Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Zapata of Mexico
Peter
E. Newell
Freedom
Books/Active Distribution

2005

Það er ástæða fyrir því að indíánarnir í Chiapas í Mexíkó kalla sig “Zapatistas” allt síðan vopnuð uppreisn þeirra hófst árið 1994. Ég hef alltaf vitað að Emiliano Zapata hafi verið uppreisnarleiðtogi á sínum tíma og víða er vísað til hans, en ekki fyrr en eftir að hafa lesið þessa bók veit ég hver hann var og hvernig hann skar sig frá öllum öðrum byltingarleiðtogum sem komið hafa við sögu í Mexíkó. Hversu margar bækur hafa þegar verið skrifaðar um manninn Zapata og baráttuna sem hann leiddi, veit ég ekki en bók Newell er vel skrifuð og fróðleg án þess að höfundur hafi þvingað doðranti upp á lesendur.

Newell lýsir í byrjun þeim aðstæðum sem leiddu til þess að uppreisnarhers Zapata myndaðist; með stuðningi ríkisins tóku stórbændur og kapítalistar undir sig landskika smábænda og land sem hafði verið ræktað í sameign allra íbúa smáþorpa í árhundruð. Fyrrum ábúendur voru þannig þvingaðir til að velja milli þess að vinna fyrir stórbændur eða svelta auk þess að lenda í skuldaánauð við verslanir í eigu stórbænda. Minnir óneitanlega á vistarbönd íslandssögunnar. Zapata kemur frá Morales héraðinu í Suður Mexíkó og þar myndar hann sinn her, sem auðvitað á engin vopn en vopnast smám saman með því að ræna frá hermönnum ríkisins.

Margir leiðandi karakterar og þorpshöfðingjar koma við sögu og margir generálar sem taka að sér að stilla til friðar með hörku. Það er ofbeldi ríkisins sem leiðir til uppreisnar þorshöfðingja Morales, þeir fylkja sér bakvið Zapata sem er ekki sækinn í leiðtogastöðu en er staðfastur maður og með ákveðnar hugmyndir um hvað þurfi að gera, en um leið varfærinn. Zapata og helstu samstarfsmenn hans settu saman áætlun sem setti um leið baráttu þeirra markmið, um hvernig ætti að skila landinu aftur til fólksins; “Plan de Ayala”. Til þessara áætlana er síðan vísað sem “Zapatismo” en fyrir elítu stórbænda og aristókrata er hugsunarháttur smábændanna óskiljanlegur, eins og nálgun þeirra á landeign, en land í sameign er þeim eðlileg og sjálfsögð. Stjórnarherinn gengur (mikið til réttilega) útfrá því að allir íbúar Morales séu Zapatistar og tekur því þorpsbúa af lífi af handahófi, sem leiðir til þess að fleiri ganga í leið með Zapata Liberation Army. Aðrir vopnaðir hópar sem herja á ríkisherinn eru leiddir af einstaklingum sem eru valdasæknir meðan markmið hers Zapata er einungis að smábændur fái lönd sín tilbaka.

Einræðisherrann Porfirio Diaz er hrakinn frá völdum, aðgerðalausi umbótasinninn Madero sest í forsetastól en er hrakinn burt af Carranza sem síðan flýr undan Zapata og Pancho Villa sem hafa sótt að Mexíkóborg úr sitt hverri áttinni. Þeir tveir hittast í forsetahöllinni og fyrrum hestaþjófurinn Villa grínast við Zapata og býður honum sæti í forsetastólnum. Zapata leggur til að stóllinn verði brenndur því “hver sem sest í hann breytist í óvin fólksins”. Mjög anarkískt viðhorf þó að Zapata hafi aldrei kennt sig við anarkisma eða aðrar pólitískar kenningar enda þess ekki þörf þegar unnið er að því að gera heiminn betri án þess að taka völdin.

Frá upphafi baráttunnar hamast opinberir dagblöð við að útmála her Zapatista sem grimma morðingja og nauðgara svo íbúar höfuðborgarinnar eru skelfingu lostnir þegar Mexíkóborg er tekin yfir, en fá síðan hópa hógværra, vopnaðra bænda sem banka á dyr og biðja um mat.

Þegar um hægist og her Zapata er ráðandi afl í Mexíkó er eðlilega enginn vilji þar á bæ til að taka völdin. Þeir menn og konur sem mynda herinn snúa sér aftur að ræktun. En nýir ráðamenn þýðir ný ásókn í land þeirra og líf Zapatistanna skiptist á um skæruhernað og bændalíf. Á tímabili fara fram friðarumleitanir með ákvæði um að her Zapata skili inn vopnum sínum og þeir skila inn ónýtu byssunum en halda þeim góðu, grafa þær í jörð vitandi að þeirra mun verða þörf á ný. Zapata, sjálfur langþreyttur og í örvæntingarfullri þörf fyrir stuðning í baráttunni, er svikinn af herforingja sem gefur sig út fyrir að vilja ganga í lið með honum. Zapata er myrtur en Zapatismo lifir áfram.

Viðbætir í bókarendi fer yfir sögu Mexíkó og þá sér lesandinn enn betur hversu lengi og stöðugt hefur gengið á og gerir enn með vopnuðum uppreisnum landlausra smábænda.

Sigurður Harðarson

Til baka í umfjallanir