Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

 

Reading Room Only – Memoir of a Radical Bibliophile
Phil Cohen
Five Leaves Publications, 2013

Þessi bók er í tveimur hlutum. Í fyrri hluta rekur höfundur uppvaxtarár sín (án þess að gerast of langorður) í London, en aðallega ár sín sem róttækur hippi, félagslegur aktívisti og hústökumaður sem hluti af ´68 hreyfingunni. Seinni hlutinn er vangaveltur höfundar um eðli bókasöfnunar og uppbyggingu persónulegs bókasafns.

Þegar Cohen var virkur aktívisti voru pólítískar hústökur nýtt fyrirbæri og viðhorf almennings snerist um að þetta unga fólk ætti að hætta þessari vitleysu og fá sér vinnu. Lýsingar Cohen á því viðmóti sem mætti þeim minnti mig beint á viðhorf margra sem tjáðu sig um hústökur anarkista í Reykjavík fyrir nokkrum árum. Hipparnir í London þurftu, auk þess að eiga við vopnaða útsendara ríkisins, að eiga við Hells Angels, sem slógu ekki hendinni á móti því að níðast á hippum, og skipulagða glæpamenn sem fettu fingur út í tilraunir Cohen og félaga til að skipuleggja húsnæði fyrir heimilislausa.

Minningar Cohen gefa einnig innsýn inn í tilraunasálfræði RD Laing og uppákomur meðal listamanna og Beat skálda. Greinilegt að þó að margir á þessum tíma væru að gera sitt besta til að gera góða hluti var einnig mikið af vitleysingum sem höfðu sig í frammi.

Hugleiðingar Cohen um bækur og söfnun þeirra eru skemmtilegar og ágætlega skrifaðar. Hann rekur hugmyndir annarra um hvað sé að fólki sem grefur líf sitt undir bókum og hvað þá fræðimönnum og rithöfundum sem safna engu nema eigin bókum.

Ritstíll Cohen er blátt áfram sem og viðhorf hans gagnvart eigin aktivisma, því sem hann gerði vel og þeim mistökum sem hann gerði. Hann dramatíserar ekki neitt og málar sig ekki sem hetju eða heimspeking. Það er það element sem gerir þessa bók áhugaverða og læsilega.

Sigurður Harðarson

Til baka í umfjallanir