Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

Two Cheers for Anarchism — Six easy pieces on Autonomy, Dignity, and Meaningful Work and Play
James C. Scott
Princeton University Press 2012


James C. Scott, prófessor í stjórnmálafræði og mannfræði, hefur gegnum sínar rannsóknir rekið sig á að það sem hann fann og lýsir svo vel og skemmtilega í bókum eins og The Art of Not Being Governed og Seeing Like A State kallast á við anarkisma.

Það sem hann sér að gengur upp innan samfélaga manneskja er hið náttúrulega ferli, það ferli og sú hegðun sem stofnanabundin sýn á félagslegt skipulag kallar framleiðnisnauða óreiðu, en þegar horft er með þeim „anarkistagleraugum“ sem Scott notar til að skrifa þessa bók, sést að hefðir sem samfélög manna og annara dýra móta, hafa tilgang fyrir það samfélag. Tilgang sem er ósýnilegur þegar horft er niður á við, ofan af valdapýramídum og ríkisstofnunum. Því miður fyrir hinn félagslega hæfa homo sapiens sem hefur lifað í samfélögum í um sjötíu þúsund ár, hafa stofnanir ríkisins lagt rotlausa vinnu í að taka yfir þessa hæfni, eyða henni og koma í hennar stað. En manneskjur eru skrýtnar skepnur sem bæði láta sér segjast og ekki.

Hægt er að horfa á muninn á samfélögum manna sem ganga upp laus við utanaðkomandi skipulag, og samfélög manna sem enda á að vera skipulögð kringum þær stofnanir sem ætlað var að þjónusta þau, eins á náttúrulegan skóg sem er ruddur til að planta nytjaskógi. Náttúrulegur skógur er samlífi óteljandi tegunda plantna og dýra, samlífi sem finnur sér jafnvægi, meðan nytjaskógur stakrar trjátegundar, þar sem öll tré eru jafngömul, fellur í heild sinni undan einum stormi eða drepst undan einni sníkjudýraplágu.

Þegar manneskjur eru þvingaðar inn í kerfi sem eiga enga samleið með hugsanagangi manneskja, eru viðbrögðin óhlýðni, skemmdarverk og önnur andspyrna gegn kerfunum, nema þegar kerfin eru skipulögð svo djöfullega að þau taka á sig mynd hins nokkuð sjálfstæða smáeignarmanns sem upplifir sig frjálsan og sjálfstæðan gegnum eignarhald á landspildu eða húskofa. Sem dæmi um þessi mannauðsstýrikerfi í falskri ímynd stuðningskerfis sjálfstæðra einstaklinga, nefnir Scott risafyrirtæki kjúklingakjötsframleiðslu sem ræður „bændur“ í ræktunarvinnu. Þeir fá ákveðið magn af ungum og skila af sér einhverju magni af kjúklingakjöti á fæti og taka sjálfir alla fjárhagslega áhættu, verandi skráðir fyrir húsum og landi en hafa ekkert frekar um framleiðsluna að segja.

Scott tekur einnig fyrir menntakerfi sem þvingar mælieiningar á einstaklingsbundna þekkingu upp á nemendur. Bæði dregur hann þau sundur og saman í háði og segir fallega sögu af útbreiddri uppreisn nemenda og kennara gegn stöðluðu prófaformi. Ljós manna verður ekki sett undir mæliker.

Í grundvallaratriðum er þetta lítil, skemmtilega skrifuð og bæði falleg og herfileg bók um mannlegt eðli gegn ómanneskjulegum kerfum möppudýra. Herfilegt dæmi úr bókinni er frá Bandaríkjunum, frá tímum Víetnam stríðsins, þegar Robert McNamara var ráðinn sem stríðsmálaráðherra, beint af framabraut í skipulagningu færibanda Ford verksmiðjanna. Til að geta sýnt fram á velgengni í stríðinu krafði McNamara generála sína um uppsetningu skipurita sem sýndu hvort „við erum að tapa eða vinna í Vietnam.“ Eitt grafið sýndi fjölda felldra andstæðinga og þar sem þeir sem söfnuðu þessum tölum gerðu það vitandi hvaða áhrifa tölurnar hefðu á frama, heiðursmerkjadreifingu og hvíldartíma hermanna, sáu þeir til þess að tala dauðra óvinahermanna hækkuðu. Fljótlega voru öll lík, almennir borgarar einnig, talin sem óvinahermenn og fljótlega upp úr því var talan yfir fellda óvinahermenn orðin hærri en ætlaður fjöldi þeirra hermanna sem bandaríkjaher barðist við í Norður Vietnam. Samt börðust þeir enn af krafti. Svona verða herferðir möppudýra ekki einungis kjánalegar heldur grimmilegar því engin raunveruleg umræða á sér stað, enginn skilningur á hinni mannlegu hlið. Scott vitnar í Einstein sem sagði: „Not everything that counts can be counted and not everything that can be counted, counts.“

Scott er einnig mjög heillaður af rannsóknum Jane Jacobs á hvernig arkitektúr borga er skipulagður útfrá því hvernig manneskjur eiga að vinna, sofa og versla, því arkitektur er blindur á þá staðreynd að það eru manneskjur sem mynda borgir, ekki á hinn veginn. Rétt eins og að skógur er ekki bara „einhver stafli af trjám“ heldur lifandi heild.

Þessi frekar litla bók ætti að virka sem góður inngangur að stærri verkum Scott, þá helst þeim tveim bókuym sem ég nefndi í upphafi. Hans anarkíska sýn á samfélög, manneskjur og stofnanir, er afar grípandi, fróðleg og sannfærandi, vegna þess að hans sýn er um leið fræðileg. Two Cheers for Anarchism er sett fram í stuttum köflum sem gerir hana þægilega aflestrar. Aðeins eitt angraði mig í bókinni: í kaflanum um mælieiningar menntakerfa tekur hann Bandaríkjamenn fyrir, þar sem hann er bandarískur fræðimaður, en ég tengi ekki beint við þann veruleika þó að ég skilji um hvað hann er að fjalla og tengi vitleysuna sem hann bendir á við það menntakerfi sem ég þekki sjálfur.

Sigurður Harðarson

Til baka í umfjallanir