Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

A Girl Among the Anarchists eftir Isabel Meredit
1903
University of Nebraska press 1992

Skáldsagan A Girl Among the Anarchists var skrifuð af systrunum Helen og Olivia Rossetti sem þegar á unglingsárum ritstýrðu eigin anarkistatímariti, The Torch: A Revolutionary Journal of International Socialism. Systurnar stofnuðu tímaritið árið 1891 með bróður sínum, eftir að hafa lesið ritgerð Kropotkin´s; Appeal to the Young, systkinin voru þá sextán, fjórtán og þrettán ára en eftirá séð var The Torch tímarit sem þau héldu við í fimm ár og bar að taka alvarlega með greinum eftir m.a. Emmu Goldman, Sebastien Faure, Louise Michen, Malato og Malatesta.

Söguhetjan Isabel er, eins og systurnar sjálfar, ung stúlka af millistétt, búsett í London. Sögutími er upphaf síðustu aldar. Isabel býr ásamt bróður sínum og þjónustufólki í húsum látins föðurs þeirra. Systkinin eru pólitískt meðvituð. Bróðirinn sósíalisti og lærir til læknis. Hann er að einhverju leyti virkur í hreyfingu sósíalista og Isabel, þá átján ára, spennt fyrir að láta til sín taka í grasrótarstarfi byltingarsinna. Hún lærir fljótt að sósíalistar eru ekki nógu róttækir fyrir hana og kemst í kynni við hóp anarkista sem gefa út róttækt anarkistarit, The Torch. Þessi fyrstu skref hennar inn í starfið eru mikið persónulegt átak. Félagslegur bakgrunnur Isabel er samfélag fast í stéttaskiptingu og kúgun kvenna og anarkistum var á þessum tíma einungis lýst í fjölmiðlum fyrir “propaganda by the deed” eða sprengjutilræði og morðtilræði við valdamikla einstaklinga.

Stór hluti sögunnar er lýsingar söguhetjunnar á þeim sérstöku karakterum sem einkenna hópinn sem hún verður hluti af: Anarkistarnir eru sumir illa hirtir, þjakaðir af svo sterku hatri á félagslegu óréttlæti að það eitrar líf þeirra og öll samskipti við umheiminn, aðrir blíðlyndir, með hjartað á réttum stað og gefa allt sem þeir eiga fyrir málstaðinn, margir landflótta víðsvegar að úr Evrópu, allir bláfátækir, hungraðir, hundeltir af lögreglu og sameinaðir í anarkískri byltingarvitund. Annað en söguhetjan, hafa nýju vinir hennar engu að tapa nema lífinu.

Isabel hellir sér út í starfið. Þau hafa litla prentvél, leigja kompu undir starfsemina (sem gengur erfiðlega því fáir þora að leigja anarkistum) og hefja útgáfu og dreifingu, sumpart fjármagnaða af Isabel sjálfri. Nýr heimur opnast fyrir Isabel, gegnum þessa karaktera sem hún nú umgengst, hún fer inn í fangelsi að heimsækja handtekna félaga, inn á heimili fátækustu Lundúnabúa og fær þannig betri innsýn inní dýpt þess ömurleika sem samfélag í viðjum stéttaskiptingar, iðnvædds kapítalisma og undir oki yfirstjórnar valdapýramída býður þeim fátækustu.

Innan hópsins er stöðugur hugmyndafræðilegur ágreiningur milli þeirra sem vilja betrumbæta samfélagið, endurskipuleggja í anarkó-sósíalískri vitund, og níhílískari einstaklingshyggjumanna, sem vilja sprengja allt í loft upp. Isabel tekur virkan þátt í öllum umræðum og skilur viðhorf beggja en er jafnframt meðvituð um hversu absúrd það er að eyða allri sinni orku í að rífast um eftirvinnslu byltingar sem er langt frá því að skella á.

Þrátt fyrir að hún geri sitt besta til að hjálpa finnur hún fyrir djúpu umkomuleysi þegar einn ítalskur félagi hennar og vinur meðal anarkistanna, sekkur sífellt dýpra inn í ofsóknaræði. Vesalings maðurinn hættir að treysta vinum sínum, flækist um í mikilli vanlíðan og lætur sig hverfa úr landi. Fréttist ekki af honum fyrr en blöðin segja frá misheppnaðri morðtilraun anarkista við ítalska valdafígúru.

Isabel skilur heldur ekki, eða neitar að skilja hví manneskjur sem unna lífinu svo heitt að þær geta gefið allt sem er í þeirra valdi til að verja það, fyrirgera um leið eigin lífi:

Why should we ruin our lives? To what idol of our own creation are we sacrificing our happiness? We Anarchists are always talking of the rights of the individual, why are you deliberately sacrificing your personal happiness and mine?” (bls 267). Þessu hreytir hún framan í félaga Kosinski eftir að hann hefur ákveðið að hella sér út í byltingarstarf í Austurríki. En hann svarar: “An Anarchists life is not his own, friendship, comradeship may be helpful, but family ties are fatal.”

Þessa fórn getur Isabel ekki sætt sig við. Til þess að geta verið virkur anarkisti þarf hún fyrst að lifa lífinu. Í bókarlok yfirgefur hún anarkistahópinn nokkuð miður sín og að einhverju leyti útbrunnin en margs vísari.

Sigurður Harðarson

Til baka í umfjallanir