Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Q
Luther Blissett
Arrow Books 2000


Eftir að hafa lesið tvær ólíkar sagnfræðilegar bækur um uppreisnir Anababtista og annara hópa „trúvillinga“ gegn ofurvaldi kaþólsku kirkjunnar á 16. öld, var ég spenntur fyrir þessari skáldsögu ítalska rithöfundateymisins sem hér kallar sig Luther Blissett en Wu Ming í seinni skáldsögum.

Sagan fylgir einum anababtista, fyrrum trúfræðistúdent, fylgjanda predikarans Thomas Muntser sem hvatti hungraða smábændur til vopnaðrar uppreisnar gegn prinsum og klerkum sem lifðu á vinnu hinna fyrrnefndu. Í upphafi bókarinnar er sögumaður á flótta eftir að hafa naumlega lifað það af þegar uppreisn smábændanna var barin niður í morðæði leiguhermanna æðri máttarvalda. Sögumaður felur sig sem verkamaður á bóndabýli og getur dvalið þar meðan hann jafnar sig að einhverju leyti á líkama og sál en verður um síðir aftur að leggja á flótta. Hann flækist um undir ýmsum nöfnum, það sem festist við hann er þó Geert from the Well. Hann er með bréfasafn predikarans Muntser með sér, hittir fyrir tilviljun annan æsingamann hreyfingarinnar og þeir flakka um Holland og Belgíu, predika og endurskíra fólk í nafni hins raunverulega guðs og mynda þannig nýja hreyfingu róttækra trúvillinga.

Hreyfingin vex, samhliða vexti hennar er deilt um aðferðir — beint ofbeldi gegn yfirvöldum, bæði veraldlegum sem geistlegum eða friðsöm predikun meðan beðið er komu frelsarans og hins hinsta dags. Uppreisnin nær nýju hámarki í þýsku borginni Munster sem hreyfingin nær að taka yfir, vitandi að málaliðar páfagarðs stefna á borgina. Umsátur hefst, landregið og hörmulegt. Meðan sögumaður nær að laumast út úr borginni til að safna vopnum og sprengiefni, sturlast leiðtogar hreyfinginnar, fylgjendur svelta og eru teknir af lífi fyrir óhlýðni við leiðtogana, sturlaðra af trúarofstæki og valdagræðgi. Flugumaður opnar hlið borgarinnar og fólkinu er slátrað meðan leiðtogarnir eru sundurlimaðir og bútarnir hengdir upp öðrum til viðvörunar (eins og Focault lýsir svo vel í Discipline and Punish).

Aftur sleppur sögumaður naumlega frá pyntingardauða. Kannski vegna þess að hann er skáldsagnapersóna er hann frekar praktískur uppreisnarseggur en ofstækismaður og á því kannski ekki heima í þessum brjáluðu tímum Evrópusögunnar?

En hefst þá þriðja tímabil uppreisna sem Geert from the Well er hluti af. Nær dauða en lífi er hann tekinn inn af friðsömum kommúnuhóp anababtista sem tengja hann aftur við það fallega í tilverunni. Hann hefst handa við útgáfu og dreifingu róttækra trúvillurita og vinnur þá með peningamönnum með viðskiptavit og nettan uppreisnarhug því vaxandi markaður er fyrir trúvillurit. Um leið fer hann meira að tengja sig inn í hið ljúfa líf með fallegum flíkum, lystugum mat og reglulegu baði auk kvenfólks (en ein af syndum anababtista, Rantera og annara trúvillingahópa miðalda var alltaf að afneita því að nokkur synd væri til og ríða eftir smekk).

Gegnum bókina fylgjumst við einnig með umsvifum Q, njósnara rannsóknarréttarmannins Carafa sem situr í Róm. Hlutur Q í sögunni vex eftir því sem á líður því hann leitar að Geert from the Well, sem veit af njósnaranum en báðir eru hinum ósýnilegir. Umhverfi sögunnar færist frá blóðugum dauða í blautri drullu láglandanna til glæsileika Feneyjarborgar og viðbjóðslegri pólitík páfagarðs og rannsóknarréttarins. Þá er sagan um leið að hluta til að breytast í spennusögu þrátt fyrir að ég hafi upphaflega viljað lesa hana vegna anarkísks áhuga á uppreisnum þeirra sem ekkert eiga gegn þeim sem allt eiga.

Eins og ég kom inn á hér að ofan virðist sem sögumaðurinn í Q sé einungis í upphafi með raunverulegan áhuga á guðfræði og guði í manneskjunni í stað kirkjunnar. Hann tapar fljótlega trúnni á bókstafslestur biblíunnar en er prakískur uppreisnarmaður og hermaður predikara anababtista í baráttunni gegn spillingu kirkjunnar og páfagarðs.

Eftir á situr í mér að skilaboð þessarar andspyrnuskáldsögu séu að það borgi sig engann veginn að sökkva sér of djúpt í hverja þá uppreisn eða byltingu sem maður kýs að vera hluti af — manns eigin tilvera og möguleiki til að njóta þess að vera til verður alltaf að vera hluti af þeim ákvörðunum sem teknar eru. Sá eða sú sem gengur útfrá því að akkúrat þessi bylting sem hann eða hún er hluti af sé sú bylting sem mun rétta heim hinna siðmenntuðu af fyrir komandi árþúsundir, hefur eins mikið rangt fyrir sér og hugsast getur. Sem er alveg rétt. Það þarf mikla sögulega blindu eða vanþekkingu til þess að geta haft svo rangt fyrir sér, eða mikið ofstæki, en ofstæki er í eðli sínu blanda af blindu og vanþekkingu og það ofstækisfólk sem nær að lifa nógu lengi til að þroskast eitthvað, hefur þá möguleika á að öðlast persónulega söguvitund og skilja um leið takmörk eigin hugsunar. Enginn dauður maður getur fagnað sigri, hann er hættur að anda.

Öll andspyrna og byltingarvinna er alltaf ævilangt verkefni og ber að umgangast sem slíka. Þess vegna ættu allir uppreisnarseggir að leitast við að fara vel með sig og lifa lengi.

Sigurður Harðarson

Til baka í umfjallanir