Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Government eftir B. Traven (1971)

Government er fyrsta bókin í sex bóka röð rithöfundarins B. Traven sem saman ganga undir heitinu The Jungle Novels“. Eina af þeim hef ég þegar skrifað um hér á síðunni: Rebellion of the Hanged.

B. Traven var rithöfundur sem einn anarkistafélagi minn kallað nóbelskáld okkar anarkistanna“. Hans þekktasta bók er líklega Treasures of Sierra Madre sem var kvikmynduð og gott ef Humphrey Bogart lék ekki aðalhlutverk, en það er aukaatriði.

Í frumskógasögunum skrifar B. Traven um hlutskipti frumbyggja Mexíkó í samskiptum þeirra við valdhafa, sem eru allir evrópskir innflytjendur eða afkomendur þeirra. Á sögutíma er Porfirio Diaz forseti Mexíkó en samkvæmt bókarkápu var hann forseti á árunum 1876 til 1911. Bókaflokkurinn er stórsaga um aðdraganda mexíkósku byltingarinnar á síðustu stjórnarárum Diaz.

Í Government segir frá Don Gabriel, Mexíkóa sem er illa staddur fjárhagslega og getur sjálfum sér um kennt. Í byrjun sögunnar er hann að þreifa fyrir sér um pólitíska stöðu sem gefur vel af sér, þ.e. stöðu innan ríkisstjórnarinnar sem býður upp á persónulegan hagnað fyrir utan beint starfssvið. Fyrir menn í hans stöðu er helst um að ræða stöðu fulltrúa (secretario) á afskekktum svæðum. Fulltrúinn er þá laganna vörður, verslunarmaður og skattstjóri á sínu svæði. Staðan sem Don Gabriel býðst er í sjálfu sér einskis virði hvað varðar tign eða opinber laun. Í nokkur ár hefur enginn setið hana í þorpinu sem honum býðst þar sem lítið er hægt að plokka af bláfátækum indíánunum og síðasti secretario var drepinn, líklega þar sem hann gekk of langt í samskiptum sínum við indíánana. Hættan á að vera drepinn af viðfangsefnum sínum fylgir starfslýsingu secretario á afskekktum svæðum.

Don Gabriel kemur sér fyrir í þorpi, í sama skúr og hýsti fyrirrennara hans, vingast við valdalítinn höfðingja þeirra indíána sem mynda þorpið og félagslegt umhverfi þess, og setur upp litla verslun meðan hann veltir fyrir sér hvernig hann geti gert stöðu sína arðbæra.

Þar sem hann selur áfengi og viðskiptavinirnir drekka illa, getur hann skipt um hlutverk, breyst frá verslunarmanni yfir í fulltrúa laganna, og sektað þá fyrir drykkjuskap og dólgslæti. Þar sem enginn hinna skuldugu á peninga býður hann þeim að vinna af sér skuldina í vinnubúðum. Don Gabriel fær greitt fyrir hvern einstakling sem hann skaffar en fáir eiga afturkvæmt úr þessum þrælkunarbúðum.

Sagan víkur að fleiri karakterum sem fara um þetta villta vestur“ Mexíkó og leitast við að ota eigin tota með réttlætingum í nafni hins kristna guðs, innfluttrar þjóðernishyggju og í nafni framfara og hagvaxtar byggðum á lagalega réttlættri þrælkun indíánanna.

Eins og bókartitill vísar til segir sagan frá eðli ríkisins: Kerfi þar sem fáir hafa valdastöður og þvinga alla undir sér til hlýðni. Kerfi þar sem þeir sem sækja í spillingu hafa aðgang að valdastöðum meðan aðrir, eins og flest fólk, vill lifa sínu lífi, með sínum nánustu, í friði. Þess vegna eru uppreisnir og byltingar sjaldgæf fyrirbæri: Fólk er seinþreytt til vandræða því það vill njóta lífsins.

Einmitt þannig lýsir B. Traven indíánunum. Þeir lifa einföldu lífi og hafa ekki fyrir því að setja sig inn í hugsanagang kúgara sinna, þeir hafa ekki áhuga á að vita afhverju að þeim er logið. Indíánarnir vilja fá að vera í friði og láta verulega ganga yfir sig áður en þeir bregðast við, en þá bregðast þeir við af hörku svo blóð rennur.

Sigurður Harðarson

Til baka í umfjallanir