Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Seeing
José Saramago
2004


Það eru kosningar og í höfuðborginni virðist sem enginn ætli að mæta kjörstað. Það fer að fara um kjörnefndir og pólitíkusa þegar skyndilega, seinnipartinn, að kjörsókn hrekkur í gang og í einu vetfangi hafa allir skilað atkvæði. Ekki fyrr en um kvöldið, eftir að talningu lýkur, kemur hinn raunverulegi skandall í ljós: yfir 85 prósent hafa skilað auðu. Orðalaust. Sisona. Engin hávær mótmæli, engin umræða. Sama hver er spurður á götu (þegar óeinkennisklædd lögreglan fer á stúfana) enginn viðurkennir að hafa skilað auðum seðli, verið hluti af þessum herfilega glæp gegn þjóðaröryggi, þessari aðför að lýðræðinu.

Sitjandi ríkisstjórn fríkar út vegna þessarar persónulegu móðgunar og flytur sæti sitt frá höfuðborginni, kallar út herinn og lætur hann loka öllum umferðargötum til og frá borginni. Við fylgjumst með framvindu mála gegnum rökstóla og rifrildi ráðherranna og forsetans sem engjast um í leit að blóraböggli. Gegnum gleraugu ríkisvaldsins er þessi hópur einstaklinga staurblindur á hver orsökin gæti verið. Leitin að blóraböggli ber þó árangur þegar forsætisráðherra og tveimur öðrum ráðherrum berast bréf frá karakter úr annari bók Saramago, Blindu.

Kemur í ljós að borgin sem nú er kjarni uppreisnar hinna auðu seðla er hin sama og hverrar íbúar voru slegnir blindu í tímabundinni smitstótt fjórum árum áður. Opinber og félagsleg þöggun virðist hafa verið almennt samþykkt hvað varðar ástandið sem skapaðist meðan blindan stóð yfir. Aldrei hefur verið gruflað í hvað kom fyrir og enginn unnið úr því hörmulega ástandi sem skapaðist. En núna berst ráðherrum bréf um konuna einu sem ekki missti sjónina, mögulega sé hún leiðtogi þeirra sem núna sjá svo skýrt, svo skýrt að þau afneita öllum atvinnustjórnmálamönnum. Innanríkisráðherra sendir þrjá leynilögreglumenn út af örkinni með þau fyrirmæli að finna sönnunargögn hvort sem þau eru til eða ekki. Þeir þrír trúa ekki eigin augum þegar þeir koma inn í borgina:

„Contrary to the predictions of the gloomongers, there had been no more robberies, rapes or murders than before. It seemed that the police were, after all, not essential for the city´s security, that the population itself, spontaneously and in a more or less organized manner, had taken over their work as vigilantes.“ (bls 102)

Þeir þrír gera sitt besta en sá hæstsettasti af þeim þremur hefur það ekki í sér að vera þvingaður til að koma sök á manneskjur sem honum finnst mun saklausari og lífsglaðari en hans eigin yfirmenn. Ég segi ekki meira um söguþráðinn en þegar hér var komið sögu var ég orðinn mjög spenntur að sjá hvernig færi fyrir hinni höfuðlausu uppreisn. Í gegnum bókina eiga þau, sem skila auðu í anarkískri afneitun á gæðum lýðræðisins, sér engan fulltrúa eða sögumann. Það eru viðbrögð vænisjúkra atvinnustjórnmálamann sem segja söguna. Við sjáum einungis utanfrá hvernig viðfangsefni þeirra bregðast við.

Frásagnarstíll José Saramago í þessari skáldsögu er sérstakur. Ekki eru gefin upp nein nöfn heldur vísað til karaktera útfrá stöðu þeirra í sögunni. Samræður renna saman við annan texta án gæsalappa þannig að það tók mig tvo kafla að venjast því að lesa þennan ritstíl. Það litla sem ég þekki af skáldskap Saramago segir mér að í honum liggur þráður dásamlegrar andúðar á yfirvöldum og yfirvaldi. Portúgal hefur sína sögu af ruddalegu ofbeldi af hendi ríkis og kirkju og bók Saramago The Gospel According to Jesus Christ tekin af bókalistum að skipan Portúgölsku ríkisstjórnarinnar. Eins og Saramago segir um ríkisstjórnir í Seeing:

„It is an unverying rule for those in power that, when it comes to heads, it is best to cut them off before they start to think, afterward, it might be too late.“ (bls 105)

Sigurður Harðarson

Til baka í umfjallanir