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

ANARCHY in the age of dinosaurs
Crimethinc
150 bls

Upphafsorð þessarar bókar eru "Hvernig ég gleymdi spænsku borgarastyrjöldinni og lærði að elska anarkí." Það er jafnframt megininntakið; hættið að pæla í hvað þessir skeggjuðu kallar höfðu að segja og farið að praktísera anarkisma í eigin lífi. Að eina leiðin til að vera anarkisti sé að hætta að spyrja sjálfan sig spurninga um hvernig samfélag skipulagt eftir anarkismapælingunni muni líta út, og virkja þess í stað anarkismann. Eins og bent er á í inngangi þá voru spænsku anarkistarnir sem svo gjarnan er horft til bara venjulegt fólk, og við myndum gera það sama og þau gerðu hefðum við tækifæri til þess.

Risaeðlurnar sem vísað er til í titlinum segja Crimethinc að séu þau samtök og þær fjöldahreyfingar sem róttæklingar og anarkistar flest, telja nauðsynleg til að ná árangri í byltingarframkvæmdum. Bókin segir risaeðlurnar í starfi vinstrisinna eða anarkista byggjast á þeirri hugsanavillu að leiðtogar séu á nokkurn hátt æskilegir. Fjöldahreyfingar og ekki síst fjöldahreyfingar undir leiðtogum eru óhreyfanlegar blokkir sem eru allri frjórri byltingarhugsun til trafala. Best sé að vinna í litlum hópum, “affinity groups,” sem séu kvikir og lifandi og komi hlutum í verk í stað þess að eyða tíma og orku í fundahöld sem gera kannski ekki annað en lofgjöra vald leiðtogans, formannsins eða nefndarinnar, í stað þess að virkja einstaklingsframtakið. Það versta er að þessar risaeðlur eru bara lítil kvikindi sem hafa tekið upp hegðun stóru ríkisrisaeðlanna.

Crimethinc anarkistarnir eru afskaplega rómantísk. Alveg afskaplega. Þau sjá frelsið í lífsstíl flækingsins og skilja ekkert í öðrum anarkistum sem kvarta undan lyktinni af illa lyktandi tám flakkarans. Það er skemmtilegt því enn standa orð Emmu Goldman "ef ég fæ ekki að dansa þá vil ég ekki hafa neitt að gera með þessa byltingu."

Þessi bók vekur með mér hugsanir um hver sé besta leiðin til að hafa áhrif í samfélaginu. Eru þrýstihópar sem ýta við aðilum í stjórnunarstöðum eina leiðin til umbóta, og þá því stærri því betri? Crimethinc segja nei – því stærri sem hópurinn er því meiri vinna og fjármagn fer í að hreinlega halda samtökunum starfandi og sú orka gæti farið frekar í að vinna að settum markmiðum. Þau taka sem dæmi stóran umræðufund þar sem flestum hundleiðist og enda með að stjórnin tekur ákvörðun um hvað skuli ræða á næsta fundi, en samt hefur farið mikil orka, tími og fyrirhöfn í að vinna að fundinum. Allir viðstaddir gætu verið að gera eitthvað kraftmikið, lifandi og skemmtilegt í staðinn. Þetta þekki ég persónulega frá hinum og þessum fundum og tilraunum til stofnana virkra hópa. En í samfélagi þar sem flest fólk trúir á stofnun samtaka til að koma málum í framkvæmd, er þá vitneskjan um tilvist samtaka t.d. til höfuðs fordómum gagnvart innflytjendum, nóg til að ýta á fólk að taka á sínum fordómum?

Önnur leið, sú sem ég praktísera sjálfur, er að fara að gera hlutina, koma skilaboðum ekki bara út í samfélagið, horfandi á það sem einingu, heldur til einstaklinganna sem gera samfélagið að því sem það er. Með ljósritunarvél og reiðhjól að vopni er hægt að gera heilmargt, verslanir, félagsmiðstöðvar og veitingastaðir taka gjarnan við smáritum og bæklingum sem innihalda hvatningu til einstaklinganna að virkja sig sjálf. Í stað þess að safna að sér liði er markmiðið að hvert og eitt okkar átti sig á því að hann eða hún, í samvinnu við nokkra vini, er heilt lið. Lið sem er allir vegir færir svo lengi sem þau átta sig á því að hindranir og landamæri búa aðallega í huganum. Þannig getur samfélagsleg vitund um mikilvægi þess að hvert og eitt okkar getur haft áhrif á stórtæka vísu gegnum “Fiðrildisáhrifin” – þar sem vængjablak fiðrildis í Afríku getur vakið storm í Ameríku. Rómantískt ekki satt? Og skemmtilegt.

Crimethinc gera engar tilraunir til að draga upp útópískt kort af mögulegu samfélagi byggt á samhjálp og gagnkvæmri virðingu. Þeirra pæling er að því fleiri sem lifa virkan anarkisma; vinna með öðru fólki inni í flötu lýðræði, að því að hafa áhrif til breytinga, því betra geti samfélagið orðið. Þau benda á að anarkistar geta unnið með hverjum sem er, hvaða hóp sem er, og ættu að gera það, svo lengi sem anarkistar gleyma því ekki að anarkismahugsunin er að starfa saman og skipuleggja sig án leiðtoga eða yfirvalds, og festa sig ekki í stífu skipulagi stórra samtaka.

Það er gaman að lesa pælingar Crimethinc samfara klassískum anarkistabókmenntum. Mér finnst að þessi litla bók, eins og þeirra frægasta bók "Days of War- Nights of Love," sé hugvekjandi á ýmsan hátt og hvetjandi til framkvæmda en ekki endilega praktísk. Rómantík er ekki praktísk en hún gefur lífinu lit.

Sigurður Harðarson

Til baka í umfjallanir