Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Woman on the Edge of Time
Marge Piercy
Ballantine Books 1976

Þessi bók er ein af nokkrum sem mælt var með við mig sem góðri skáldsögu sem um leið útskýrir og styrkir málstað anarkismans. Að lesa þannig skáldsögur er góð leið fyrir þann, sem á erfitt með að lesa of formleg skrif eða fræðileg, til að lesa sér til um anarkisma.

"Woman on the Edge of Time" segir frá Connie, bandarískri konu kominni af mexíkóskum foreldrum. Connie hefur ekki alltaf átt gott líf. Henni hefur verið hent milli valdastofnana í mynd ofbeldisfulls föður og seinna ofbeldisfulls ástmanns, vanlíðan hennar leiðir hana útí drykkju og neyslu annara vímuefna þartil hún er handtekin fyrir vanrækslu dóttur sinnar og dæmd til vistunar á stofnun fyrir ofbeldisfulla geðsjúklinga. Við upphaf bókarinnar hefur hún búið ein í nokkur ár og er undir eftirliti skilorðsfulltrúa. Bróðurdóttir hennar, Dollie, býr með manni sem ber hana og þröngvar henni til vændis og í reiðikasti stórslasar Connie manninn þegar hann brýst inn í íbúð hennar til að ná til Dollie. Það atvik kemur henni aftur inn á stofnun að veittu samþykki föður hennar. Þar inni er vistin ömurleg því þessi stofnun er ekki annað en geymslustaður og eina meðferðin sem veitt er, er sterk róandi lyf og "hjúkrun" starfsfólks á valdatrippi. Teymi lækna á stofnuninni er að fara í gang með róttækar aðferðir til að lækna ofbeldisfulla sjúklinga; þeir gera aðgerðir á heila þeirra og setja inn móttakara sem á að gera mögulegt að stjórna viðbrögðum þeirra við umhverfinu.

Stuttu áður en Connie lenti inni á stofnun í seinna skiptið varð hún vör við undarlega konu sem setti sig í samband við hana og segir henni að hún hafi krafta til að vera "móttakari" í tengslum við fólk í framtíðinni, nánar tiltekið árið 2137. Connie, tortryggin vegna reynslu sinnar af öðrum manneskjum, trúir henni báglega en fer smámsaman að geta, gegnum tímaferðalög, að hluta til líkamnast í árinu 2137. Þar kynnist hún samfélagi sem haldið er saman af lífsglöðu fólki sem allt frá frumbernsku þjálfar sig í að vera félagslega meðvitað og þannig vinna með öðrum að því að vera sjálfum sér og samfélagi sínu gagnlegt og gefandi. Samfélagsmyndin er af mörgum litlum einingum sem stjórnað er af ráðum samsettum úr hverjum þeim málsmetandi einstakling sem vill taka þátt. Og þar sem einstaklingarnir rækta sjálfa sig til að lifa gefandi og auðugu lífi eru allir marktækir og þátttakendur. Búið er að skipta út borgum fyrir þorp. Vistfræði og umhverfisvernd er öllum ofarlega í huga en mest áberandi fannst mér í því samfélagi sem Piercy skapar í bókinni, að tekið hefur verið á misrétti kynjanna með því að nokkurnveginn útrýma kynjamuninum. Það er ekkert "hann" eða "hún" lengur heldur er vísað til einstaklinga sem "person" stytt í 'per'. Fóstur eru ræktuð úr genabanka og meðgönguvélum þannig að enginn er genetískt skyldur heldur er unnið markvisst að því að genetík mannkyns sé blanda af öllum kynþáttum. Allir eiga nokkrar "mæður" og karlkyns einstaklingum gefst kostur á að gefa brjóst gegnum hormónagjöf. Um leið sefur fólk hjá eftir smekk eða á sér fasta lífsförunauta.

Lífið þarna getur líka verið hart og fullt af uppákomum en samfélagið glímir við þær uppákomur eftir því sem rétt þykir hverju sinni. Einstaklingar eru þjálfuð í sjálfsvörn um leið þau eru þjálfuð í að virða hvort annað. Ráðið vinnur með viðkomandi einstaklingum að leysa úr vandamálum í þeim tilvikum sem koma upp þar sem ofbeldi hefur verið beitt. Sýni sá brotlegi enga iðrun koma til refsingar í formi erfiðari þátta hinnar almennu þegnskylduvinnu. Sá brotlegi er að vinna með dómara sínum að eigin refsingu en ítrekuð brot eru ekki liðin, þau geta leitt til þess að viðkomandi sé tekinn af lífi.

Í einni ferðinni inn í framtíðina lendir Connie inni í öðrum hluta framtíðarinnar, inni í framtíð þar sem manneskjum er haldið ekki ósvipað og skepnum er haldið í okkar samfélagi í dag. Hún á samtal við vændiskonu sem fer reglulega í aðgerðir til að halda líkama sínum í fáranlega öfgakenndri mynd þess sem kallast "rétt" líkamsmál, en sér fram á að verða hent um leið og eiganda hennar finnst hún ekki lengur nothæf, og finnst það sjálfsagt. Allir ganga með vélarhluta í sér til eftirlits og viðhalds því allir eru eign einhverrar samsteypunnar. Þessi hluti framtíðarinnar á í stríði við hina sjálfstæðu hópa sem eru vinir Connie þar sem skipulagið er laust við yfirstjórn og eignarhald.

Ég var óvenju lengi að lesa "Woman on the Edge of Time". Hún hélt mér ekki alltaf við efnið því Piercy fannst mér stundum eyða of miklu púðri í tilfinningalíf persónanna þegar mig langaði frekar að vera að fá framvindu sögunnar í gang því ég var spenntur að vita hvernig færi fyrir Connie, lokaðri inni á stofnun, á valdi læknagengis sem vildi ekki hleypa henni út nema þeir fengu að gera á henni aðgerð sem breyta ætti persónuleika hennar. Ég vildi líka fræðast meira um gang mála í þessu samfélagi hinna yfirvaldslausu í stað áherslunnar sem mér fannst vera á kynhegðun fólksins þar. Bókin er samt spennandi þegar hún hífir sig upp úr þessum langlokuköflum sem ég er að kvarta yfir og svarar mörgum spurningum þeirra sem eru með vangaveltur um hvernig samfélag án yfirvalds gæti mögulega verið skipulagt og hvernig það gæti gengið upp. Kannski koma kvartanir mínar til af því að sjálfur var ég á miklu flakki meðan ég las bókina og greip í hana í millilandaflugi hingað og þangað og ekki alltaf með einbeitinguna stillta inn á ritstílinn. Mér finnst bókin enda skemmtilega þar sem Connie grípur til sinna ráða gegn því læknagengi sem er að vinna að þeirri skelfilegu framtíð fyrirtækjasamsteypanna sem hún fékk innsýn í, en samt er ekki öllum spurningum svarað og lesandinn verður sjálfur að hugsa málið. Þegar upp er staðið sýnir "Woman on the Edge of Time" fram á að framtíðin er afleiðing þess sem við gerum í dag og ef við leyfum nýríkum hópum á valdatrippi að gera það sem þeim sýnist við daginn í dag erum við um leið að gefa þeim morgundaginn líka.

Sigurður Harðarson

Til baka í umfjallanir