Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Outrage — An Anarchist Memoir of the Penal Colony
Clément Duval
PM press 2012

Árið 1852 byrjaði franska ríkið að senda brotlega menn til nýlenda sinna í Guiana. Þegar þetta athæfi lagðist af höfðu um 70.000 fangar verið dæmdir í þá vist. Um þrír fjórðu hluta þeirra létu þar lífið, tæplega 5000 náðu að komast aftur til Frakklands hafandi tekið út dóm sinn. 9000 reyndu að flýja, fáir þeirra lifðu það af en einn þeirra var anarkistinn Clément Duval. Dæmdur til erfiðisvinnu til lífstíðar fyrir glæpi sem hann viðurkenndi gjarnan – innbrot, þjófnað og árás á lögreglumenn – en hann mótmælti stöðugt og harðlega þeirri misbeitingu valds, með tilfallandi refsigleði, svikum og óréttlæti sem viðgekkst í rekstri fanganýlendanna.

Eftir að ný lög frá 1892 gengu í gildi, sem gerðu það kleift að dæma fólk fyrir skoðanaglæpi, voru margir anarkistar sendir til fanganýlendanna fyrir að vera skoðanabræður anarkista eins og Ravachol og Emil Henry sem guldu fyrir sína glæpi í fallöxinni. Aðrir glæpir sem lentu anarkistum í fanganýlendurnar var að hengja upp áróðursplaköt, móðga lögreglumenn, syngja uppreisnarsöngva og stæra sig af því að lifa utan atvinnumarkaðarins. Í Englandi á sama tíma sendi réttarríkið pilta til Ástralíu fyrir grun um vasaklútaþjófnað.

Dómur til fanganýlendu snerist ekki um að höggva grjót í fjarlægu landi heldur var þetta kerfi sniðið utan um gróft ofbeldi, það kallaðist þurra fallöxin“ að vera sendur þangað. Til að sá vantrausti meðal fanganna gerðu yfirmenn nýlendanna suma þeirra að formönnum sem misstu forréttindi sín kæmu þeir ekki stöðugt sök á aðra fanga. Til þess þurftu þeir þá að ljúga upp á samfanga sína refsingum, annars lentu þeir aftur meðan samfanga sinna og líf þeirra lítils virði meðal þeirra.

Duval var eldri en hinir anarkistar sem voru sendir til nýlendanna og með reynslu af þessu harða lífi, margir þeirra yngri dóu úr veikindum og vosbúð innan árs. Þessi bók er unnin upp úr lengri endurminningum hans. Duval var greinilega mjög ákveðinn maður, stoltur af því að vera anarkisti og lagði mikið upp úr comradeship“. Enginn af vörðunum gat afskrifað hann sem anarkistarugludall, þrátt fyrir að anarkistar væru hataðir sérstaklega mikið af valdafígúrum, þar sem hann var rökfastur, þekkti réttindi sín sem fangi og stóð á þeim fastar en fótunum. Hann var lærður lásasmiður og var fengin járnavinna en hann neitaði alltaf að snerta á fangajárnum.

Duval lifði af allar sínar 18 flóttatilraunir og komst á endanum til Bandaríkjanna og var tekið opnum örmum af samfélagi ítalskra anarkista í New York. Frásagnarstíll hans er dramatískur þegar hann lýsir hvernig menn lifðu af og dóu í nýlendunum. Það er einnig magnað af lesa hér hvernig anarkistarnir lifðu fyrir hugsjón og baráttu anarkista gegn kúgun sinni og annarra. Hvergi er minnst á að einhver meðal anarkistanna sjái eftir þeim gerðum sínum sem lentu þeim í þurru fallöxinni“. Þessi saga er jafnframt hluti af sögu anarkistahreyfingarinnar og kemur inn á stöðu illegalista“ eins og Duval, sem voru í stríði við samfélag smáborgarans og töldu almenna glæpi eins og þjófnað sjálfsögð tæki í baráttunni meðan margir aðrir anarkistar fordæmdu þá hegðun.

Saga fanganýlendanna er í sjálfu sér hrikaleg og áhugaverð fyrir áhugafólk um sturlun ríkisvaldsins en síðasti nýlendufangi franska ríkisins var náðaður árið 1956.

Tveir þeirra fáu anarkista sem lifðu af dvöl sína í fanganýlendum franska ríkisins skrifuðu endurminningar sínar og þeirra vegna er vitað um þá sem ekki lifðu af. Í bókarlok er listi stuttra æviágripa þeirra anarkista sem koma við sögu og þó stuttar séu eru þær mikil viðbót til að lesandinn skilji betur aðstæður róttækra anarkista í Evrópu á þessum árum.

Sigurður Harðarson

Til baka í umfjallanir