Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Introduction to Civil War – Tiqqun
Semiotext(e)

Ríki er skilgreint sem það fólk (stofnanir) sem ákveða hvað skuli í lögum standa, það fólk sem setur lögin og þau sem framfylgja því að farið sé eftir lögum. Jafnframt gerir ríki tilkall til einkaréttar á beitingu ofbeldis innan síns yfirráðasvæðis. Vel að merkja skilgreinist yfirráðasvæði ekki einungis landfræðilega heldur einnig félagslega.

Mannfræðingurinn Pierre Clastres rannsakaði og skrifaði um samfélagið í stöðugri andstöðu við ríkið (sett m.a. fram í bókinni „Society Against the State“ og ritgerðasafninu „Archeology of Violence“). Hann lýsir hvernig stríðsmenn þeirra samfélaga sem hann rannsakaði, hafa í frammi stöðuga ofbeldishegðun eða ímynd árásarhernaðar og koma þannig í veg fyrir að einhver höfðingja, hverra staða annars er oft einungis táknræn, geri sig óhóflega breiðan, setji sig í stellingar til að útfæra vald sitt og gera stöðu sína að stofnun og þannig skapa vísi að frumríki.

Tiqqun hópurinn franski setur fram gagnrýni á ríkið sem byggir nokkuð á þessu. Í stuttum, númeruðum málsgreinum er farið yfir hvernig nútímaríkið gerir kröfu til alræðis innan samfélaga og með tilvist sinni alhæfir að utan ríkisins sé einungis óreiða meðan Tiqqun benda á að utan ríkisins sé fjölskipulag – fjöldi skipulagðra eininga, hver með sínu lagi. Ríkið alhæfir einnig að það sé friðarstillirinn í hverju samfélagi en um leið er tilvist þess stríðsyfirlýsing á hendur hvers kyns skipulags utan við yfirráðasvæði þess, því ríkið krefst alræðis. Efist einhver ætti sá hinn sami að leyfa sér að deila á rétt lögreglumanna (þeim hluta ríkisins sem framfylgir því að lögum sé fylgt) að verki. (Kafli 45.)

Ríkið og krafan um einkarétt á hinu pólitíska, þýðir umbreyting hins fjölskrúðuga heims mannlífsins í þjóðir, skattgreiðendur, borgara – hvaðeina sem fellur að flokkunum og skilgreiningum þeirra sem horfa niður valdapýramídana, þeirra sem sjá ekki manneskjur og samfélög, heldur viðfangsefni (kennitölur, mannauð) sem lifa í óreiðu og passa ekki inn í beinlínuskipulag hagræðingarinnar. „Hvergi sést það betur hvernig normið hefur tekið lög ríkisins inn á sig, en þegar skoðað er hvernig gömlu evrópuríkin, sem bitist hafa um yfirráðasvæði í árhundruð, „lögðu niður“ landamæri sín eftir Schengen samkomulagið. Þetta afnám landamæra, þ.e. Afnám þess allra helgasta innan nútímaríksins, þýðir auðvitað ekki að ríkin sjálf muni hverfa, heldur að möguleikinn á enduruppsetningu þeirra er stöðugt til staðar, gerist þess þörf. Í þessum skilningi hverfa landamærastöðvar engan veginn þegar landamæri hverfa, heldur eru þær útfærðar til nánast hvers staðar og hvers tíma. Undir „Empire“ verða landamærastöðvar að „færanlegum“ tollstöðvum sem hægt er að skella niður, vafningalaust, hvar sem er innan yfirráðasvæðis.“ (Bls. 133.)

Tiqqun útfæra skilgreiningu sína á ríkinu út í „alvaldið“ eða „empire“ - „Ríkið úreldir trúarbrögð“ því það tekur yfir frá þeim sem birtingarmynd „hins Eina.“ „Ef að, í helgimyndablætisguðfræði Nicea, tákni Kristur ekki nærveru guðs heldur óhjákvæmilega fjarveru guðs - það hversu ómögulegt er að vera fulltrúi guðs á jörðu, er sjálfstæðisyfirlýsing nútímaríkisins skáldlegt ákall um að „siðmenntað samfélag“ dragi sig tilbaka. Þannig er nútímaríkið getið sem hluti samfélags sem tekur engan þátt í samfélaginu, og getur þessvegna verið fulltrúi alls samfélagsins.“ (Bls. 121.)

Ef horft er í staðreyndir málsins er fátt eða nær ekkert sem viðkemur hegðun manna, sem ríkið kemur ekki inn á. Hvert inngrip ríkisins - veri það lagasetning eða lögregluaðgerð, málssókn eða stofnun barnaspítala – skilur eftir sig norm og verkfæri sem skapa nýjan veruleika. Sá veruleika á ekki uppruna innan samfélags en er samt veruleiki samfélags og enginn innan þess samfélags þekkir annan veruleika.

Empire birtist okkur ekki eins og viðfangsefni, við stöndum aldrei frammi fyrir því, heldur sem fjandsamlegt umhverfi.“ (Bls 171.)

Við hvert inngrip ríkisins er það eðlislæga innsæi sem frá upphafi homo sapiens hefur gert og gerir manneskjum kleift að lifa saman og lifa af, endurskapað. Þar sem veruleiki hvers og eins þess sem er skilgreind/ur og skilgreinir sig sjálf/an sem „borgara“ er skapaður af ríkinu eða „empire“ verður enginn munur á borgara og löggæslumanni. Allir verða útsendarar apparatsins.

Þessvegna taka Tiqqun upp þá kenningu Clastres að borgarastyrjöld sé eðlilegt ástand innan samfélags.

Borgarastyrjöld í skilgreiningu „empire“ er blóðbaðsóreiða ofbeldishópa sem berjast um að verða nýtt ríki þegar yfirvaldstóm myndast. En kenningu Clastres má einnig skilja útfrá bíómyndaslagorðinu úr V for Vendetta: „Fólkið á ekki að óttast ríkisstjórnina heldur á ríkisstjórnin að óttast fólkið.“

Ákall um borgarastyrjöld sem hluta af voru daglega lífi, er ákall um meðvitaða og gagnrýna einstaklinga og hópa sem neita að falla undir skilgreiningar ríkisins. Manneskjur sem skilgreina líf sitt og veruleika útfrá eigin forsendum og berjast af hörku fyrir að fá að halda þeim forsendum.

Ofantalið er nokkurnveginn það sem ég sæki úr þessari bók. Hún er þess eðlis, og ég sem lesandi sömuleiðis, að auk heildarskilnings á verkinu, sæki ég úr henni einnig hina og þessa punkta sem dýpka skilning minn á hversu djúpt sokkin tilvera mín er inn í veruleika ríkisins. Enn og aftur kem ég inn á þá staðreynd að ég er einungis heimalesinn í heimspeki og stjórnmálum og þessvegna er líklega margt í þessari litlu bók sem hefur farið fram hjá mér við lestur hennar. En mér liggur of mikið á til að lesa alla pólitíska speki með orðabók mér við hlið. Þá missi ég alltaf af einhverju en ég les ekki bækur til að muna þær orðrétt heldur til að fá tilfinningu fyrir efninu og víkka þannig hugsun mína.

Þetta þýðir jafnframt að þessi þýðing (úr frönsku) á Introduction to Civil War er alls ekki allra að lesa eða skilja. Tiqqun hópurinn er greinilega hópur víðlesinna einstaklinga og er það vel en þessi bók þeirra er jafnframt þung lesning sem sver sig í ætt við Society of the Spectacle eftir Guy Deboard.

Mestmegnis greip hún mig heljartökum en inn á milli skoppaði ég milli hugmyndafræðilegra staksteina án þess að virkilega snerta á smáatriðum efnisins, einungis vegna þess að ég skildi ekki vísanirnar.

Fyrir fólk sem sækir í sjálfsmenntun um hversu víðtækt ríkið er sem veruleiki innan samfélaga er kannski auðveldara að lesa anarkíska mannfræðinga eins og James C Scott, David Graeber og Harold Barclay. Fyrir fólk sem sækir í ákall um borgarastríð er um að gera að kynna sér t.d. rit Alfredo Bonnano.

Sigurður Harðarson

 

Til baka í umfjallanir