Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Seeing Like a State – How Certain Schemes to Improve the Human Condition Have Failed
James C. Scott
Yale University Press, 1998.

James C. Scott er prófessor í mannfræði og stjórnmálum við Yale háskólann. Ég var spenntur fyrir þessari bók eftir að hafa lesið The Art of Not Being Governed eftir sama höfund. Mér finnst svo heillandi á hversu mannlegan hátt, hann fjallar um manneskjur sem leitast við að lifa sínu lífi samkvæmt eigin bestu vitund, meðan ríkisstofnanir vilja vita þeim betur (og útfæra þann vilja sinn með ofbeldi). Hann skrifar jafnframt meðvitaður um eigin takmörk og afar læsilega, eins og hann vilji virkilega koma þekkingu sinni til fólks.

Ég bjóst við mannfræðilegri og pólitískri úttekt á þeim skipulagsverkefnum sem kápan lýsir – hvenig rússneskir bændur voru þvingaðir til þáttöku í samyrkjubúum undir sovétstjórn, þvingun hirðingja í Tanzaníu til búsetu í ríkisþorpum, o.fl allt undir því yfirskini að embættismenn ríkisins vissu betur en fólkið sjálft, hvað því er fyrir bestu – en bókin fjallar meira um hvaða hugsunarháttur er að verki þegar þeir sem skipuleggja horfa niður á við af sínum valdapýramída.

Höfundur byrjar bókina á umfjöllun um viðhorfi ríkisstofnana til skóglendis. Innan fyrstu nútímaríkja evrópu varð til úttekt á skóglendi með tilliti til nýtingarmöguleika. Ríkið hefur rörsýn á skóginn, í þeirri sýn eru einungis til nothæf tré og ónothæf tré og matsmenn ríkisins eru blindir á allt annað sem myndar skóg – gras, blóm, sveppi, mosa, lággróður og vínviður. Hvað þá á eðlur, fugla og óteljandi tegundir skordýra auk annars dýralífs. Að auki útilokar rörsýn ríkisins hinn mannlega þátt, hvernig hinn almenni borgari nýtir skóginn og nýtur hans með veiðum, söfnun og útivist. Bókstaflega sér ríkið ekki skóginn fyrir (markaðsvænum) trjánum. Skógurinn sem búsvæði (habitat) hverfur en í stað hans kemur skógurinn sem auðlind:

Orðaforðinn sem er notaður til að skipuleggja náttúru ber þess glögg merki hvert áhugasvið þess er sem beitir orðunum. Nýtingarumræðan tekur hugtakið náttúra“ út fyrir hugtakið náttúruauðlindir,“ með fókus á þá hluta náttúrunnar sem hægt er að nýta … þannig að plöntur sem hægt er að nota verða uppskera,“ plönturnar sem eru í samkeppni við þær verða illgresi“ og skordýrin sem éta þær fá stimpilinn plága.“ Þannig verða verðmæt tré að timbri“ en tegundir sem keppa við þær rusltré“ eða lággróður.“ Sama á við um dýralíf: Verðmæt dýr kallast bráð“ eða búfénaður“ en þau dýr sem keppa við þau eða leggjast á þau kallast rándýr“ eða óargadýr“.

Scott tekur fram að við skipulagsvinnu sé alltaf þörf fyrir ákveðna afstæðni í hugsun. En skipulagsvinna embættismanna ríkisins snýst um útbreiðslu valdsviðs ríkisins og kenning Scott segir að ríki geti útfært vald sitt yfir það sem þau hafa þekking á og þekking þeirra byggir á mælanlegum einingum, einföldun og innsetningu í kerfi. M.ö.o. krefst þekking ríkisins þess að því yfirsjáist, að stórum hluta, mikilvægir staðbundnir þættir.

Rörsýn ríkisins sýnir sig einnig í dæminu sem Scott tekur um franska arkitektinn Le Corbusier sem skipulagði heilar borgir útfrá sinni sýn á borgir sem lífvélar“. Hann hannaði borgir með svæðum fyrir fólk að vinna í og öðrum svæðum fyrir fólk að lifa í, algerlega blindur á þá staðreynd að borg er ekki klasi af byggingum með hlutverk heldur summa allra athafna þeirra manneskja sem mynda borgina. Einnig bendir Scott á hvernig borgarskipulag séð ofan frá innan valdapýramída, miðast við gott aðgengi hers og lögreglu að íbúum borgarinnar. Scott tekur hér einnig fyrir gagnrýni Jane Jacobs á lífvélaviðhorfið gagnvart borgum.

Línulegur arkitektúr Le Corbusier sýnir sig einnig í viðhorfi evrópskra bænda sem virtu fyrir sér bútækni bænda í afríku og S-Ameríku. Þeir sáu einungis framleiðnilausa óreiðu, blindir á þá þúsunda ára þekkingu sem frumstæðir“ garðyrkumenn höfðu yfir að búa og kenndi þeim hvaða plöntur gott væri að rækta saman, bæði hvað varðar náttúrulegar skordýravarnir og mismunandi uppskerutíma, þannig að bændurnir hefðu uppskeru allt árið um kring. Evrópskir og bandarískir bændur sjá ekki akur nema þeir sjái beinar línur og einræktun og þurfa því eitur og tilbúinn áburð til að landið skili uppskeru. Scott rekur þannig hvernig hátæknileg nálgun á landbúnað verður til þess að aðlaga verður náttúruna að vélunum en ekki á hinn veginn. Nýtingarnálgunin á náttúra leiðir til firringar bændanna hvað varðar náttúruna sem þeir hafa lifibrauð sitt af.

Tekin eru fyrir herfileg dæmi um landbúnaðarsérfræðinga sem tóku að sér að skipuleggja ræktun á stórum svæðum án þess að hafa nokkuð fyrir sér nema kort af svæðinu og eigin tölur um það magn áburðar og fræja sem ætti að skila af sér ákveðnu magni af uppskeru. Þannig fór t.d. Samyrkjubústefna Sovétríkjanna fram og leiddi til hungurdauða þúsunda. Sextíu árum seinna, við hrun sovétríkjanna, fundaði nefnd um hvernig ríkið gæti farið að því að leiðrétta það að hafa þurrkað út alla staðbundna þekkingu um hvernig best sé að rækta rússneska jörð. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að fyrst rússneskir bændur höfðu lifað af sextíu ár af þvinguðum samyrkjubúskap, myndu þeir lifa af að verða aftur sjálfstæð eining.

Hinir kúguðu hópar lifa af þvinganir ríkisins þar sem þeir nýta sér takmarkanirnar í þekkingu ríkisins. Þar sem útsendarar ríkisins skilja ekki nema að litlu leyti hvernig staðbundnir hópar lifa í snertingu við náttúruna, geta þessir hópar lifað af með því að svindla á kerfinu“. Manneskjur eru náttúruleg fyrirbæri og passa þessvegna aldrei fullkomlega inn í kerfi, ekki frekar en ánamaðkar, endur eða skriðjöklar. Þessvegna er fullkomin stjórn ríkisins innan síns yfirráðasvæðis alltaf ímynduð að einhverju leyti.

Sigurður Harðarson

Til baka í umfjallanir