Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

 

WITHOUT A GLIMMER OF REMORSE

Pino Cacucci

Read and Noir 2006


Í byrjun síðustu aldar var Jules Bonnot eftirlýstasti maður Frakklands. Hann var verkamaður og virkur anarkisti en á þessum tíma í Evrópu voru réttindi verkafólks engin og anarkistar og annað æsingafólk álitið réttdræpt af atvinnurekendum og annarri elítu.

Áður en Bonnot gaf endanlega upp á bátinn að aðlagast samfélagi smáborgarans virðist hann hafa gert sitt besta til þess, en ranglætið sem hélt þessu samfélagi gangandi, gat hann ekki séð í friði. Bonnot var fróður um vélar og laginn viðgerðamaður og á þessum tíma voru bílvélar að koma til sögunnar sem einkabílar. Því var næga vinnu að hafa fyrir vélfróða menn, en hvarvetna sem Bonnot reyndi að koma sér fyrir var hann rekinn úr vinnu því yfirvöld sáu til þess að orðspor hans sem anarkista fylgdi honum.

Jules Bonnot og allar aðrar sögupersónur voru til í raun og ég veit ekki hversu mikið skáldaleyfi höfundur gaf sér. Þessi skáldsaga um líf hans hefst þegar hann er unglingur, þá þegar skapheitur og alinn upp við ranglæti og ofbeldi bæði af hendi yfirvalda og síns eigin föður. Farinn að heiman flækist hann um París, bláfátækur og sveltandi. Hann er kallaður í herinn og lærir þar að umgangast skotvopn og vélar. Á þessum tíma kynnist hann eiginkonu sinni og um tíma tíma virðist sem hann geti orðið sáttur við sitt litla horn af heiminum. En hvar sem fjölskyldan kemur sér fyrir sendir franska lögreglan vinnuveitendum bréf þar sem varað er við anarkistanum.

Flakk og vonleysi setur mark sitt á fjölskyldulífið og kona hans fer frá honum og lokar á umgengi við son þeirra. Bonnot verður bitur maður, ranglæti hins daglega lífs blasir við honum og bitnar á honum persónulega. Hann flækist enn um, rænir sér til viðurværis eða vinnur hér og þar, er um tíma í Englandi sem einkabílstjóri Sir Arthur Conan Doyle, höfundar bókanna um Sherlock Holmes, en hefur hefur upp úr því ránsferil í samvinnu við ítalskan vin.

Sá ránsferill þróast út í gengi anarkista sem eiga það sameiginlegt að finnast þeir engu hafa að tapa og ákveða að vinna gegn hinu öfugsnúna samfélagi smáborgaranna með stórfelldum vopnuðum ránum. Afraksturinn setja þeir inn í anarkistahreyfinguna til að styrkja útgáfu bóka og tímarita. Þar sem Bonnot er vanur bílstjóri verður hann og félagar hans fyrstu bankaræningjar sögunnar til að nota bíl til að flýja af vettvangi. Það var árið 1911.

Vopnað gengi anarkista sem rænir banka kallar á heiftarleg viðbrögð yfirvalda. Allir anarkistar og annað fólk sem er þeim hliðhollt er handtekið og yfirheyrt á hinn hrottalegast hátt, eða bara skotið á staðnum. Lögregla og her leitar þeirra og á endanum er Jules Bonnot umkringdur á heimili vinar, skotinn og sprengdur í loft upp.

Í umræðu um byltingar og uppreisnir er gjarnan vitnað í Max Stirner: Bylting er umbylting ríkis eða samfélags. Bylting er þess vegna pólitísk eða félagsleg aðgerð. Uppreisn hinsvegar er umbreyting aðstæðna, uppreisn kemur til vegna óánægju einstaklinga með eigin aðstæður, hún er ekki skipulögð hreyfing heldur framtak einstaklinga og tekur ekkert tillit til mögulegra afleiðinga. Markmið byltingar er nýtt fyrirkomulag en uppreisn á sér stað þegar fólk leyfir ekki lengur að ráðskast sé með það og vill ráða eigin ráðum eftir að hafa endanlega gefist upp á þeim stofnunum sem ráða.

Eftir lestur þessarar skáldsögu varð mér hugsað til allra þeirra anarkista og annarra sem urðu fyrir barðinu á gagnárásum lögreglunnar eftir að vopnaðar árásir Bonnot gengisins hófust. Líklega var anarkistahreyfingin í París þess tíma barin niður í heild sinni vegna þeirra. Samt skil ég hvers vegna þeir hikuðu ekki lengur við að stíga þessi skref þó að það sé samt ekki rétt að tala um sameiginlegt hikleysi hópsins því eftir fyrsta bankaránið fækkar í hópnum því (skv. þessari skáldsögu) verður einn úr genginu ástfanginn í millitíðinni. Einstaklingar í virkri uppreisn eru það vegna þess að þeir geta ekki annað en risið upp. Eins og Stirner skrifaði þá hafa þeir endanlega gefist upp á þeim stofnunum sem umkringja vort daglega líf. Þessar stofnanir eru manngerðar og samsettar úr manneskjum sem hafa auðvitað engan skilning á hugsanagangi einstaklinga í uppreisnarhug. Þess vegna eigum við svo margar sögur af anarkistum og öðru uppreisnarfólki sem einmana og bitru í almennu stríði við samfélagið. Það er ekkert rómantískt við líf þeirra og ótímabæran dauðdaga; barin og seinna skotin eins og hundar, en ég tengi andlega við afstöðu þeirra.

Sigurður Harðarson

Til baka í umfjallanir